| Sf. Gutt

Öruggur sigur!

Liverpool 3:0 sigur á Bournemouth á Anfield Road í dag. Sigurinn var öruggur þegar upp var staðið þó gestirnir stæðu vel í Liverpool á köflum. 

Bournemouth komst yfir eftir þrjár mínútur með marki Antoine Semenyo. Sem betur fer var markið dæmt af eftir sjónvarpsdómgæslu. Rétt á eftir fékk Luis Díaz boltann vinstra megin. Hann lék til hliðar og skaut fast að marki en Kepa Arrizabalaga náði að verja. 

Liverpool komst svo yfir á 26. mínútu. Ibrahima Konaté sendi háa og langa sendingu fram frá eigin vallarhelmingi. Luis Díaz stefndi á að ná boltanum þegar hann kom niður við vítateiginn. Kapa kom æðandi út á móti Luis en Kólumbíumaurinn var fljótari og náði boltanum. Hann lék inn í vítateiginn og sendi hann því næst í markið framhjá einum manni sem var til varnar við línuna. Tveimur mínútum seinna bætti Liverpool í. Trent Alexander-Arnold lék fram hægri kantinn frá eigin vallarhelmingu. Hann lék svo inn til vinstri þegar kom að vítateignum og sendi á Luis. Hann fékk boltann á móts við vinstra vítateigshornið, lék aðeins nær áður en hann skaut undir Kapa í markinu. Magnaður leikkafli hjá Luis með tvö mörk á tveimur mínútum!

Níu mínútum seinna gerði Liverpool svo gott sem út um leikinn. Ibrahima sendi fram að miðju frá eigin vítateig. Darwin Núnez skallaði til Mohamed Salah sem gaf boltann viðstöðulaust aftur á Darwin. Hann tók á rás inn í vítateiginn hægra megin, lék framhjá einum varnarmanni utarlega í teignum og skaut svo bogaskoti í fjærstöngina og inn. Gullfallegt mark! Darwin fagnaði innilega enda var þetta fyrsta mark hans frá því í apríl. Örugg forysta í hálfleik. 

Liverpool hafði örugg tök á leiknum í síðari hálfleik. Á 72. mínútu komu Cody Gakpo og Federico Chiesa inn sem varamenn. Federico lét strax til sín taka og skaut að marki langt utan vítateigs en boltinn fór beint á Kapa. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu skotinu vel. Þegar átta mínútur voru eftir átti Luis Sinisterra skoti frá vinstra markteigshorninu sem Caoimhín Kelleher varði stórvel í horn. Upp úr honrinu átti Luis skalla sem fór í slána og niður. Boltinn fór svo í varnarmann og stefndi í markið en Caoimhin gerði vel í að skutla sér á eftir boltanum og slá hann frá á marklinunni. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu vel í leikslok enda liðið aftur komið á sigurbraut.

Þegar upp var staðið var sigur Liverpol öruggur þó svo gestirnir stæðu sig mjög vel. Þrjú mörk á 11 mínútum í fyrri hálfleik gerðu út um leikinn!

Liverpool: Kelleher, Robertson, van Dijk, Konaté, Alexander-Arnold, Mac Allister, Gravenberch, Díaz (Gakpo 72. mín.), Szoboszlai (Jones 61. mín.), Salah og Núnez (Chiesa 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaros, Bradley, Quansah, Gomez, Jota og Tsimikas.

Mörk Liverpool: Luis Díaz (26. og 28. mín.) og Darwin Núnez (37 mín.). 

Gult spjald: Ibrahima Konaté.

Bournemouth: Kepa, Kerkez, Huijsg, Zabarnyi, Araujo (Smith 69. mín.), Christie (Scott 69. mín.), Cook, Tavernier, Kluivert (Ouattara 46. mín.), Semenyo (Sinisterra 70. mín.) og Evanilson (Ünal 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Brooks, Hill, Senesi og Travers.

Gul spjöld: Ryan Christie, Justin Kluivert, Dean Huijsen og Lewis Cook.  

Áhorfendur á Anfield Road: 60.347.

Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var algerlega magnaður. Æddi út um allt og skapaði hvað eftir annað usla. 

Andre Slot: ,,Lokastaðan segir kannski að leikurinn hafi verið auðveldur. En sú var ekki raunin."  

Fróðleikur

- Luis Díaz er nú kominn með fimm mörk á keppnistímabilinu.

- Darwin Núnez skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Trent Alexander-Arnold er nú búinn að koma að 100 mörkum á ferli sínum hjá Liverpool. Hann hefur skorað 19 og lagt upp 81.

- Alls voru 60.347 áhorfendur á Anfield. Áður hafa ekki komið fleiri áhorfendur á deildarleik á Anfield. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan