| Heimir Eyvindarson

Virgil Van Dijk vill að leikmenn fari ekki fram úr sér. Nú sé að duga eða drepast

Liverpool er í góðri stöðu á toppi Úrvalsdeildarinnar og er ennþá með í Deildabikarnum og Meistaradeildinni. Annað kvöld bíður erfitt verkefni, þegar liðið heimsækir PSG í París. Virgil Van Dijk varar við of mikilli bjartsýni. "Við höfum ekkert unnið ennþá, en við höfum komið okkur í góða stöðu. Nú þurfum við að tryggja að við uppskerum eitthvað, það gerum við með því að mæta fullir einbeitingar í hvern einasta leik sem eftir er."

Leikmenn Liverpool fengu kærkomið frí um síðustu helgi, meðan leikið var í FA bikarnum. "Það var gott að fá smá hvíld og smá tíma með konunni og börnunum. Það var líka mikilvægt að fá tíma til að fara yfir það í huganum hvernig frammistaðan hefur verið í undanförnum leikjum. Það hjálpar manni upp á framhaldið."

Framundan eru tveir leikir gegn PSG, sá fyrri í París en sá seinni í Liverpool. Van Dijk er fullur tilhlökkunar: "Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila, sem þú vilt sýna heiminum hvað þú ert góður og liðið þitt er gott. En í svona leikjum er líka mikilvægt að fara ekki fram úr sér, við verðum að halda fókus allan leikinn, ein mistök geta kostað okkur keppnina."

"PSG er með mjög sterkt lið, kannski sérstaklega sóknarlega þannig að það mun mikið mæða á okkur, það er alveg öruggt. En við erum tilbúnir."

Aðspurður um stemninguna meðal stuðningsmanna Liverpool um allan heim, sem eru sumir hverjir þegar byrjaðir að fagna sigri í ensku deildinni segist Van Dijk litlar áhyggjur hafa af því. Það setji enga sérstaka pressu á liðið.

"Það er bara frábært að heyra stuðningsmennina syngja sigursöngva, en við höfum ekki unnið neitt ennþá. Við leikmennirnir og þjálfarinn tökum einfaldlega einn leik í einu og reynum að færast nær markmiðum okkar með samheldni og vinnusemi. En fólk má endilega syngja, það gleður okkur leikmennina að við getum gert þá hamingjusama. Þeir eiga það svo sannarlega skilið. Vonandi getum við sungið með þeim bráðum."

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan