| Sf. Gutt

Englandsmeistararnir teknir í gegn!

Liverpool hélt áfram frá því sem frá var horfið á móti Real Madrid og tók Englandsmeistara Manchester City í gegn. Liverpool vann 2:0 á Anfield Road og hefur góða forystu í efsta sæti deildarinnar. 

Liverpool spilaði frábærlega á móti Evrópumeisturunum. Englandsmeistararnir höfðu verið í vandræðum í síðustu leikjum. Margir töldu því gott að mæta þeim núna. Ibrahima Konaté og Conor Bradley meiddust á móti Real og komu þeir Joe Gomes og Trent Alexander-Arnold inn í þeirra stað. Trent hefur verið frá síðustu vikur og því gott að hafa hann til taks. Dominik Szoboszlai var valinn á miðjuna í staðinn fyrir Curtis Jones. Það kom nokkuð á óvart því Curtis var frábær á móti Real. 

Stuðningsmenn Liverpool gáfu tóninn þegar þeir sungu þjóðsönginn að miklum krafti fyrir leikinn. Leikmenn Liverpool gáfu líka tóninn frá upphafsflauti dómarans. Rauði herinn tók öll völd og hver sóknin af annarri buldi á gestunum!

Liverpool ógnaði fyrst á 11. mínútu þegar Dominik átti bylmingsskot við vítateiginn sem Stefan Ortega varði með erfiðleikum og sennilega hefði hann ekki varið skotið nema af því boltinn fór beint á hann. Rétt á eftir átti Virgil van Dijk skalla eftir horn sem fór í innanverða stöngina. Í sjónvarpi sást að Stefan rétt náði að strjúka boltann með fingurdómi og sú snerting bjargaði marki. 

Það lá nærri að spurningin væri bara hvenær en ekki hvort Liverpool kæmist yfir og það gerðist. Liverpool byggði upp sókn á eigin vallarhelmingi. Trent fékk boltann á miðjum vallarhelmingi sínum. Hann negldi honum hátt og langt út til hægri á Mohamed Salah sem lék inn í vítateiginn og gaf fyrir markið. Cody Gakpo skaut sér fram við fjærstöngina og stýrði boltanum í markið af örstuttu færi. Glæsileg sókn og allt sparakk úr fögnuði!

Áfram herjaði Liverpool á mark Manchester City. Á 19. mínútu fékk Liverpool horn frá hægri. Boltinn rataði bein á Virgil en hann skallaði rétt framhjá. Upplagt skallafæri og fyrirliðinn hefði átt að skora. Hver sóknin rak aðra. Á 34. mínútu fékk Trent skotfæri upp úr hornspyrnu en skot hans fór hárfínt framhjá markinu vinstra megin. Þegar flautað var til hálfleiks hefði Liverpool átt að vera minnst þremur mörkum yfir. Slíkir voru yfirburðirnar!

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af sama krafti og á 50. mínútu sendi Andrew Robertson frábæra sendingu fram á Cody sem slapp inn í vítateiginn. Hann virtist vera að búa sig í að skjóta boltanum í markið en þá kom varnarmaður og bjargaði í horn á síðustu stundu. Um sex mínútum seinna komst Mohamed einn í gegn. Hann sendi boltann framhjá Stefan en boltinn fór yfir hárfínt yfir. Þarna bjuggust allir við marki!

Í kjölfarið náði Manchester City í fyrsta sinn góðum kafla. Þeir náðu þó lítt að klekkja á vörn Liverpool sem var þétt. Það var varla að Caoimhin Kelleher þyrfti nokkurn skapaðan hlut að gera. 

Það gat svo sem allt gert fyrst aðeins einu marki munaði en þegar 12 mínútur voru eftir réðust úrslitin. Varamaðurinn Darwin Núnez pressaði öftustu vörn gestanna og upp úr því slapp Luis Díaz einn í gegn. Stefan sópaði honum niður inni í vítateignum og dómarinn gat ekki annað en dæmt víti. Mohamed steig fram þó honum hefði mistekist í síðasta víti sínu á miðvikudagskvöldið. Hann skaut boltanum af nákæmni neðst út í hægra hornið. Stefan átti ekki möguleika og Rauði herinn kominn með sigurinn á sitt vald. 

Manchester City fékk sitt eina hættulega færi á 83. mínútu. Virgil ætlaði að leika á varamanninn Kevin De Bruyne  rétt utan við vítateiginn. Kevin náði boltanum af honum og komst inn í vítateig. Caoimhin var fullkomlega með á nótunum, lokaði á Belgann, varði og náði svo boltanum. Slæm mistök hjá Virgil en enn og aftur sýndi Caoimhin hversu góður hann er. Liverpool sigldi sigrinum örugglega til hafnar og í leikslok var vel fagnað!

Liverpool spilaði frábærlega og sennilega var þetta besti leikurinn á leiktíðinni. Vissulega hefur Manchester City verið í vandræðum í síðustu leikjum en það dregur ekki úr frábærum leik Liverpool og gríðarlegum yfirburðum frá upphafi til enda. Það er langt til vors og dagurinn er enn að styttast. En Liverpool getur vart verið í betri stöðu þegar hér er komið við sögu. Nú er að halda einbeitingu og halda áfram á sömu braut!

Mörk Liverpool: Cody Gakpo (12. mín.) og Mohamed Salah, víti, (78. mín.).

Gult spjald: Ryan Gravenberch.

Gul spjöld: Matheus Nunes, Phil Foden og Manuel Akanji.

Áhorfendur á Anfield Road: 60.248.

Maður leiksins: Virgil van Dijk. Líkt og gegn Real Madrid hefði næstum verið hægt að velja hvaða mann sem er. Allt liðið var hreint út sagt frábært. En fyrirliðinn verður fyrir valinu. Hann sýndi styrk sinn hvað eftir annað í hinum ýmsu aðstæðum. Framúrskarandi! 

Arne Slot: ,,Þegar upp er staðið eru úrslitin það sem mestu skiptir en við spiluðum frábærlega. Ef mögulegt á að vera að leggja lið á borð við City að velli þarf allt í leik liðs að vera gott."

Fróðleikur

- Cody Gakpo skoraði áttunda mark sitt á keppnistímabilinu.

- Mohamed Salah skoraði í 13. sinn á leiktíðinni. 

- Mohamed er nú búinn að skora í síðustu sex deildarleikjum sínum á heimavelli. 

- Þetta var aðeins annar sigur Liverpool á Manchester City í síðustu tíu deildarleikjum liðanna. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan