| Sf. Gutt

Aftur upp í toppsætið!


Liverpool náði aftur toppsætinu i deildinni með því að vinna Sheffield United 3:1 á Anfield Road í kvöld. Liverpool var ekki upp á sitt besta á móti botnliðinu en það var fyrir öllu að ná sigri. 

Tvær breytingar voru gerðar á liði Liverpool eftir páskasigurinn á Brighton. Ibrahima Konaté og Ryan Gravenberch komu inn í liðið og þeir Jarrel Quansah og Wataru Endo viku. Japaninn var eitthvað stirður eftir síðasta leik. Curtis Jones kom inn í liðshópinn eftir meiðsli sem hann varð fyrir upp úr miðjum febrúar. Andrew Robertson var í liðshópnum í fyrsta sinn eftir landsleikjahlé en þá varð hann fyrir meiðslum. 

Búist var við öruggum stórsigri Liverpool en eftir hálfa mínútu mátti engu muna að botnlið Sheffield United kæmist yfir. Jack Robinson tók langt innkast frá vinstri. Boltinn fór alla leið yfir á fjærstöng þar sem James McAtee var dauðafrír stutt frá marki. Skot hans var ekki fullkomið en Caoimhin Kelleher gerði vel í að verja í horn með fæti. Upp úr horninu skall aftur hurð nærri hælum en leikmaður United náði ekki að skalla að marki í upplögðu færi.

Liverpool hafði öll völd eftir þetta og á 6. mínútu sló Ivo Grbic boltann frá eftir fyrirgjöf frá vinstri. Boltinn fór til Mohamed Salah sem reyndi að lyfta boltanum í markið en Ivo var mættur til að verja. 

Liverpool komst yfir á 17. mínútu. Ivo fékk boltann til baka. Hann bjó sig í að sparka frá við vítateigslínuna og gerði það. Honum varð illa á því hann sparkaði boltanum beint í Darwin Núnez sem var kominn alveg að honum. Boltinn fór af vinstri ilinni á Darwin og rúllaði í autt markið. Ódýrt mark en vel gert hjá Darwin að pressa á markmanninn. 

Darwin lék á menn inni í vítateignum á 22. mínútu og kom sér í skotfæri. Skotið var á hinn bóginn heldur laust og beint á Ivo. Liverpool var með boltann langtímunum saman en lítið var um opin færi. Dominik Szoboszlai náði góðu skoti utan við vítateignn á 43. mínútu en Ivo varði í horn. Gestirnir enduðu hálfleikinn með sjaldgæfri sókn. Jayden Bogle skaut við vítateiginn eftir hraða sókn en Caoimhin varði. Eitt mark í forystu í hálfleik. 

Liverpool hafði ekki spilað nógu vel í fyrri hálfleik miðað við hverja var við að eiga. Liðið spilaði ekkert betur eftir hlé þó svo að yfirburðir þess væru miklir. Þegar leið að klukkutíma var Jürgen Klopp að undirbúa skiptingu. Mohamed Salah og Ryan Gravenberch skyldu víkja fyrir þeim Harvey Elliott og Andrew Robertson. En áður en skiptingin varð að veruleika lá boltinn allt í einu í marki Liverpool. Fyrirgjöf kom fyrir frá hægri yfir á fjærstöng. Þar náði Gustavo Hamer að skalla að markinu af stuttu færi og öllum að óvörum endaði boltinn í markinu. Í ljós kom að boltinn fór í Bradley Conor og af honum í markið. Það hlaut að vera! Liverpool fer aldrei auðveldustu leiðirnar!

Nú var orðið jafnt eftir 58 mínútur. Þeir Harvey  og Andrew voru drifnir til leiks eins og ákveðið hafði verið. Reyndar höfðu þeir strax góð áhrif á leik Liverpool. Á 58. mínútu átti Virgil skalla eftir fyrirgjöf Dominik en Ivo gerði vel og varði. Liverpool sótti sem fyrr en án árangurs. Á 73. mínútu voru Cody Gakpo og Curtis Jones settir inn fyrir Joe Gomes og Dominik Szobozlai. Þessir varamenn höfðu líka góð áhrif.

Enn herti á sókn Liverpool. Loksins á 76. mínútu bar hún árangur. Andrew sendi fyrir frá vinstri. Varnarmaður hugðist hreinsa frá en skaut beint í Luis. Af honum hrökk boltinn út fyrir vítateiginn á Alexis sem hamraði boltann viðstöðulaust upp í hægri vinkilinn á markinu fyrir framan Kop stúkunni. Stórfenglegt skot og með allra fallegustu mörkum! Fögnuðurinn í rigningunni var trylltur!

Nú var björninn svo til unninn en ekki alveg. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Alexis tók hana og hitti boltann fullkomlega en því miður fór boltinn í vinkilinn og gestirnir sluppu. Á lokamínútunni gerði Liverpool endanlega út um leikinn. Andrew gaf inn í vítateiginn frá vinstri. Hann hitti beint á höfuðið á Cody sem skallaði af öryggi í markið. Nú var björninn unninn og Liverpool komið í efsta sætið á nýjan leik!

Liverpool komst aftur í efsta sætið og það var eins gott því bæði Arsenal og Manchester City voru búin að vinna sína leiki í umferðinni. Yfirburðir Liverpool voru gríðarlegir en liðið spilaði samt ekki upp á sitt besta. Varamennirnir færðu líf í leikinn og að lokum var sigurinn innsiglaður. Það var fyrir öllu!

Liverpool: Kelleher, Bradley, Konaté, van Dijk, Gomez (Gakpo 72. mín.), Szoboszlai (Jones 73. mín.), Mac Allister, Gravenberch (Robertson 60. mín.), Salah (Elliott 60. mín.), Núnez og Díaz. Ónotaðir varamenn: Adrián, Tsimikas, Clark, Danns og Quansah.

Mörk Liverpool: Darwin Núnez (17. mín.),  Alexis Mac Allister (76. mín.) og Cody Gakpo (90. mín.). 

Sheffield United: Grbic, Holgate (B. Slimane 87. mín.), Ahmedhodzic, Robinson, Bogle, de Souza Costa, Arblaster, Hamer (Osborn 62. mín.), Trusty (Brooks 78. mín.), McAtee (McBurnie 63. mín.) og Brereton (Osula 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Foderingham, Norwood, Osborn, Larouci og Curtis.

Mark Sheffield United: Conor Bradley, sm, (58. mín.).

Gult spjald: Oliver McBurnie.

Áhorfendur á Anfield Road: 60.055. 

Maður leiksins: 
Alexis Mac Allister átti enn einn stórleikinn. 

Jürgen Klopp: ,,Eftir fyrstu andartökin stjórnuðum við leiknum. Það er hægt að gera það á ýmsa vegu og í þetta skiptið gerðum við það ekki nógu vel. Ástæðan var sú að við sköpuðum ekki nógu mörg marktækifæri. En þegar upp var staðið var allt í fínasta lagi."

Fróðleikur

- Darwin Núnez skoraði 18. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Alexis Mac Allister skoraði í sjötta sinn á leiktíðinni. 

- Cody Gakpo er nú búinn að skora 14 mörk á sparktíðinni. 

- Harvey Elliott spilaði á afmælisdegi sínum. Hann átti 21. afmæli í dag. 

- Cody Gakpo varð fyrstur varamanna, í sögunni, til að skora fyrir Liverpool gegn Sheffield United. 

- Liverpool skoraði tvö mörk á síðasta stundarfjórðungi leiksins. 

- Það sem af er leiktíðar hefur Liverpool skoraði 26 mörk á þeim tíma leikja. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan