Út um þúfur á Wembley!
Vörn Liverpool á Deildarbikarnum fór út um þúfur á Wembley í dag. Liverpool tapaði 2:0 fyrir Newcastle United. Liverpool var langt frá sínu besta og það var verst á slæmum degi.
Uppstilling Liverpool kom ekki á óvart. Caoimhin Kelleher stóð í markinu og þó svo Alisson Becker sé betri hefur Írinn sýnt að hann er traustsins verður. Ibrahima Konáte gat spilað en vafi var á því.
Fljótlega var ljóst að lið Newcastle United var komið til að selja sig dýrt. Barist var um hver einasta fermeter. Leikmenn Liverpool voru svo sem ákveðnir en samt var munur á. Eftir því sem á leið kom í ljós andleysi og þreyta í leikmönnum Liverpool. Framlengingin á móti Paris Saint-Germain virtist sitja í mönnum.
Newcastle átti betri sóknir en sköpuðu ekki mikla hættu. Sóknir Liverpool voru máttlitlar og skpuðu enga hættu. Á síðustu mínutu hálfleiksins dundi ógæfan yfir. Newcastle fékk horn frá vinstri. Kieran Trippier tók hornið út í teiginn og hitti beint á Dan Burn. Hann var óvaldaður úti til hægri og náði föstum skalla í jörðina og út í vinstra hornið gersamlega óverjandi fyrir Caoimhin. Hrikaleg mistök að valda Dan ekki almennilega. Kjaftshögg á versta tíma!
Eftir sex mínútur í síðari hálfleik skoraði Alexander Isak af stuttu færi en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Tveimur mínútum seinna kom annað kjaftshögg. Tino Livramento gaf fyrir frá vinstri. Jacob Murphy skallaði boltann til baka á Alaxander sem skoraði með viðstöðulausu skoti úr teignum. Nú var útlitið orðið svart.
Darwin Núnez og Curtis Jones voru sendir til leiks á 57. mínútu í stað Diogo Jota og Ibrahima. Tvær mínútur liðu og þá náði Liverpool loksins almennilegri sókn. Dominik Szoboszlai lagði upp skotfæri fyrir Curtis sem smellhitti boltann í miðjum teig en því miður var skotið af nærri Nick Pope og hann náði að slá boltann yfir. Það hefði breytt miklu að skora þarna.
Á 65. mínútu átti Alexander gott skot en Caoimhin hélt Liverpool inni í leiknum með því að verja vel. Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu en mótherjar þeirra voru bæði sterkari og ákveðnari.
Það var ekki fyrr en á fjórðu mínútu viðbótartíma að Liverpool komst á blað. Tveir varamenn unnu vel saman. Harvey Elliott sendi góða sendingu fram í vítateiginn á Federico Chiesa sem skoraði af miklu öryggi út í hægra hornið. Von kviknaði en hún dó út í leikslok!
Þessi leikur var alls ekki góður hjá Liverpool og olli miklum vonbrigðum. Leikmenn ríkjandi meistara voru þreytulegir og náðu sér aldrei á strik. Kannski var þetta slakasti úrslitaleikur Liverpool í sgunni. Leikmenn Newcastle voru skerkari og ákveðnari. Það er sárt að þurfa að viðurkenna það eftir úrslitaleik!
Liverpool: Kelleher, Quansah, van Dijk, Konate (Jones, 57), Robertson, Gravenberch (Chiesa, 74), Mac Allister (Gakpo, 67), Salah, Szoboszlai, Diaz (Elliott, 67), Jota (Nunez, 57). Ónotaðir varamenn: Alisson, Endo, Tsimikas og McConnell.
Mark Liverpool: Federico Chiesa (90+4. mín.).
Gult spjald: Federico Chiesa.
Newcastle United: Pope, Trippier, Schar, Burn, Livramento, Guimaraes, Tonali, Joelinton, Murphy (Krafth, 90), Isak (Wilson, 81), Barnes (Willock, 81). Ónotaðir varamenn: Dubravka, Targett, Osula, Longstaff, Miley og Neave.
Mörk Newcastle: Dan Burn (45. mín.) og Alexander Isak (53. mín.).
Gul spjöld: Nick Pope og Sandro Tonali
Áhorfendur á Wembley: 88.513.
Maður leiksins: Virgil van Dijk. Fyrirliðinn spilaði nokkurn veginn eins og hann á að sér. Sama verður ekki sagt um flesta aðra í liðinu.
Arne Slot: ,,Úrslitin voru vonbrigði og það sama má segja um hvernig við spiluðum. Það er hluti af knattspyrnunni að það getur gerst að tapa fyrir sterkum liðum. Í draumaheimi vinnur maður alla leikina á leiktíðinni. En eftir átta mánuði af leiktíðinni getur gerst að tap eigi sér stað í tveimur leikjum í röð þegar leikið er á móti Paris Saint-Germain og Newcastle.
Fróðleikur
- Liverpool lék sinn 15. úrslitaleik um Deildarbikarinn.
- Liverpool tapaði í fimmta sinn.
- Federico Chiesa skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.
- Liverpool hefur unnið Deildarbikarinn tíu sinnum.
- Þetta var í fyrsta sinn í sögu félagsins sem Newcastle vinnur Deildarbikarinn.
-
| Heimir Eyvindarson
Bakverðirnir mætast í kvöld -
| Heimir Eyvindarson
Trent klár um miðjan apríl -
| Sf. Gutt
Framgangan og úrslitin vonbrigði! -
| Sf. Gutt
Við munum koma sterkir til baka! -
| Sf. Gutt
Búið að velja lið Liverpool -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Jürgen Klopp verður á Wembley! -
| Sf. Gutt
Niðurtalning - 7. kapítuli -
| Sf. Gutt
Hlakka mjög mikið til!