Áfram í Deildarbikarnum
Vörn Liverpool á Deildarbikarnum heldur áfram eftir 2:3 sigur á Brighton and Hove Albion. Góður sigur eftir að miklar breytingar voru gerðar á liðinu.
Á 7. mínútu mátti litlu muna að markmaður Brighton myndi missa boltann til Dominik Szoboszlai rétt við markið sitt. Þetta var í annað sinn sem hann var við að missa boltann í uppspili sínu. Á 13. mínútu fengu heimamenn sitt fyrsta færi. Tariq Lamptey komst í gegn en Vitezslav kom út á móti og varði stórvel með góðu úthlaupi. Liverpool fór fram í sókn og Cody Gakpo komst í skotfæri en skot hans fór framhjá.
Á 33. mínútu átti Andrew Roberton góða sendingu fyrir. Dominik átti skot sem Jason Steele varði. Í framhaldinu skallaði Luis Díaz framhjá. Sex mínútum seinna lagði Cody upp færi fyrir Andrew í teignum en Jason varði naumlega með fæti. Markalaust í hálfleik.
Síðari hálfleikur hefði ekki getað byrjað betur fyrir Liverpool. Tyler Morton sendi fram vinstri kantinn frá miðjunni. Boltinn fór til Cody Gakpo. Hann lék inn í vítateiginn þaðan sem hann þrumaði boltanum út í hornið fjær. Glæsilegt bogaskot sem Jason átti ekki nokkra möguleika á að verja. Ein mínúta liðin af hálfleiknum!
Litlu síðar skall hurð nærri hælum við mark Liverpool. Simon Adingra átti fastan skalla við markteiginn. Vitezslav henti sér til vinstri og varði meistaralega í stöng. Hann hélt ekki boltanum en hættunni var bægt frá. Vel gert hjá Tékkanum í markinu. Á 53. mínútu ógnuðu heimamenn aftur þegar Brajan Gruda átti gott bogaskot sem fór rétt framhjá.
Á 62. mínútu fékk Brighton horn. Liverpool bjargaði og sneri vörn í sókn. Einn varnarmaður Brighton var á móti þremur leikmönnum Liverpool. Cody lék fram að vítateignum á gaf á Dominik en Jason kom út og varði. Hroðalega farið með dauðafæri! En Liverpool bætti úr mínútu seinna. Vitezslav sparkaði langt fram, Cody náði boltanum eftir mistök í vörn Brighton og rauk inn í vítateiginn. Þaðan skoraði hann með föstu skoti neðst í vinstra hornið. Aftur góð afgreiðsla hjá Hollendingnum!
Ekkert benti til annars en Liverpool hefði boltann í höndum sér en níu mínútum fyrir leikslok komst Brighton inn í leikinn. Jarell Quansah átti mislukkaða sendingu fyrir framan vítateiginn sinn. Upp úr því átti Evan Ferguson fast skot sem Vitezslav varði vel. Hann náði ekki að halda boltanum. Simon fylgdi á eftir og skoraði.
Liverpool svaraði fjórum mínútum seinna. Curtis Jones átti skot sem Jason varði. Luis var vel vakandi við markteiginn, náði boltanum eftir mislukkaða hreinsun, lék framhjá tveimur varnarmönnum og skoraði við markteiginn. Heimamenn gáfust ekki upp. Á lokamínútunni skaut Tariq utan við vítateiginn. Boltinn rakst í Jarell, það fipaði Vitezslav og boltinn lá í markinu. Liverpool varði forystuna út viðbótartímann og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.
Liverpool spilaði í heildina býsna vel. Liðið var mikið breytt frá því á sunnudaginn en þeir sem komu inn stóðu fyrir sínu. Brighton hafði ekki tapað heima á þessari leiktíð og því sterkt að leggja Mávana að velli!
Mörk Brighton: Simon Adingra (81. mín.) og Tariq Lamptey (90. mín.).
Mörk Liverpool: Cody Gakpo (46. og 63. mín.) og Luis Díaz (85. mín.).
Gult spjald: Wataru Endo.
Áhorfendur á Amex leikvanginum: 28.441.
Maður leiksins: Cody Gakpo. Hollendingurinn var frábær og skoraði tvö mörk. Fyrra mark hans var sérlega glæsilegt.
Arne Slot: ,,Ég var virkilega ánægður með það, sem leikmennirnir sem lítið hafa spilað fram til þessa á leiktíðinni, sýndu. Þeir spiluðu vel í því kerfi sem við höfum verið að spila og sýndu hvað í þeim býr. Það verður því ennþá erfiðara að velja liðið á næstu vikum."
Fróðleikur
- Þetta var í þriðja sinn sem Liverpool mætir Brighton í Deildarbikarnum. Liverpool hefur alltaf komist áfram.
- Cody Gakpo er nú kominn með fjögur mörk á keppnistímabilinu.
- Hann er nú búinn að skora átta mörk í Deildarbikarnum. Fjögur á síðustu leiktíð og hann er aftur kominn með fjögur á þessari.
- Luis Díaz skoraði sjötta mark sitt á sparktíðinni.
- Ranel Young var í fyrsta sinn í aðalliðhóp Liverpool.
- Andrew Robertson var fyrirliði Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu