Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest?
Liverpool heimsækir Nottingham Forest á City Ground í kvöld. Forest er eitt af þeim liðum sem stuðningsmönnum Liverpool líkar hvað verst við, ef sagan er skoðuð. En af hverju?
"We hate Nottingham Forest, we hate Everton too. We hate Man. United, but Liverpool we love you"
Það er mikil spenna fyrir leik Liverpool og Nottingham Forest á City Ground í kvöld. Þið sem fylgist með fréttum og samfélagsmiðlum frá Liverpool hafið örugglega orðið vör við töluverðan fjandskap milli liðanna. Fjandskap sem við hérna heima skiljum kannski ekki öll. Nottingham Forest er nefnilega í hugum sumra eldri stuðningsmanna ekki síðri fjandvinur en Everton og Manchester United, svo merkilegt sem það nú kann að hljóma.
Nottingham Forest var eitt af toppliðunum í boltanum á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Liðið vann ensku deildina vorið 1978, ári eftir að liðið komst í efstu deild og tveimur mánuðum eftir að liðið hafði unnið Liverpool í endurteknum úrslitaleik um Deildabikarinn. Vorið 1979 hafnaði Forest síðan í 2. sæti á eftir Liverpool liði Bob Paisley, en vann Deildabikarinn og Evrópukeppni bikarhafa.
Forest var raunar mikið úrslitaleikjalið. Liðið vann Evrópukeppni bikarhafa tvö ár í röð, 1979 og 1980 og Deildabikarinn tvisvar sinnum 2 ár í röð; 1978 (gegn Liverpool) og 1979 og aftur 1989 og 1990. Liðið féll síðan úr efstu deild vorið 1993, úr nýstofnaðri Úrvalsdeildinni, og þá var blómaskeiðinu lokið.
En hvað veldur þessum fjandskap milli liðanna? Stutta svarið við þeirri spurningu er einfaldlega Brian Clough sem stýrði Nottingham liðinu frá 1975-1993. En lengra svarið, sem við ætlum ekki ítarlega út í hér, snýst um margt fleira. Til dæmis verkalýðsbaráttu í borgunum á 9. áratugnum, þegar Bretlandi var stjórnað af járnfrúnni Margaret Thatcher og iðnaðarborgir í norðurhluta landsins urðu illilega fyrir barðinu á niðurskurði ríkisstjórnar hennar. Námumenn í Nottingham lúffuðu fyrir Thatcher eftir margra mánaða verkfall árið 1985 og skildu kollega sína í Liverpool eftir í skítnum. Þá varð þessi söngur til í Kop stúkunni:
"We hate Nottingham Forest, we hate Everton too. We hate Man. United, but Liverpool we love you"
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þennan hluta sögunnar er skemmtileg frásögn hér
En aftur að stutta svarinu. Brian Clough er einn litríkasti stjóri sem sögur fara af og honum tókst oft að fara verulega í taugarnar á stjórum Liverpool á þessum tíma. Flestir stuðningsmenn Liverpool voru svosem fljótir að fyrirgefa honum flest það sem hann lét hafa eftir sér, enda verður ekki af honum tekið að hann gat verið skemmtilega orðheppinn og ósvífinn.
Ósvífnin keyrði þó um þverbak þegar hann sagði frá því í ævisögu sinni sem kom út 1994, að stuðningsmenn Liverpool gætu sjálfum sér um kennt hvernig fór á Hillsborough 1989, þegar hátt í hundrað stuðningsmenn Liverpool létu lífið á áhorfendapöllunum í leik Liverpool og Forest í FA bikarnum. Það hefur fólkið í Liverpool ekki fyrirgefið. Eðlilega.
Clough lét þessa skoðun sína raunar í ljós fljótlega eftir leikinn, en tjáði sig þó ekki mikið um atburðinn fyrstu árin eftir leikinn. Í fyrrnefndri ævisögu segir hann að hann hefði viljað beita sér af meiri krafti fyrir því að „sannleikurinn” kæmi í ljós en það hefði ekkert þýtt á þeim tíma.
Brian Clough lést 20. september 2004. Tilkynnt var um andlát hans í hátalarakerfinu á Old Trafford fyrir leik Manchester United og Liverpool sem fór fram síðar þann sama dag. Stuðningsmenn Liverpool púuðu á pöllunum.
-
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur -
| Sf. Gutt
Farinn heim -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið frá í haust -
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu