John Barnes

Liverpool gekk illa að fylgja eftir glæsilegum árangri sínum enda tímabilið 1987-88 einstakt. Liverpool komst þó í fluggírinn er 1989 gekk í garð og át forystu Arsenal uppi. Allt sem gerðist þó á þessu tímabili féll í skuggann af hinu hörmulega Hillsboroughslysi 15. apríl. Þetta hafði djúpstæð áhrif á Barnes rétt eins og aðra sem hlut áttu að máli. En boltinn hélt áfram að rúlla og spennan var í hámarki þegar Arsenal og Liverpool mættust í lokaleik deildarinnar. Liverpool hafði þriggja stiga forskot og Arsenal þurfti að vinna með tveggja marka mun til að hirða titillinn. Staðan var 0-1 fyrir Arsenal þegar skammt var til leiksloka en það sem á eftir fylgdi mun aldrei líða úr minni Liverpoolaðdáenda nær og fjær.  Barnes tekur upp þráðinn: "Það var komið framyfir venjulegan leiktíma, The Kop var þegar farinn að fagna titlinum og flestir voru farnir að hugsa um að vinna tvennuna þegar ég ákvað að sýna smámetnað í fyrsta skiptið í leiknum. Það sem ég gerði næst kostaði Liverpool titillinn. Ég var með boltann hægra megin á vellinum. Leikmenn Arsenal voru örvæntingarfullir enda tíminn að renna út og þeir reyndu allt til að ná boltanum. Tony Adams renndi sér í mig en ég lék á hann og stefndi í átt að hornfánanum. Á þessum tímapunkti gerði ég hræðileg mistök. Ég hefði átt að fara með boltann í hornið og halda honum þar til tíminn myndi renna út.  Kevin Richardson kom í áttina að mér, metnaður minn byrgði dómgreind minni sýn og mér fannst ég geta farið framhjá Kevin sem var greinilega örþreyttur. Þá myndi ég vera kominn í gegn og gæti endanlega tryggt okkur titillinn. En þegar ég hljóp að Kevin, náði hann boltanum af mér og þá hófst atburðarás sem kostaði okkur titillinn. Enginn sem var á Anfield þetta kvöld trúði því virkilega að Arsenal hafði unnið titillinn, ekki einu sinni leikmenn Arsenal. Ronnie Moran skammaði mig í búningsklefanum: "Hvað varstu að gera? Þú hefðir átt að fara með boltann að hornfánanum. En enginn annar gagnrýndi mig. Allir höfðu orðið fyrir áfalli. Auk þess höfðu atburðirnir á Hillsborough nokkrum mánuðum áður sett fótboltann í rétt samhengi."

En Liverpool stóð ekki uppi tómhent í lok tímabils og það var viðeigandi að stórliðin frá Liverpoolborg sem hafði misst 96 íbúa sína rúmum einum mánuði áður skyldu leika til úrslita í FA-bikarnum: "Þetta var sólríkur og ótrúlegur dagur. Aðdáendur liðanna blönduðu geði við hvern annan og þegar einnar mínútu þögnin var til minningar um þá sem létust á Hillsborough mátti heyra saumnál detta. Ég trúði því ekki þegar Everton jafnaði 2-2 en svo skoraði Rush sigurmarkið. Er lokaflautan gall ruddust áhorfendurnir inná sem ég skildi mætavel. Þegar ég reyndi að brjótast í gegnum skarann, þá nudduðu allir á mér hausinn. Liverpoolbúar elska að nudda á þér hausinn."

Aldridge fór snemma tímabils til Spánar og Barnes lék frammi með Ian Rush við hlið sér 1989-90. Barnes skoraði alls 28 mörk, þar af 22 mörk í deildinni og var næstmarkahæstur í deildinni tveimur mörkum á eftir markamaskínunni Gary Lineker. Barnes var valinn leikmaður ársins af samtökum fréttamanna og skipaði sér á bekk með goðsögnum eins og Danny Blanchflower, Kenny Dalglish, Stanley Matthews og Tom Finney sem einnig hlutu þennan heiður tvisvar sinnum á ferli sínum. Liverpool lét mistökin frá leiktíðinni áður ekki henda sig og 18. meistaratitilinn vannst af ákveðni og öryggi. Titillinn var tryggður þegar þrír leikir voru eftir. Í síðasta leik vann Liverpool Coventry City 6:1 á útivelli í leik þar sem heimamenn voru teknir í kennslustund og John skoraði frábæra þrennu. 

Eftir fjórtán taplausa leiki í upphafi leiktíðarinnar 1990-91 leit allt vel út. Í febrúar 1991 var Liverpool var í efsta sæti deildarinnar. Síðasti leikur liðins var 4-4 jafntefli gegn nágrönnunum í Everton í FA-bikarnum. Einum degi fyrir leik liðsins gegn Luton er Barnes var á leið á æfingu þá barst honum fregn sem var eins og þruma úr heiðskíru lofti: "Það kom mér á óvart að sá fjölda fjölmiðlamanna á bílastæðinu. Ég spurði þá hvað þeir væru að þvælast hér í dag þar sem leikurinn var á morgun." "Hvað finnst þér um fréttirnar, John?" "Hvað áttu við?" "Nú að Kenny hefur sagt af sér?" "Ég trúði þeim ekki og sannfærðist ekki fyrr en leikmennirnir staðfestu þessa harmafregn. Ég var alveg gáttaður." Engan hafði grunað þetta nema Alan Hansen sem var náinn vinur Kenny. Ronnie Moran tók við til bráðabirgða þegar Kenny dró sig í hlé og í apríl tók Graeme Souness við. Sókn Liverpool að titlinum út í sandinn og Arsenal varð meistari. John átti sem fyrr góða sparktíð og skoraði 17 mörk.

TIL BAKA