Ensku meistararnir áttu ekki möguleika á Anfield Road!
Ensku meistararnir áttu ekki möguleika gegn bikarmeisturunum á Anfield Road. Liverpool vann öruggan sigur á Chelsea og lék einn besta leik sinn á leiktíðinni. Liverpool náði þar með fyrsta deildarsigri sínum á Chelsea á heimavelli eftir töp gegn þeim síðustu þrjár leiktíðir. Frábær byrjun lagði grunninn að sigrinum og leikmenn Liverpool slökuðu ekki á klónni eftir það. Liverpool er nú komið á hæla ensku meisturunum.
Leikmenn Liverpool byrjuðu af gríðarlegum krafti og það skilaði sér strax eftir fjórar mínútur. Jamie Carragher sendi langa sendingu fram völlinn. Peter Crouch fleytti boltanum áfram inn á vítateiginn. Þar fékk Dirk Kuyt hann, lék á Paulo Ferreira og skoraði svo af öryggi án þess að Petr Cech gæti hreyft legg né lið. Allt gekk af göflunum á Anfield Road af fögnuði og það var greinilegt að allir, jafnt innan vallar sem utan, voru ákveðnir í að leggja sitt af mörkum til að vinna sigur. Rétt á eftir komst John Arne Riise í dauðafæri inn á vítateig en Petr gerði vel í að verja frá honum. Reyndar var skot John Arne með hægri svo það var kannski ekki við því að búast að hann næði góðu skoti. Það reyndist þó aðeins gálgafrestur fyrir Chelsea því Liverpool komst tveimur mörkum yfir eftir átján mínútur. Steven Gerrard sendi þá inn á vítateiginn. Michael Essien skallaði frá en ekki langt. Boltinn fór til Jermaine Pennant sem var við hægra vítateigshornið. Hann drap boltann niður og þrumaði honum að marki. Boltinn fór í þverslána og þeyttist þaðan í markið. Glæsilegt mark og það munaði sannarlega um það loksins þegar Jermaine skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool! Um miðjan hálfleikinn rakst Xabi Alonso á Didier Drogba og meiddist á vör. Hann fór af velli til að láta gera að skurðinum sem hann fékk og lék Liverpool einum færri í hátt í tíu mínútur á meðan en það kom ekki að sök. Fram að hálfleik hafði Liverpool öll ráð Chelsea í hendi sér.
Ensku meistararnir hresstust heldur eftir leikhlé en vörn Liverpool var gríðarlega sterk og Jose Reina hafði lítið sem ekkert að gera í markinu. Peter Crouch hefði getað aukið forystuna en hann skallaði beint í fangið á Petr úr góðu færi. Eftir um sextíu mínútur slapp Tékkinn með skrekkinn þegar bylmingsskot John Arne Riise small í þverslá. Þetta var glæsilegt skot lengst utan af velli hjá Norðmanninum. Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir. Stuðningsmenn Liverpool voru ekki lengi að minna hann á ævintýrið í Istanbúl með nokkrum vel völdum söngvum! Á lokakaflanum átti Liverpool nokkrar hættulegar sóknir og á köflum náðu leikmenn Chelsea varla boltanum. Dirk Kuyt fékk besta færi Liverpoo á lokakaflanum en skot hans fór rétt yfir. Mikill fögnuður braust út á Anfield Road þegar dómarinn flautaði til leiksloka og staðfesti öruggan og sanngjarnan sigur Liverpool! Nú er ekki svo langt í Chelsea og vonandi eiga tvö efstu liðin eftir að misstíga sig reglulega til vors! Fari svo vel verður Liverpool að færa sér það í nyt. Í bili er þó óhætt að fagna þessum sæta sigri vel og innilega.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant, Gerrard, Alonso, Aurelio, Crouch (Bellamy 85. mín.) og Kuyt (Gonzalez 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia og Fowler.
Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (4. mín.) og Jermaine Pennant (18. mín.).
Chelsea: Cech, Geremi, Ferreira, Essien, Ashley Cole, Lampard, Ballack, Mikel (Shevchenko 73. mín.), Robben (Wright-Phillips 21. mín.), Drogba og Kalou. Ónotaðir varamenn: Hilario, Diarra og Morais.
Gult spjald: Paulo Ferreira.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.245.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Jamie lék sinn 450. leik með Liverpool og var gríðarlega sterkur í vörninni. Þeir leikmenn Chelsea sem reyndu að komast áleiðis gegn honum komust einfaldlega hvorki lönd né strönd.
Rafel Benítez gat ekki verið mikið ánægðari með sína menn. "Leikmennirnir eiga mikið hrós skilið fyrir þennan sigur. Þeir og áhorfendur stóðu sig frábærlega og við unnum verðskuldaðan sigur. Við stjórnuðum gangi mála í leiknum og lékum mjög vel gegn mjög góðu liði. Þið vitið að ég tala ógjarnan um einstaklinga því liðið var frábært. Mér fannst þó þeir Fabio Aurelio og Jermaine Pennant, sem skoraði sitt fyrsta mark, skila frábæru verki fyrir okkur. Við náum þremur stigum í viðbót og ég er mjög ánægður með stöðuna. Við eigum eftir að spila við Manchester United og Arsenal á heimavelli. Við erum fullir sjálfstrausts og erum að spila vel."
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum