Öruggt áframhald eftir öruggan sigur
Liverpool tyggði sæti sitt í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með öruggum 3:0 sigri á Bordeaux á Anfield Road í kvöld. Gestirnir náðu ekki að hrekkja Liverpool neitt og hér eftir felst eina spennan í riðlinum í því hvort Liverpool eða PSV Eindhoven vinnur riðilinn. Fyrirliðinn opnaði markareikning sinn á leiktíðinni og var því vel fagnað innan vallar sem utan.
Rafael Benítez sló vopnin úr höndum fjölmiðlamanna sem ekki höfðu getað beðið eftir því að sjá hann breyta liði sínu í eitthundraðasta skipti í röð. Spánverjinn tefldi fram sömu leikmönnum og höfðu skipað liðið um helgina í sigurleiknum gegn Aston Villa. Upphafskafli leiksins var með fádæmum tíðindalítill. Það fyrsta markverða sem gerðist var að Liverpool skoraði mark. Steven Gerrard sendi fyrir markið frá hægri á 23. mínútu. Boltinn sveif yfir á fjarstöng þar sem Luis Garcia tók hann á lofti og sendi hann viðstöðulaust yfir markvörð franska liðsins og í markið. Liverpool hafði þegar hér var komið við sögu tekið öll völd á vellinum og Dirk Kuyt átti góðan skalla rétt yfir eftir fyrirgjöf frá Steven frá hægri kanti. Eina marktilraun Borbeaux kom undir lok hálflleiksins þegar skot beint úr aukaspyrnu hafnaði í fangi Jose Reina.
Franska liðið kom ákveðið til leiks eftir leikhlé og á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins ógnuðu þeir marki Liverpool meira en allan fyrri hálfleikinn. Florian Marange átti fyrst skot utan teigs sem Jose blakaði yfir markið. Rétt á eftir komst Jean Claude Darcheville inn á vítateig en Jose kom vel út á móti honum og lokaði á skot hans. Ekki leið á löngu áður en Johan Micoud komst í svipaða stöðu en þeir Jamie Carragher og Sami Hyypia stöðvuðu tvær skottilraunir hans. Allar vonir franska liðsins um að eiga möguleika í leiknum hurfu á 67. mínútu þegar Fernando Menegazzo var rekinn af leikvelli fyrir að skalla John Arne Riise þannig að úr blæddi. Það liðu líka ekki nema fjórar mínútur þar til leikmenn Liverpool færðu sér liðsmuninn í nyt. Boudewijn Zenden sem hafði rétt áður skipt við Xabi Alonso sendi góða sendingu fram völlinn. Steveen Gerrard var fyrstur á vettvang, náði boltanum og sendi hann örugglega framhjá Ulrich Rame frá vítateig. Það var ljóst að fyrirliðanum var mjög létt að hafa loksins náð að skora og hann fagnaði marki sínu innilega fyrir framan The Kop. Ekki liðu nema fimm mínútur þar til Liverpool skoraði aftur og var markið keimlíkt marki fyrirliðans. Luis Garcia rændi boltanum af aftasta varnarmanni og lék upp að vítateignum áður en hann sendi hann af öryggi í markið. Liverpool hefði getað bætt við fleiri mörkum á síðustu fimm mínútunum. Fyrst varði Ulrich vel þrumuskot utan teigs frá Mohamed Sissoko. Hann varði svo aftur fast skot frá Steven. Hann hélt ekki boltanum og Sami Hyypia náði frákastinu en hann skallaði yfir úr upplögðu færi. Enn varði Ulrich og nú frá Dirk Kuyt. Robbie Fowler, sem leysti Luis af, ógnaði svo markinu í tvígang. Fyrst lyfti hann boltanum yfir markvörðinn en því miður líka markið og svo skallaði hann í hliðarnetið. Sigurinn hefði því getað verið mun stærri en raunin var en það var fyrir öllu að tryggja áframhald úr riðlinum. Ekki spillti fyrir að klára það frá í fjórða leik. Nú er bara að vinna riðilinn!
Vladimir Smicer missti af langþráðu tækifæri á að spila á Anfield Road á nýjan leik. Hann gat ekki spilað vegna meiðsla og sat þess í stað uppi í stúku og fylgdist þaðan með fyrrverandi og núverandi félögum sínum. Vladi fékk þó að skokka um sinn gamla heimavöll þegar franska liðið æfði þar í gær.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso (Zenden 57. mín.), Sissoko, Garcia (Fowler 78. mín.), Kuyt, Crouch (Pennant 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Agger, Aurelio og Warnock.
Mörk Liverpool: Sanz Luis Garcia (23. mín. og 76. mín.) og Steven Gerrard (71. mín.).
Gult spjald: Mohamed Sissoko.
Bordeaux: Rame, Faubert, Jemmali, Cid, Marange, Menegazzo, Ducasse, Micoud (Mavuba 74. mín.), Wendell, Chamakh (Perea 11. mín.) og Darcheville (Obertan 59. mín.). Ónotaðir varamenn: Valverde, Henrique, Alonso og Francia.
Rautt spjald: Fernando Menegazzo (67. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 41.978.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn hélt áfram þaðan sem frá var horfið gegn Aston Villa. Það fer ekki á milli mála að hann er að nálgast sitt besta leikform. Steven skoraði svo loksins sitt fyrsta mark á leiktíðinni. Að auki lagði hann upp fyrsta mark leiksins.
Rafael Benítez var ánægður með að Liverpool væri komið upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar. "Ég er mjög ánægður með að við höfum komist í næstu umferð Meistaradeildarinnar og við erum búnir að standa okkur vel í riðlinum. Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleiknum. Eftir að þeir voru aðeins eftir tíu inni á vellinum opnuðust svæði fyrir okkur og við fengum fleiri færi. Við hefðum getað skorað fleiri mörk. En það var gott að skora þrjú og sem framkvæmdastjóri þá verð ég að vera ánægður."
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum