Taphrinan stöðvuð en sigur náðist ekki
Liverpool stöðvaði fimm leikja taphrinu sína á útivöllum á Árbakka nú undir kvöldið. Það var auðvitað jákvætt en á hinn bóginn þá tókst liðsmönnum ekki að skora og því náðist ekki sigur. Liverpool var miklu sterkari aðilinn í leiknum og leikmenn liðsins reyndu allt sem þeir gátu til að ná sigri en það dugði ekki. Enn og aftur var Liverpool ekki nógu gott til að vinna.
Leikurinn var aldrei mikið fyrir augað. Það kom svo sem ekki á óvart enda gengur Liverpool sjaldan vel á Árbakka. Heimamenn vildu fá vítaspyrnu snemma leiks en það hefði verið strangur dómur. Eftir um tuttugu mínútur fékk Dirk Kuyt mjög gott færi eftir að Craig Bellamy lagði boltann fyrir hann í teignum en skot hans fór framhjá. Rétt á eftir komast Steven Gerrard inn á teiginn en varnarmenn björguðu. Xabi Alonso fékk svo gott skotfæri eftir góðan samleik en skot hans úr góðu færi fór hátt yfir. Þegar sjö mínútur voru eftir af hálfleiknum átti Jermaine Pennant skot sem Mark Shwarzer varði í horn. Rétt á eftir átti John Arne Riise fast langskot sem fór beint á Mark.
Liverpool hefði hugsanlega átt að fá vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks þegar Dirk féll eftir viðskipti við varnarmann en ekkert var dæmt. Heimamenn áttu ekki eina einustu marktilraun í öllum fyrri hálfleik en sú eina sem þeir áttu í leiknum kom eftir sjö mínútur í seinni hálfleik. Jose Reina varði þá skalla mjög vel frá Jason Euell. Hann hélt ekki boltanum sem barst til Yakubu en hann hitti ekki boltann fyrir opnu marki. Þetta var eina sókn Boro í öllum hálfleiknum! Liverpool tók hér eftir öll völd en það gekk ekkert að koma boltanum í markið. Daniel Agger ógnaði á 58. mínútu en Mark varði bylmingsskot hans vel. Ástralinn varði svo skot frá Mark Gonzalez tíu mínútum seinna. Peter Crouch kom loksins til leiks þegar ellefu mínútur voru eftir. Það er ekki gott að segja hvers vegna hann var ekki löngu kominn inn á eða af hverju hann hóf ekki leikinn. Litlu síðar fékk Peter sendingu yfir á fjærstöng frá Mark Gonzalez og skallaði að marki. Loks leit út fyrir mark því boltinn stefndi í markið en Jonathan Woodgate bjargaði á marklínu. Peter átti aftur skalla á lokamínútunni úr góðu færi en boltinn fór beint á besta leikmann heimamanna sem varði. Markalaust jafntefli en það var með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki ná sigri. Þrátt fyrir alla yfirburðina var liðið ekki nógu gott til að ná sigri. Betur má ef duga skal.
Middlesbrough: Schwarzer, Davies (Huth 46. mín.), Woodgate, Pogatetz, Taylor, Morrison (Maccarone 77. mín.), Boateng (Cattermole 72. mín.), Rochemback, Euell, Arca og Yakubu. Ónotaðir varamenn: Jones og Mendieta.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant, Gerrard, Alonso, Gonzalez (Zenden 84. mín.), Kuyt (Crouch 79. mín.) og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia og Paletta.
Áhorfendur á Riverside leikvanginum: 31.424.
Maður leiksins: Steven Gerrard lék inni á miðri miðjunni og átti góðan leik. Hann reyndi hvað hann gat að draga menn sína áfram.
Rafael Benítez var ekki skiljanlega ekki sáttur þrátt fyrir að taphrinan væri stoppuð. ,,Ég get ekki verið ánægður því við unnum ekki. Það var miður að við skyldum ekki ná sigri því við spiluðum mjög vel og verðskulduðum að ná þremur stigum. Við sköpuðum okkur mörg færi en við vorum óheppnir að skora ekki. Það jákvæða var að við héldum hreinu og við töpuðum ekki en við hefðum átt að vinna þennan leik."
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum