| Sf. Gutt

Skammarlegt tap!

Liverpool féll úr leik í FA bikarnum í dag eftir skammarlegt 1:0 tap fyrir Plymouth. Þó svo að bestu menn liðsins hafi verið hvíldir áttu þeir sem voru valdir í byrjunarliðið að standa sig miklu betur.

Tíu breytingar voru gerðar á liðinu frá einum besta leik liðsins á leiktíðinni þegar Liverpool vann Tottenham Hotspur 4:0 í undanúrslitum Deildarbikarsins á fimmtudagskvöldið. Samt voru alla vega átta menn í byrjunarliðinu með talsverða eða  reynslu.

Ekki byrjaði það vel fyrir Liverpool því Joe Gomez varð að fara af velli á 11. mínútu. Fyrirliði dagsins var að koma til baka eftir meiðsli og það er slæmt að missa hann út aftur. Isaac Mabaya kom í hans stað í sínum fyrsta aðalliðsleik. Fyrri hálfleikurinn var tíðindalaus. Heimamenn voru grjótharðir og gáfu allt sitt í leikinn. Leikemenn Liverpool voru dauflegir og náðu varla almennilegri sókn. Ekkert mark í hálfleik. 

Síðari hálfleikurinn hófst með ósköpum og heimamenn komust yfir eftir átta mínútur. Þeir fengu víti þegar Darko Gyabi sparkaði boltanum inn í vítateiginn. Harvey Elliott var með hendur á lofti og boltinn fór í aðra hendina og dómarinn dæmdi réttilega víti. Ryan Hardie tók vítið og skoraði af miklu öryggi. 

Heimamenn ógnuðu á 61. mínútu þegar Nikola Katic skallaði að marki en Caoimhin Kelleher varði með fæti í stöng. Enn bólaði lítið á almennilegum sóknum Liverpool þó svo liðið sótti mikið. 

Það var ekki fyrr en mínúta var eftir að fyrsta hættulega færi Liverpool kom. Eftir misskilning í vörn Plymouth fékk James McConnell boltann en skot hans var ekki gott og fór framhjá. Níu mínútum var bætt við leikinn. Eftir þrjár mínútur náði Diogo Jota snöggu skoti við vítateiginn en Conor Hazardvarði stórvel í horn. Áfram sótti Liverpool og ekki seinna vænna. Á lokamíútu viðbótartímans átti Darwin Núnez skalla sem virtist stefna í markið en Conor náði til boltans og sló hann yfir. Plymouth landaði sögufrægum sigri og honum í raun verðskulduðum.

Þetta var skammarlegt tap hvernig sem á það er litið. Vissulega var þetta ekki sterkasta lið Liverpool en það er ekki spurning að liðið sem var valið átti auðveldlega að geta unnið neðsta liðið í næst efstu deild. Svo varð ekki raunin!

Plymouth Argyle: Hazard, Julio Pleguezuelo (Guðlaugur Victor Pálsson 67. mín.), Katic, Talovierov, Puchacz, Gyabi, Randell (Boateng 72. mín.), Sorinola, Wright, Hardie (Obafemi 81. mín.) og Bundu (Tijani 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Al Hajj, Baidoo, Grimshaw, Houghton og Mumba

Mark Plymouth: Ryan Hardie, víti, (53. mín.).

Gul spjöld: Conor Hazard, Matthew Sorinola og Mustapha Bundu. 

Liverpool: Kelleher, Tsimikas, Gomez (Mabaya 11. mín. (Núnez 58. mín.)), Quansah, McConnell, Nyoni (Koné-Doherty 76. mín.), Endo, Elliott, Díaz, Jota og Chiesa. Ónotaðir varamenn: Jaros, Ngumoha, Jones, Nallo, Norris og Young.

Gul spjöld: Trey Nyoni og Isaac Mabaya. 

Áhorfendur á Home Park: 16.724.

Maður leiksins: Wataru Endo. 

Arne Slot: ,,Það er ekki afsökun að byrjunarliðsmennirnir okkar voru ekki með. Leikmennirnir sem mættu til leiks í dag ættu að geta unnið svona leik og þess vegna er ég vonsvikinn. Við vissum að leikurinn yrði erfiður. Það kom okkur ekkert á óvart í þeim efnum." 

Fróðleikur

- Þetta var í fjórða sinn sem Liverpool spilar í FA bikarnum 9. febrúar. 

- Liverpool hefur tapað öllum fjórum leikjunum! 

- Isaac Mabaya og Trent Koné-Doherty léku sína fyrstu leiki fyrir aðallið Liverpool. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan