Meistararnir lagðir á heimavelli sínum!
Liverpool gerði góða ferð til Manchester í dag og lagði fjórfalda Englandsmeistara Manchester City að velli, í deildarleik, í þeirra heimavígi í fyrsta skipti í áratug. Liverpool spilaði stórvel og vann 0:2. Með sigrinum styrkti Liverpool enn frekar trausta stöðu sína á toppi deildarinnar!
Liverpool liðið var eins sterkt og hægt var. Luis Díaz kom inn í byrjunarliðið í stað Diogo Jota. Portúgalinn var eitthvað stirður eftir síðasta leik en var þó meðal varamanna. Gody Gakpo kom á bekkinn eftir að hafa verið frá næstu tvo leiki á undan.
Heimamenn byrjuðu af krafti eins og vænta mátti en Liverpool opnaði leikinn með marki gegn gangi leiksins á 14. mínútu. Alexis Mac Allister tók horn frá vinstri. Hann sendi ekki fyrir markið heldur miðaði á Dominik Szoboszlai sem var staddur til hliðar við markteiginn með bakið í markið. Ungverjinn spelgaði boltann í fyrsta út í vítateiginn. Hann hitti beint á Mohamed Salah sem náði viðstöðulaustu skoti sem fór í varnarmann og svo beint í markið! Útfærsla af æfingasvæðinu sem heppnaðist fullkomlega!
Skiljanlega sóttu heimamenn í kjölfarið á að hafa lent undir en Liverpool liðið lék þétt og gaf engin færi á sér. Eina veikleika Liverpool var að finna hægra megin þar sem Trent Alexander-Arnold réði illa við Jeremy Doku. Sem betur fer kom svo til ekkert út úr því sem Jeremy gerði í þau skipti sem hann komst framhjá Trent. Sókn City var öll bitlaus.
Enn jókst hagur Liverpool á 37. mínútu. Trent sparkaði langt fram kantinn á Mohamed. Hann sendi inn í vítateiginn á Dominik. Hann lék aðeins til vinstri framhjá varnarmanni og skaut svo boltanum með nákvæmu skoti út í hægra hornið. Stuðningsmenn Liverpool sem voru fyrir aftan hitt markið fögnuðu gríðarlega í annað sinn í leiknum. Staða Liverpool örugg í hálfleik.
Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. City sótti en skapaði hvorki eitt eða neitt fyrr en á 58. mínútu. Omar Marmoush náði þá skáskot frá vinstri en Alisson Becker skutlaði sér og sló boltann í horn. Þetta var fyrsta hættulega færi City í leiknum. Fjórum mínútum seinna fékk Luis Díaz boltann úti til vinstri. Hann lék inn til hægri og þrumaði að marki en Ederson Moraes henti sér á eftir boltanum og sló hann yfir.
Manchester City: Ederson, Lewis, Khusanov, Ake (Dias 77.mín.), Gvardiol, Gonzalez (Kovacic 76. mín.), De Bruyne (McAtee 66. mín.), Mamroush (Gundogan 77. mín.), Savinho, Foden og Doku. Ónotaðir varamenn: Ortega, Reis, Silva, Grealish og Nunes.
Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Quansah 90. mín.), Konate, van Dijk, Robertson (Tsimikas 74. mín.), Gravenberch, Mac Allister, Salah (Elliott 90. mín.), Diax (Gakpo 79. mín.), Szoboszlai og Jones (Endo 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Núnez, Jota og Chiesa.
Mörk Liverpool: Mohamed Salah (14. mín.) og Dominik Szoboszlai (37. mín.).
Áhorfendur á Etihad leikvanginum: 52.803.
Maður leiksins: Dominik Szoboszlai. Ungverski miðjumaðurinn var óþreytandi eins og svo oft áður. Hann var úti um allt, lagði upp fyrra markið og skoraði það seinna. Það var ekki að undra að hann hafi legið flatur á grasinu þegar flautað var til leiksloka!
Arne Slot: ,,Það er alltaf ákveðið afrek að vinna útisigur á Etihad. Í því máli skiptir engu hvar liðin eru stödd á stigatöflunni."
Fróðleikur
- Mohamed Salah skoraði 30. mark sitt á keppnistímabilinu.
- Þetta er í fimmta sinn sem Mohamed nær 30 mörkum á ferli sínum hjá Liverpool.
- Bara Roger Hunt og Ian Rush hafa áður náð fimm sinnum 30 marka leiktíðum í sögu Liverpool.
- Dominik Szoboszlai skoraði í sjötta sinn á leiktíðinni.
- Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool á Etihad frá því á leiktíðinni 2015/16.
- Liverpool vann Manchester City líka 2:0 í fyrri deildarleik liðanna á Anfield Road. Þetta var í fyrsta sinn frá keppnistímabilinu 2015/16 sem Liverpool vinnur City heima og úti.
-
| Sf. Gutt
Við þráum annan titil! -
| Sf. Gutt
Mohamed Salah sló metið! -
| Sf. Gutt
Dregið í Meistaradeildinni -
| Heimir Eyvindarson
Joe Gomez úr leik fram á vor -
| Heimir Eyvindarson
Tvö töpuð stig á Villa Park -
| Heimir Eyvindarson
Spáð í spilin - Erfitt verkefni á Villa Park í kvöld -
| Heimir Eyvindarson
Enn eitt metið í hættu í kvöld -
| Sf. Gutt
Sigur í kveðjuleik Jürgen Norbert Klopp! -
| Sf. Gutt
Í minningu Bob Paisley -
| Mummi
Stórviðburður í vændum – Miðasala hafin á árshátíð Liverpoolklúbbsins