Fyrsta tapið!
Nú þegar komið er að stórleik Liverpool og Nottingham Forest er alveg tilefni til að rifja upp fyrri leik liðanna frá því í haust. Forest vann þá sigur sem þá þótti óvæntur.
Eftir fyrsta landsleikjahlé haustsins hafði Liverpool sem betur fer úr sínum bestu mönnum að velja. Sú hefur ekki alltaf verið raunin eftir landsleikjahrotur. Reyndar lenti Harvey Elliott á meiðslalistann en hann var lítið búinn að koma við sögu fram til þessa á leiktíðinni.
Liverpool hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína en fljótlega sást að liðið var ekki alveg jafn kraftmikið og í fyrstu leikjunum. Liðið var mjög mikið með boltann en vörn Forest, sem kom ósigrað til Liverpool, var mjög þétt. Liverpool fékk gott færi á 17. mínútu. Luis Díaz náði þá boltanum af varnarmanni Forest við endalínuna og náði skoti að marki en boltinn small í stönginni. Þar sluppu gestirnir vel en skotfærið hjá Luis var þröngt. Á 37. mínútu fékk Liverpool horn frá vinstri. Trent Alexander-Arnold hitti beint á Alexis Mac Allister sem náði góðum skalla en Matz Sels varði vel. Rétt á eftir átti Luis lausan skalla að markinu beint á Matz. Hann misreiknaði boltann og var rétt búinn að missa hann í eigið mark. Ekkert mark í hálfleik.
Liverpool hélt áfram að sækja eftir hlé og á 52. mínútu lék Mohamed Salah sig í færi. Hann skaut úr þröngu færi en Matz varði. Áfram sótti Liverpool en á 72. mínútu komst Forest yfir gegn gangi leiksins. Anthony Elanga komst fram hægra megin og sendi svo yfir til vinstri á Callum Hudson-Odoi. Hann lék nær vítateignum og skaut svo hárnákvæmu skoti neðst út í hægra hornið. Alisson Becker virtist kannski hafa misreiknað skotið og kom engum vörnum við. Fram til þessa hafði hann varla haft neitt að gera.
Nógur tími var til stefnu en það var sama hvað leikmenn Liverpool reyndu. Lið Forest varðist frábærlega sem heild og Liverpool náði ekki að jafna.
Þó svo Forest hefði verið ósigrað fyrir leikinn var þetta mjög óvænt tap. Liverpool lék ekki af jafn miklum krafti og í fyrstu þremur leikjunum.
Gult spjald: Andrew Robertson, Ryan Gravenberch, Dominik Szoboszlai og Trent Alexander-Arnold.
Mark Nottingham Forest: Callum Hudson-Odoi (72. mín.).
Gul spjöld: Alex Moreno, Ryan Yates, Matz Sels og Anthony Elanga.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.344.
Maður leiksins: Ryan Gravenberch var sterkur á miðjunni. Hann er búinn að byrja leiktíðina mjög vel.
Fróðleikur
- Liverpool náði ekki að skora í fyrsta sinn á leiktíðinni.
- Þetta var fyrsti sigur Nottingham Forest á Anfield frá því 1969.
- Alls voru 60.344 áhorfendur á leiknum. Það er nýtt met fyrir áhorfendafjölda á deildarleik á Anfield.
-
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur -
| Sf. Gutt
Farinn heim -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið frá í haust -
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu -
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað