Auðvelt áframhald!
Liverpool komst auðveldlega áfram í 4. umferð í FA bikarnum eftir auðveldan 4:0 sigur á Accrington Stanley á Anfield Road í dag.
Arne Slot sendi býsna sterkt lið til leiks og kannski sterkara en margir áttu von á því mótherjinn var lið úr neðri hluta sjórðu efstu deildar. Einn unglingur var settur í byrjunarliðið. Um var að ræða Rio Ngumoha sem sló félagsmet með því að vera yngstur leikmanna í sögu Liverpool til að spila í FA bikarnum.
Dominik Szoboszlai kom aftur til leiks eftir að hafa misst af síðustu tveimur leikjum vegna veikinda. Það er gott að Ungverjinn er aftur leikfær. Sjö af þeim leikmönnum sem mest hafa spilað fyrir Liverpool á leiktíðinni fengu alveg frí.
Liverpool tók skiljanlega öll völd frá upphafi í kuldanum. Reyndar reyndu leikmenn Liverpool lítið á sig lengi vel og spiluðu mjög hægt. Það var ekki eins og menn væru að hlaupa sér til hita. Liverpool ógnaði fyrst á 12. mínútu. Trent Alexander-Arnold átti þá fast skot frá vítateig sem markmaður Accrington varði með fæti. Darwin Núnez tók frákastið en mokaði boltanum upp í stúku.
Ísinn var brotinn á 29. mínútu. Accrington fékk aukaspyrnu á vallarhelmingi Liverpool. Liverpool hreinsaði og sneri vörn í sókn. Boltinn gekk fram og út til hægri á Darwin sem sendi þvert fyrir markið á Diogo Jota sem skoraði auðveldlega, framhjá Billy Crellin, í markteignum. Fyrsta mark Diogo eftir meiðslin í haust. Vel gert hjá Darwin að leggja upp mark en annars gekk lítið hjá honum eins og í síðustu leikjum.
Á síðustu mínútu hálfleiksins bætti Liverpool við marki. Dominik gaf á Trent þar sem hann var utan við vítateiginn hægra megin. Hann lagði boltann fyrir sig og hamraði hann svo út í vinstra upp hornið í stöng og inn ofarlega. Frábært skot hjá Trent sem brosti út að eyrum. Gott að sjá hann glaðan!
Gestirnir ógnuðu fyrst á 57. mínútu. Josh Woods fékk þá boltann upp úr hornspyrnu. Hann náði góðu skoti að marki og hafnaði boltinn í þverslánni og fór yfir. Á 72. mínútu kom ungliðinn Jayden Danns til leiks og leysti Rio af hólmi. Rio fékk verðskuldað klapp þegar hann fór af velli. Góð frumraun hjá þessum efnilega unglingi.
Jayden beið ekki boðanna með að láta til sín taka. Fjórum mínútum seinna vann hann boltann við miðjuna. Hann tók á rás fram að vítateig Accrington. Hann gaf út til hægri á Federico sem komst inn í teig. Billy var vel á verði, kom út á móti Ítalanum og varði frá honum. Boltinn hrökk út í teiginn og augnabliki síðar þandi hann netið. Jayden var sannarlega vel vakandi. Var fyrstur að boltanum og smellti honum í markið. Frábært fyrir piltinn að skora eftir að hafa verið fimm mánuði frá vegna meiðsla.
Federico var mikið á ferðinni og reyndi hvað hann gat til að setja mark sitt á leikinn. Þegar þrjár mínútur voru eftir fékk hann boltann við markteiginn hægra megin en skot hans fór í stöng. Ítalinn gafst ekki upp og á síðustu mínútunni fékk hann boltann frá varamanninum Trey Nyoni. Hann lék aðeins nær teignum og skaut svo á markið af um 25 metra færi. Boltinn fór neðst út í vinstra hornið, í stöngina og inn. Federico brosti út að eyrum fyrir framan Kop stúkuna. Honum var greinilega létt enda búinn að eiga erfitt uppdráttar frá því hann kom til Liverpool. Leikurinn endaði sem sagt eins og best gat verið!
Liverpool hafði auðvitað mikla yfirburði gegn Accrington sem er í fjórðu efstu deild. Margir leikmenn, sem lítið hafa spilað, fengu kærkomið tækifæri úti á grasinu og búa vonandi að því á næstu vikum. Accrington stóð sig með sóma og væntanlega hafa leikmenn liðsins upplifað draum með því að spila móti Liverpool á Anfield!
Liverpool: Kelleher: Alexander-Arnold (Bradley 60), Quansah, Endo (Nyoni 79), Tsimikas; Morton (McConnell 60); Elliott, Szoboszlai (Chiesa 45), Jota, Ngumoha (Danns 72); Nunez. Ónotaðir varamenn: Jaros, Diaz, Mac Allister og Robertson.
Mörk Liverpool: Diogo Jota (29. mín.), Trent Alexander Arnold (45. mín.), Jayden Danns (76. mín.) og Federico Chiesa (90. mín.).
Accrington Stanley: Crellin: Love, Rawson, Awe; J Woods (O’Brien 63), Khumbeni (Coyle 45), Martin (Conneely 63), Hunter (Henderson 45), B Woods; Walton (Mooney 78) og Whalley. Ónotaðir varamenn: Kelly, Knowles, Batty og Aljofree.
Gul spjald: Alex Henderson.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.261.
Maður leiksins: Rio Ngumoha. Kannski voru einhverjir betri en unglingurinn setti félagsmet með því að verða yngstur leikmanna Liverpool til að taka þátt í FA bikarnum. Hann átti góða spretti og stóð vel fyrir sínu.
Arne Slot: ,,Fyrst langar mig til að hrósa mótherjum okkar fyrir hversu vel þeir stóðu sig í dag. Fyrir okkur snerist þetta mikið um leikmennina sem hafa ekki spilað mikið fyrir okkur hingað til á leiktíðinni. Við vildum gefa þeim tíma til að spila og það gilti líka um ungliðana."
Fróðleikur
- Þetta var í annað sinn sem Liverpol mætir Accrington í FA bikarnum. Áður gerðist það 1956. Liverpool komst þá áfram 2:0 með tveimur mörkum Billy Liddell.
- Rio Ngumoha varð yngstur leikmanna Liverpool til að spila í FA bikarnum.
- Diogo Jota skoraði sjöunda mark sitt á keppnistímabilinu.
- Trent Alexander-Arnold skoraði í annað sinn á leiktíðinni.
- Jayden Danns opnaði markareikning sinn á sparktíðinni.
- Jaden lék einn leik í FA bikarnum á síðustu leiktíð og skoraði þá tvö mörk. Hann hélt áfram þaðan sem frá var horfið þá.
- Federico Chiesa skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool.
- Þrír leikmenn voru fyrirliðar Liverpool. Fyrst Trent, svo Wataru og loks Diogo.
-
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur -
| Sf. Gutt
Farinn heim -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið frá í haust -
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu -
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað