Í hnotskurn
Markmiði náð en ekki með glæsibrag. Vörn Evrópubikarsins heldur áfram. Þetta er leikur Liverpool og CSKA Sofia í hnotskurn.
- Þetta var 250. Evrópuleikur Liverpool.
- Þetta var þriðja Evrópurimma Liverpool og CSKA Sofia. Liverpool hefur haft betur í tveimur.
- CSKA Sofia tókst ekki það sama og liðið gerði síðast þegar liðið spilaði við Liverpool leiktíðina 1981/82. Þá var Liverpool Evrópumeistari og féll úr leik samtals 2:1 fyrir CSKA Sofia. Leiktíðina áður vann Liverpool 6:1 samanlagðan sigur og fór alla leið í úrslit þar sem liðið lagði Real Madrid 1:0, með marki Alan Kennedy, í París. Úrslitaleikur keppninnar í vor verður líka í París!
- Þetta var fyrsta tap Liverpool á leiktíðinni og þar með fyrtsa tapið eftir að liðið vann Evrópubikarinn.
- Þetta var fyrsta tap Liverpool í þrettán Evrópuleikjum.
- Sami Hyypia leiddi liðið sem fyrirliði í fjarveru þeirra Steven Gerrard og Jamie Carragher.
- Sami er einstaklega ljóshærður um þessar mundir. Vissulega er Finninn með ljóst hár. En það virkar enn ljósara en vanalega núna.
- Steve Finnan lék 90. leik sinn fyrir hönd Liverpool.
- Florent Sinama Pongolle lék sinn fyrsta leik frá því hann varð fyrir alvarlegum hnjámeiðslum í janúar. Frakkinn kom þá inn sem varamaður í seinni undanúrslitaleik Liverpool og Watford í Deildarbikarnum. Hann kom inn á 85. mínútu en var borinn af leikvelli fjórum mínútum seinna.
- Einn leikmanna búlgarska liðsins tók eitt það undarlegasta innkast sem ég hef séð framkvæmt á Anfield Road. Hann missti boltann úr höndum sér og ofan á höfuð sitt þaðan sem hann fór út af.
- Áhorfendur höfðu mikinn áhuga á að fá Xabi Alonso til leiks. Ekki sjaldnar en tvisvar var nafn hans kyrjað þegar hann var að hita upp.
- Liverpool komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á sama hátt og fyrir ári. Þá lagði liðið Graz 2:0 í Austurríki en tapaði svo seinni leiknum 1:0 á Anfield Road. Þá hófst vegferð sem allir stuðningsmenn Liverpool muna hvernig endaði! Vonandi verða þá úrslit gærkvöldsins góðs viti eftir allt saman!
Liverpool: Carson, Finnan, Josemi, Hyypia, Warnock (Zenden 64. mín.), Potter (Garcia 45. mín.), Hamann, Sissoko, Riise, Cisse (Sinama Pongolle 83. mín) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Reina, Alonso, Carragher og Barragan.
Markið: CSKA Sofia, Valentin Iliev (16. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 42.175.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Mohamed Sissoko. Annan leikinn í röð var þessi ungi strákur frá Malí besti maður liðsins. Hann var mjög duglegur allan leikinn. Honum gekk vissulega ekki mjög vel í fyrri hálfleik. En eftir leikhlé dreif hann félaga sína áfram. Tvívegis var hann nærri búinn að jafna metin. Skot hans, sem hafnaði í markvinklinum á lokamínútunni, verðskuldaði að hafna í netinu.
Jákvætt :-) Liverpool er komið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fær áfram tækifæri á að verja Evrópubikarinn.
Neikvætt :-( Leikmenn Liverpool voru áhugalitlir á síðustu mínútum leiksins og virtust stefna á að láta þetta verða niðurstöðu leiksins. Ég hef aldrei séð slíkt áður á Anfield Road. Var þetta kannski ímyndun? Enn og aftur voru þeir Djibril Cisse og Fernando Morientes ekki sannfærandi í sókninni. Liverpool hefur nú aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur leikjum. Hvaða sóknarmaður er líklegur til að bæta úr því? Hann spilar nú með Real Madrid. Liverpool á ekki að tapa á heimavelli. Fyrsta tap Liverpool í þrettán Evrópuleikjum varð staðreynd. Töp á Anfield Road eru algerlega óþolandi.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Í upphafi virtist Liverpool ætla að taka öll völd. Djibril Cisse komst einn í gegn en markvörður gestanna, sem átti mjög góðan leik, varði vel. Búlgörsku meistararnir komust svo yfir á 16. mínútu þegar Valentin Iliev skoraði eftir vel útfærða aukaspyrnu. Litlu síðar bjargaði Scott Carson frábærlega eftir að einn leikmanna Sofia komst einn í gegn. Leikmenn Liverpool virtust taka þessu öllu með ró. Það var ekki fyrr en í síðari hálfleik sem menn fóru að taka sig á. John Arne Riise átti bylmingsskot stuttu eftir leikhlé sem markvörðurinn sló yfir. Gestirnir svöruðu með þrumuskoti sem fór rétt framhjá. Þetta var reyndar síðasta hættulega marktilraun CSKA Sofia. Liverpool sótti grimmt á tímabili. John Arne var frískur og átti góðar marktilraunir. Fernando Morientes kom sér svo í gott færi. Hann komst framhjá markverðinum en varnarmaður bjargaði á línu. Á síðustu mínútu leiksins átti Mohamed Sissoko þrumuskot sem hafnaði í markvinklinum. Samanlagður sigur var í höfn.
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu