| Sf. Gutt

Þrír úr leik og einn tæpur fyrir úrslitaleikinn

Þrír af leikmönnum Liverpool geta ekki spilað úrslitaleikinn í Deildarbikarnum við Newcastle United. Einn að auki er tæpur með að geta tekið þátt í leiknum.

Arne Slot ræddi um úrslitaleikinn á blaðamannafundi í morgun. Þar fór hann meðal annars yfir meiðslalistann. Hann er svo sem ekki langur en það eru lykilmenn á honum

Trent Alexander-Arnold fór meiddur af velli í Evrópuleik Liverpool og Paris Saint Germain. Hann meiddist á ökkla í leiknum. Ljóst er að hann verður frá einhverjar vikur en ekki hefur verið gefið út hversu lengi. Trent missti líka af úrslitaleiknum við Chelsea í fyrra.

Ibrahima Konate fór líka meiddur af velli á móti Paris. Óttast var að hann myndi ekki geti spilað á Wembley. En hann æfði í dag og ætti því að geta tekið þátt á sunnudaginn. 

Áður lá fyrir að Joe Gomez, Conor Bradley og Tyler Morton myndu missa af úrslitaleiknum vegna meiðsla sem hafa haldið þeim frá æfingum og keppni síðustu vikur. Conor verður kannski orðinn leikfær eftir landsleikjahrotuna sem er framundan.

Ekki er ósennilegt að Jarell Quansah leysi Trent af í stöðu hægri bakvarðar. Hann kom inn á gegn Paris. Það fer þó eftir því hvort Ibrahima Konaté verður leikfær. Jarell er í raun eini afleysingarmaðurinn í hægri bakvarðarstöðuna og eins sem miðvörður. 

Leikmenn Liverpool þurftu að fara í gegnum framlengingu og mjög erfiðan leik á móti Paris. Vonandi ná leikmennirnir að safna kröftum fyrir sunnudaginn. Það er bikar í húfi!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan