Í úrslit annað árið í röð!
Liverpool komst í kvöld í úrslitaleikinn um Deildarbikarinn, annað árið í röð, eftir öruggan 4:0 sigur á Tottenham Hotspur á Anfield Road. Liverpool mætir Newcastle United í úrslitaleiknum.
Liverpool hafði sannarlega verk að vinna eftir 1:0 tap í fyrri leiknum við Tottenham í London. Caoimhin Kelleher var valinn í markið en annars má segja að Liverpool hafi verið með sitt sterkasta lið. Reyndar var Conor Bradley hægri bakvörður en það lá fyrir fyrir leikinn að Trent Alexander-Arnold yrði frá vegna meiðsla.
Stuðningsmenn Liverpool voru tilbúnir að hvetja liðið til dáða og stemmningin var stórgóð þegar flautað var til leiks. Það er skemmst frá því að segja að Liverpool tók völdin frá fyrstu sekúndu leiksins. Leikmenn Liverpool spiluðu mjög vel saman en opin færi létu á sér standa. Það má eiginlega segja að fyrsta góða færi Liverpool hafi orðið að marki. Á 34. mínútu fékk Mohamed Salah boltann hægra megin í vítateignum. Hann sendi fyrir markið. Darwin Núnez reyndi að komast í í boltann en missti af honum. Boltinn hélt því áfram yfir að vinstra markteigshorninu og þar féll hann fyrir hægri fótinn á Cody Gakpo. Hollendingurinn tók boltann á lofti og skoraði örugglega. Verðskulduð forysta og liðin jöfn samtals.
Mínútu fyrir hálfleik fékk Mohamed boltann í teignum eftir sendingu frá vinstri. Hann skaut í varnarmann, boltinn breytti stefnu og Antonin Kinský gerði vel í að verja boltann í slá og yfir. Liverpool einu marki yfir í hálfleik.
Yfirburðir Liverpool voru miklir í fyrri en þeir voru miklu meiri í síðari hálfleik. Strax í upphafi hálfleiksins átti Dominik Szoboszlai skalla eftir horn frá vinstri en boltinn fór beint á Antonin í markinu og hættunni var svo bægt frá. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir næsta marki. Sending kom inn í vítateig Tottenham. Darwin reyndi að komast í boltann. Antonin reyndi það sama en honum tókst illa upp því hann sópaði fótunum undan Darwin og dómarinn dæmdi að sjálfsögðu víti. Mohamed tók vítið og sparkaði boltanum af miklu öryggi upp í hægra hornið. Falleg spyrna og Liverpool komið yfir samanlagt!
Á 64. mínútu átti Cody skot. Antonin náði að snerta boltann sem fór svo í stöng og framhjá. Tíu mínútum seinna skaut Ryan Gravenberch utan vítateigs en aftur fór boltinn í stöng. Mínúta leið og þá lá boltinn í markinu fyrir framan Kop stúkuna. Alexis Mac Allister, sem var nýkominn til leiks, braust fram og sendi fram á Conor Bradley. Hann gaf í fyrsta inn í vítateiginn á Dominik sem lagði boltann fyrir sig og skoraði svo af miklu öryggi neðst út í hægra hornið.
Á 77. mínútu fékk Tottenham sitt fyrsta marktækifæri sem hægt var að nefna því nafni. Heung-min Son komst inn í vítateiginn og alla leið inn að markteig vinstra megin. Hann kom boltanum yfir Caoimhin en boltinn hafnaði í þverslánni. Þar hefði Tottenham getað komist inn í leikinn en þess í stað innsiglaði Liverpool sæti í úrslitaleiknum þremur mínútum seinna. Alexis gaf fyrir úr horni frá vinstri og hitti beint á Virgil sem skallaði auðveldlega í markið. Öruggur sigur í höfn og sæti í Deildarbikarnum tryggt annað árið í röð!
Liverpool spilaði frábærlega í kvöld og Tottenham átti ekki nokkra einustu möguleika. Liverpool komst áfram samtals 4:1 og það segir sína sögu. Það er frábært að komast í úrslitaleik í stórkeppni. Um það og að vinna titla snýst tilveran hjá Liverpool. Um miðjan mars mætir Liverpool Newcastle United á Wembley. Liverpool verður að endurtaka leikinn frá því í fyrra og verja Deildarbikarinn!
Liverpool: Kelleher, Robertson, Van Dijk (Quansah 86. mín.), Konate, Bradley, Jones (Mac Allister 72. mín.), Gravenberch, Gakpo (Diaz 82. mín.), Szoboszlai, Salah (Elliott 82. mín.) og Nunez (Jota 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaros, Tsimikas, Endo og Chiesa.
Mörk Liverpool: Cody Gakpo (34. mín.), Mohamed Salah, víti, (51. mín.), Dominik Szoboszlai (75. mín.) og Virgil van Dijk (80. mín.).
Tottenham Hotspur: Kinsky, Gray, Danso, Davies (Moore 82. mín.), Spence, Bissouma (Porro 57. mín.), Bentancur, Sarr (Bergvall 57. mín.), Kulusevski, Richarlison (Tel 45. mín.) og Son. Ónotaðir varamenn: Austin, Reguilon, Cassanova, Olusesi og Ajayi.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.395.
Maður leiksins: Dominik Szoboszlai. Allir leikmenn Liverpool spiluðu vel. Ungverjinn var frábær á miðjunni. Svo skoraði hann að auki.
Arne Slot: ,,Mitt mesta gleðiefni er hversu vel við spiluðum. Það á alltaf að vera stór stund að komast í úrslitaleik. Jafnvel fyrir þetta félag."
Fróðleikur
- Liverpool var að spila í 20. sinn í undanúrsitum Deildarbikarsins. Það er met í keppninni.
- Liverpool komst í 15. Deildarbikarúrslitaleik sinn. Það er met.
- Liverpool hefur unnið keppnina tíu sinnum sem er met.
- Liverpool mætir Newcastle United í úrslitum Deildarbikarsins sunnudaginn 16. mars.
- Cody Gakpo skoraði 16. mark sitt á leiktíðinni. Þar af hefur hann skorað fimm í Deildarbikarnum.
- Hann jafnaði með markinu markafjölda sinn frá síðustu leiktíð.
- Mohamed Salah er kominn með 26 mörk á keppnistímabilinu.
- Dominik Szoboszlai skoraði fimmta mark sitt á sparktíðinni.
- Virgil van Dijk skoraði í þriðja sinn á leiktíðinni.
- Alls voru 60.395 áhorfendur á leiknum. Það er mesti áhorfendafjöldi á Deildarbikarleik á Anfield frá upphafi vega.
-
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Vonlaust mál! -
| Sf. Gutt
Skammarlegt tap! -
| Sf. Gutt
Allt jákvætt! -
| Sf. Gutt
Mikil tilhlökkun í Plymouth -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Liverpool og Newcastle United mætast í úrslitum! -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Newcastle