| Sf. Gutt

Spáð í spilin

Liverpool vs Tottenham Hotspur

Það verður allt eða ekkert á Anfield Road í kvöld þegar Liverpool fær Tottenham Hotspur í heimsókn. Sæti í úrslitaleik Deildarbikarsins er í húfi! Varsla bikarsins sem Liverpool vann á síðasta keppnistímabili er í húfi!

Liverpool hefur á brattann að sækja eftir fyrri leik liðanna í London sem Tottenham vann 1:0. Miðað við gang þessa leiks hefði Liverpool aldrei átt að tapa og markið hefði aldrei átt að eiga sér stað því sá sem skoraði markið hefði átt að vera rekinn af velli rétt áður en hann skoraði!

Það tjáir ekki að velta sér upp úr ruglinu í fyrri leiknum. Liverpool þarf að vinna verkið og það á að vera vel vinnandi vegur að gera það. Liverpool þarf tveggja marka sigur. Fyrsta mál á dagskrá er að komast yfir. Verði bara eins marks munur Liverpool í hag eftir venjulegan leiktíma þarf að framlengja. Útimörk gilda ekki í Deildarbikarnum. Svo er hugsanlegt að þörf verði á vítaspyrnukeppni. Það þarf bara að gera sem til þarf. 

Búast má við því að Liverpool stilli upp sínu sterkasta liði. Að minnsta kosti er ólíklegt að ungliðar verði notaðir eins og stundum í keppninni. Það er einfaldlega of mikið í húfi. Sæti í úrslitaleik Deildarbikarsins og með því möguleiki á að verja bikarinn frá síðustu leiktíð. Newcastle United komst í úrslit í gærkvöldi og nú er að vinna sér inn rétt til að berjast við norðanmenn!  

Tottenham er með naumt nesti en nesti þó og Liverpool hefur því verk að vinna. Tottenham hefur verið í vandræðum síðustu vikur en þó náð þokkalegum köflum inn á milli. Liverpool á að vinna miðað við stöðu mála og ég spái því að Liverpool vinni 3:1. Cody Gakpo, Luis Díaz og Mohamed Salah skora!

YNWA!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan