John Barnes

Miðjarðarhafsloftslag Jamaíku virtist í órafjarlægð þegar ungur drengur frá eyjunni sólríku í Vestur-Indíum kom í fyrsta sinn til Englands 26. janúar 1976. John Barnes var 12 ára gamall og var að sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni: "Þegar flugvélin okkar lenti á Heathrow leit ég út um gluggann og sá snævi þakin hús. Ég hafði aldrei séð snjó áður. Ég var dapur í bragði. En handan við sjóndeildarhringinn sá ég óteljandi fótboltavelli og hjarta mitt tók kipp." Innan vikutíma hafði hann fundið sér knattspyrnufélag, Stowe Boys Club að nafni. Liðið var sterkt og vann flesta leiki sína 10-0. Heima í Kingston var Barnes vanur að leika á miðjunni eða frammi en í Stowe-liðinu vildu allir sækja og enginn hirti um vörnina þannig að einhver varð að sýna ábyrgð: "Þegar ég var gerður að fyrirliða liðsins þá tók ég hlutverk varnarleiðtogans að mér og lék þrjú og hálft ár í vörninni hjá Stowe. Stundum tók ég á rás með boltann og ef ég hefði haft löngun til þá hefði ég getað þvælt allt lið andstæðinganna upp úr skónum og skorað. En ég gaf boltann frekar á félaga minn í vörninni sem hafði gaman að því að leika sér með boltann og sagði honum að sækja fram á meðan ég myndi standa vaktina í vörninni. Jafnvel þegar ég var aðeins þrettán ára gamall hugsaði ég fyrst og fremst um liðsheildina. Ég áttaði mig á að liðið þyrfti að halda lögun sinni og vera agað. Hugarfar mitt gerði mig vel í stakk búinn fyrir atvinnumennskuna. Ég hafði gaman að rúgbý líka og bjó yfir það miklum hraða að ég gat hlaupið alla af mér og skorað mörk. En ég tók rúgbýið ekki eins alvarlega og fótboltann."

Árin liðu og svo kom að því að hann þurfti að færa sig um set. Stowe hafði ekkert U-17 ára lið þannig að leið hans lá næst í utandeildarliðið Sudbury Court. Þeir ákváðu að setja hann út á vinstri kantinn og eftir fyrsta ár sitt hjá liðinu vakti hann áhuga fjölda liða. QPR og Watford buðu honum til æfinga. Hann var spenntari fyrir Rangers vegna þess að það var uppáhaldsliðið hans en viðmóti félagsins var ábótavant og Watford hreppti þennan gullmola. Faðir hans hafði lokið starfi sínu sem sendiherra á Englandi og var fjölskyldan því á heimleið til Jamaíku. Það var stór ákvörðun fyrir sautján ára óharðnaðan ungling að verða eftir og reyna að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Barnes fékk strax tækifæri til að láta að sér kveða hjá Watford. Hann lék þrjá unglingaliðsleiki og þar á meðal var einn leikur þar sem framkvæmdastjórinn, Graham Taylor, var á meðal áhorfenda: "Graham sá mig taka boltann og dúndra honum framhjá markverði Orient. Graham sagði við þá sem voru með honum í för: "Ég er búinn að sjá nóg." Barnes var settur í varaliðið og eftir aðeins fjóra leiki var komið að fyrsta leik hans með aðalliðinu. Dagsetningin var 5. september 1981 og andstæðingarnir Oldham Athletic. Stjarna Watford var framherjinn Luther Blissett en hann var í leikbanni að þessu sinni og því var kallað á Barnes. Hann kom inná sem varamaður og stóð sig nógu vel þessar 15 mínútur sem hann lék til að vinna sér sæti í byrjunarliðinu í leik gegn Chelsea viku síðar.

Watford hafði verið 4. deildarlið fyrir þremur árum síðan en sigldi nú lygnan sjó í 2. deild. Watford gekk ágætlega þetta tímabil eftir tvö róleg ár í 2. deild. Liðið mætti Norwich í 6 stiga leik enda áttu bæði lið ágætis möguleika á að komast í umspil um sæti í efstu deild. Leiknum var sjónvarpað beint og Barnes var meira en reiðubúinn þrátt fyrir að hann hafði leikið aðeins örfáa leiki. Barnes fór á kostum; skoraði hjá Chris Woods sem síðar varð enskur landsliðsmaður og átti skot beint úr aukaspyrnu í þverslána. Skyndilega var nafn John Barnes á allra vörum. Hlutverk hans var að fá boltann, leika á hægri bakvörðinn og gefa boltann fyrir á framherjana. Flóknara var það ekki. Taylor var ekki gefinn fyrir áferðarfallegan fótbolta en árangursríkur var hann. Watford náði ekki sæti í 1. deild að þessu sinni en 1982 var liðið komið á meðal þeirra bestu. Samherji Blissett í framlínunni, Ross Jenkins, hafði yfirgefið liðið um mitt tímabil og Barnes tekið stöðu hans. Blissett var markakóngur liðsins með 22 mörk en Barnes var þriðji markahæstur með 14. Formaðurinn Elton John var stoltur af liði sínu og ætlunarverk Taylor hafði tekist. Hann hafði lyft liðinu úr 4. deild í 1. deild á aðeins 4 árum. Fyrsta tímabil Watford í efstu deild var ævintýri líkast. Andstæðingar þeirra vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið er háaloftabolti Watford skall á þeim: "Þetta var besta tímabil ferils míns. Jafnvel 1987-88 tímabilið jafnaðist ekki á við þetta ævintýri hjá Watford. Liðsandinn hjá okkur var svipaður og síðar hjá Wimbledon. Við nutum þess að lítillækka stórliðin. Við vorum hundskammaðir af andstæðingum okkar: "Þið sparkið boltanum bara fram og hlaupið á eftir. Af hverju getið þið ekki leikið boltanum á milli ykkar eins og almennilegt lið?" Hvert sem við fórum var okkur sagt að stemmningin í liði okkar myndi deyja út. Fjölmiðlar dýrkuðu Watford og almenningur hreifst af seiglu okkar. Dagblöðin kölluðu mig "svarta perlan" einn daginn en þann næsta var ég tekinn í gegn. Ég gat aldrei skilið hvernig ég gat breyst úr besta leikmanni í heimi í þann versta á örfáum dögum. Einfalt ráð var að hundsa blöðin og hlusta bara á þá sem skiptu máli; samherja mína og Graham Taylor. "Brasilíska stórstjarnan Zico lýsti mér sem framtíðarstjörnu Englendinga. En Zico hafði kannski séð mig leika einn leik þar sem ég var í aðalhlutverki og hann þekkti mig ekki sem leikmann. Ég lét því hrós hans sem vind um eyru þjóta." Barnes lék í stöðu framherja en markaskorun var aldrei hans aðall: "Það var ekki mikilvægt í mínum huga að skora mörk. Ég vildi frekar vera leikmaðurinn sem lék á þrjá leikmenn og gaf boltann fyrir." Lokadag tímabilsins bar Watford sigurorð af Liverpool og tap Manchester United þýddi að Watford endaði í 2. sæti á eftir Liverpool.  Miðframherjinn Maurice Johnston var keyptur frá Partick Thistle fyrir næsta tímabil og Barnes var því aftur kominn á vinstri kantinn. Watford náði aldrei að skína aftur skært í efstu deild og varð eitt að miðlungsliðum deildarinnar. Leikstíll liðsins hafði líka breyst. Betri leikmenn voru keyptir til liðsins og hafði áhrif á einhug þessarar sterku liðsheildar sem hafði skilað þeim í Evrópukeppnina. En stemmningin var ennþá fyrir hendi í F.A.-bikarnum og liðið komst alla leið í úrslit. Þetta reyndist hápunktur Barnes hjá Watford. Úrslitaleikurinn tapaðist 2-0 fyrir Everton en undirbúningurinn fyrir stærsta leik enskrar knattspyrnu var öllum ógleymanlegur og fjölmiðlar dáðust á ný af þessu kjarkmikla liði Watford. "Dvöl mín hjá Watford var sannkölluð rússíbanaferð; lægðirnar fylgdu í kjölfar hápunktana en þetta voru sérstök ár og ég verð Graham Taylor alltaf þakklátur fyrir að breyta mér úr utandeildarleikmanni í landsliðsmann."

TIL BAKA