Fyrsta tapið frá í haust
Liverpool tapaði sínum fyrsta leik frá því um miðjan september þegar liðið mátti þola 1:0 tap á útivelli fyrir Tottenham Hotspur í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Deildarbikarsins. Liverpool hefur því verk að vinna í seinni leik liðanna.
Liverpool tefldi fram sterku liði. Reyndar var skipt um þrjá menn í vörninni en Alisson Becker var í markinu. Það var því greinilegt að leikurinn var tekinn alvarlega. Annað væri það. Tveir leikir í úrslitaleik á Wembley og bikar að verja!
Heimamenn fengu fyrsta færi leiksins á 6. mínútu. Radu Dragusin náði þá að stýra boltanum að marki eftir horn frá hægri en Alisson Becker henti sér til til vinstri og varði í horn. Í kjölfarið þurfti að gera um tíu mínútna hlé á leiknum til að huga að Rodrigo Bentancur sem lá eftir meiddur. Hann var borinn af velli.
Á 23. mínútu ógnaði Liverpool fyrst. Mohamed Salah fékk boltann frá Cody Gakpo við vítateiginn en skot hans fór framhjá. Eftir hálftíma fór Jarell Quansah af velli. Reiknað var með því að hann væri meiddur en eftir leik kom í ljós að miðvörðurinn var veikur. Wataru Endo kom inn sem miðvörður við hlið Virgil van Dijk. Leikurinn var tíðindalítill til leikshlés og liðin gengu af velli án marka.
Tottenham fékk upplagt færi á 56. mínútu. Alisson var of værukær við að koma boltanum frá. Lucas Bergvall sótti að honum og Alisson missti boltann. Boltinn fór til Pedro Porro en hann skaut framhjá auðu markinu. Þar slapp Liverpool með skrekkinn. Þetta var svo sem ekki í fyrsta skiptið sem mislukkaðar sendingar höfðu komið öftustu vörn Liverpool í vanda í leiknum.
Eftir klukkutíma komu þeir Trent Alexander Arnold, Luis Díaz og Darwin Núnez til leiks. Níu mínútum seinna stakk Mohamed boltann fram á Darwin. Hann náði skoti við hægra marteigshornið en Antonin Kinsky varði með úthlaupi. Vel gert hjá Tékkanum sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Tottenham. Tveimur mínútum seinna fékk Trent boltann hægra megin í vítateignum. Hann náði góðu skoti sem fór framhjá Antonin en varnarmaður náði að bjarga á línu. Boltinn barst til Alexis Mac Allister en hann hitti ekki markið.
Þegar um stundarfjórðungur var eftir slapp Dominic Solanke í gegn og skoraði en markið var dæmt af, vegna rangstöðu, með sjónvarpsdómgæslu. Tók drjúgan tíma að kveða upp úrskurðinn.
Allt stefndi í jafntefli þegar Tottenham skoraði á 86. mínútu. Dominic fékk langa sendingu fram og kom boltanum fyrir fætur Lucas sem skoraði með öruggu skoti úr vítateignum. Heimamenn fögnuðu ógurlega en Rauðliðar voru hinir verstu þar sem þeir töldu að Lucas hefði átt að vera rekinn af velli nokkrum andartökum fyrir markið. Hann sparkaði þá Kostas Tsimikas niður og hefði með réttu átt að fá gult spjald fyrir. Hann var áður búinn að fá gult. Til að bæta gráu ofan á svart var Kostas utan vallar til að láta huga að eymslum eftir brotið þegar brotamaðurinn skoraði og það hans megin í vörninni! Ekki að undra þótt leikmenn og þjálfaralið Liverpool sýndu hörð viðbrögð. Liverpool sótti stíft undir lokin og í viðbótartíma náði Darwin að stýra boltanum á markið í markteignum en Tékkinn ungi varði í horn. Fyrsta tap Liverpool frá því í september varð því staðreynd!
Liverpool var ekki upp sitt besta í leiknum. Þó spilaði liðið fyllilega nógu vel til að koma úr honum án taps. En það er mikið verk að vinna í seinni leik liðanna. Það er þó sannarlega bót í máli að eiga annan leik eftir og hann í Musterinu!
Tottenham Hotspur: Kinský, Spence, Gray, Dragu?in, Porro, Bergvall, Bentancur (Johnson 15. mín.), Bissouma, Son Heung-Min (Werner 72. mín.), Solanke og Kulusevski. Ónotaðir varamenn: Austin, Dorrington, Lankshear, Moore, Reguilón og Yang Min-Hyeok.
Mark Tottenham: Lucas Bergvall (86. mín.).
Gul spjöld: Yves Bissouma og Lucas Bergvall.
Liverpool: Becker, Tsimikas, van Dijk, Quansah (Endo 30. mín.), Bradley (Alexander-Arnold 60. mín.), Mac Allister (Konaté 80. mín.), Gravenberch, Gakpo (Díaz 60. mín.), Jones, Salah og Jota (Núnez 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Chiesa og Robertson.
Áhorfendur á Tottenham Hotspur leikvanginum: 59.037.
Maður leiksins: Alexis Mac Allister. Argentínumaðurinn var mjög góður á miðjunni eins og í síðustu leikjum.
Arne Slot: ,,Við vissum að þessi leikur yrði aldrei eins og leikurinn hérna fyrir rúmum tveimur vikum. Samt sá ég margt af því sem við sýndum þá í leik okkar núna."
Fróðleikur
- Þetta er í 20. sinn sem Liverpool hefur leikið í undaúrslitum Deildarbikarsins. Það er met í keppninni.
- Tottenham er í undanúrslitum keppninnar í 18. sinn sem er það næst mesta á eftir Liverpool.
- Tapið var það fyrsta hjá Liverpool frá því 14. september þegar liðið tapaði fyrir Nottingham Forest á Anfield.
- Liverpool hafði leikið 24 leik án taps í öllum keppnum frá því í september.
-
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu -
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað -
| Sf. Gutt
Meiðslafréttir -
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól!