Mohamed tryggði mikilvægan sigur!
Mohamed Salah tryggði Liverpool gríðarlega mikilvægan 0:2 sigur í Bournemouth í dag. Heimamenn höfðu verið óstöðvandi í síðustu leikjum og sigurinn því mikilvægur í meira lagi.
Þeir níu leikmenn sem fengu hvíld í Eindhoven í vikunni komu aftur til leiks eins og fyrir lá. Bournemouth var fyrir leikinn á miklu flugi og það var vitað að erfiður leikur beið toppliðsins.
Liverpool ógnaði fyrst á 16. mínútu þegar Cody Gakpo lék sig í skotstöðu utan við vítateiginn en Kepa Arrizabalaga varði. Fjórum mínútum seinna fékk Antoine boltann vinstra megin í vítateignum. Hann náði góðu skoti sem hafnaði í stönginni. Liverpool slapp vel þar. Þremur mínúm seinna komst Dominik Szoboszlai inn í teig hinu megin en Kepa varði vel.
Eftir hálftíma dró til tíðinda. Víti var dæmt á Lewis Cook eftir að hann felldi Cody í vítateignum. Atvikið var skoðað lengi í sjónvarpinu og dómur dómarans staðfestur. Snertingin var lítil en nóg til þess að koma Cody úr jafnvægi. Mohamed Salah tók vítið og hann þrumaði boltanum með jörðinni neðst út í hægra hornið. Liverpool yfir og það var mjög mikilvægt að komast yfir! Liverpool hélt forystunni af öryggi fram til leikshlés.
Bournemouth fékk færi eftir fimm mínútur í síðari hálfleik. Enn var Antoine var enn á ferðinni eftir gott spil en Alisson varði skot hans úr teignum. Liverpool hélt sínu vel þó svo að Bournemouth gerði sitt besta. En á 70. mínútu fengu heimamenn dauðafæri. Marcus Tavernier, sem kom inn sem varamaður, átti þá fast skot hægra megin utan vítateigs. Boltinn fór í innanverða fjærstöngina. Justin Kluivert náði frákastinu en skaut vel framhjá fyrir opnu marki. Færið var svolítið þröngt en samt opið. Þar skall hurð nærri hælum.
Liverpool nýtti sér þetta til fullnustu fimm mínútum seinna. Liverpool vann boltann fyrir aftan miðju og lék fram. Varamaðurinn Curtis Jones fékk boltann fyrir utan vítateigs og sendi til vinstri inn í teig á Moahmed. Egyptinn tók við boltanum, leit upp og skaut svo bogaskoti upp í vinstra hornið. Enn eitt listamarkið hjá Mohamed. Lýsingarorð um hann og mörkin hans eru að verða uppurin!
Nú áttu heimamenn ekki afturkvæmt. Í viðbótartímanum sótti heimamenn enn. Skot í vítateignum fór í leikmann Liverpool og breytti stefnu en á einhvern ótrúlegan hátt náði Alisson að bjarga. Mjög mikilvægur sigur í höfn!
Liverpool spilaði vel. Allir lögðu sig fram og annað dugði ekki gegn stórgóðu liði Bournemouth. Allir sigrar eru mikilvægir og á þessum tímapunkti var þessi mjög mikilvægur!
Bournemouth: Kepa; Cook, Zabarnyi, Huijsen, Kerkez; Adams, Christie (Jebbison 80. mín.); Brooks (Tavernier 67. mín.), Kluivert, Semenyo og Ouattara. Ónotaðir varamenn: Dennis, Adu Adjei, Akinmboni, Kinsey-Wellings, Rees-Dottin, Silcott-Duberry og Winterburn.
Gul spjöld: Ryan Christie, Dean Huijsen og Andoni Iraola.
Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold (Bradley 69. mín.), Konate, Van Dijk, Robertson; Mac Allister (Jones 61. mín.), Gravenberch; Salah (Endo 88. mín.), Szoboszlai, Gakpo (Nunez 69. mín.) og Diaz. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Jota, Elliott, Quansah og Tsimikas.
Mörk Liverpool: Mohamed Salah (30. mín., víti, og 75. mín.).
Gul spjöld: Ryan Gravenberch, Alexis Mac Allister og Virgil van Dijk.
Áhorfendur á Vitality leikvanginum: 11.239.
Maður leiksins: Mohamed Salah. Enn og aftur skipti Mohamed sköpum. Vítið var öruggt og bogaskotið fullkomið! Það er erfitt að lýsa því hversu frábær hann er!
Arne Slot: ,,Ég vil, og hver einasti leikmaður ætlast til þess af félögum sínum, að menn berjist til lokaflauts í hverjum einasta leik. Þetta þarf til að ná hámarksúrslitum. Stuðningsmenn okkar ætlast líka til þess sama af þeim sem leika fyrir hönd félagsins."
Fróðleikur
- Mohamed Salah er nú búinn að skora 25 mörk á leiktíðinni.
- Í deildinni eru mörkin 21 talsins.
- Mohamed hefur skorað 20 eða fleiri deildarmörk á fimm keppnistímabilum.
- Vítaspyrnan sem Mohamed tók er sú 40. sem hann skorar úr. Hann hefur misnotað átta vítaspyrnur.
- Mohamed Salah er búinn að skora 11 mörk í 12 leikjum gegn Bournemouth. Enginn leikmaður Liverpool hefur skorað oftar gegn liðinu.
-
| Sf. Gutt
Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld! -
| Sf. Gutt
Öruggur sigur! -
| Sf. Gutt
Steven Gerrard hættur í Sádi Arabíu -
| Sf. Gutt
Af lánsmönnum -
| Sf. Gutt
Léttur sigur! -
| Heimir Eyvindarson
Mætum við Henderson í Meistaradeildinni? -
| Heimir Eyvindarson
Bajcetic til Las Palmas -
| Heimir Eyvindarson
Nallo sló 27 ára gamalt met Michael Owen -
| Heimir Eyvindarson
Fyrsta tapið í Meistaradeildinni -
| Heimir Eyvindarson
Allskonar til að gleðjast yfir