John Barnes

Barnes var þrautreyndur landsliðsmaður þegar hann gekk til liðs við Liverpool með alls 30 landsleiki að baki. Hann lék árið áður í HM 1986 þar sem hann var einungis í aukahlutverki en frammistaða hans gegn Argentínu sem síðar urðu heimsmeistarar varð næstum því til þess að draumur Maradona og félaga um glæstan sigur myndi snúast upp í martröð. Barnes hafði ekkert komið við sögu þó ótrúlegt megi virðast gegn Portúgal, Marókkó, Póllandi og Paraguay en í átta liða úrslitunum taldi Bobby Robson loks tíma til kominn að hleypa honum að. Er sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Maradona hið alræmda mark er hann sló boltann yfir Peter Shilton. Fjórum mínútum síðar sló þögn á völlinn er Maradona lék á hálft enska landsliðið frá miðlínu og skoraði. Barnes var áhorfandi að þessum atburðum og þyrsti í að koma inná til að sýna hvað í hann var spunnið. England var því að tapa 2-0 þegar Barnes kom inná og 16 mínútur eftir af leiktímanum. Hans hlutverk var að brjótast upp vinstri kantinn og koma boltanum á fjærstöngina. Hann var ekki lengi að láta finna fyrir sér og varnarmenn Argentínu réðu ekki neitt við neitt. Hann sendi boltann á Lineker og hann minnkaði muninn. Er þrjár mínútur voru eftir lék Barnes sama leikinn en sjálfsagt ein mestu varnartilþrif sem sáust í HM-keppninni þetta árið urðu til þess að bjargað var í markteignum áður en Lineker setti jöfnunarmarkið. Ósjálfrátt leiddu menn hugann að því hvað hefði gerst hefði hann komið fyrr inná en vonlaust er að segja um hvort hann hefði haft sömu áhrif á leikinn. Gestahlutverk var samt langt í frá viðundandi fyrir þennan hæfileikaríka mann sem hafði byrjað svo glæsilega landsliðsferil sinn þremur árum áður.

Barnes lék sinn fyrsta landsleik 28. maí 1983 gegn Norður-Írlandi. Hinn 21 árs gamli Barnes hafði leikið 9 landsleiki þegar kom að leik Brasilíumanna og Englendinga á Maracana-leikvanginum 10. júní 1984. Mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks fékk Barnes boltann og tók af stað: "Þegar ég var kominn framhjá fyrsta Brasilíumanninum, leit ég upp en sá engan samherja þannig að ég hélt áfram. Svona þróaðist þetta; hljóp áfram, þvældi Brasilíumann, leit upp, enginn til að hjálpa mér, lék á annan Brasilíumann. Ég var ekki viss um hvar ég væri fyrr en ég var allt í einu staddur einn fyrir framan markið gegn markverðinum. Örfáum andartökum eftir að boltinn fór yfir línuna flautaði dómarinn til leikhlés og við löbbuðum strax til búningsherbergjanna og markið gleymdist fljótlega er Bobby fór yfir leikinn. Sumir leikmannanna hvísluðu: "frábært mark". Ég vissi að markið hafði verið nokkuð gott, að mér hafði tekist að snúa á nokkra Brasilíumenn og skorað á Maracana en markið virtist tíu sinnum flottara í sjónvarpinu. Leikurinn var sýndur beint í Englandi en markið kom er 45 mínúturnar voru liðnar og var búið að rjúfa útsendinguna fyrir hálfleikinn. Sá sem lýsti leiknum sagði: "Við erum nýbúnir að sjá frábært mark en þið heima verðið að bíða örskamma stund áður en við getum sýnt ykkur það." Sjónvarpið sýndi síðan markið í byrjun seinni hálfleiks. Ég vissi ekki hvaða áhrif þetta einstaklingsframtak myndi hafa en mér skilst að eitt dagblaðanna í Rio greindi frá því að þetta væri glæsilegasta mark sem skorað hafði verið á Maracana. Markið breytti ekki háttum mínum en það breytti viðhorfi fólks til mín. Almenningur hélt að John Barnes væri augljóslega besti leikmaðurinn í heiminum. Það var búist að ég myndi leika þennan leik aftur og aftur. Þegar ég gerði það ekki þá var ég gagnrýndur. Allur landsliðsferill minn var dæmdur út frá einu glæsilegu marki. Þegar ég gaf boltann, furðuðu áhorfendur sig á því af hverju ég sólaði ekki andstæðingana upp úr skónum. Ef ég skoraði ekki, skildu þeir ekki ástæðuna fyrir því. Skömmu eftir Rio reyndi ég að mæta kröfum þeirra og sólaði eins og óður maður en ég missti yfirleitt boltann. Ég hætti þessu fljótlega vegna þess að það var ekki háttur atvinnumanns að láta kröfur almennings hlaupa með sig í gönur. Landsliðsþjálfarar mínir nöldruðu aldrei í mér eins og áhorfendur enda vissu þeir að ég væri að sýna skynsemi. En þó að markið hafi haft í för með sér óraunhæfar kröfur til mín þá vildi ég frekar þola þá gangrýni frekar en að markið hefði aldrei átt sér stað. Ég elskaði að leika á Maracana gegn Brasilíu og leikmönnum eins og Leandro og Junior. Þó að ég myndi ekki ná frekari árangri í lífinu þá hef ég allavega þessa sæluminningu frá Rio til að hugga mig við."

"Ég var í frábæru formi með Liverpool þegar kom að Evrópukeppni landsliða 1988 í Þýskalandi. Bobby Robson landsliðsþjálfari var fullviss um að ég myndi tæta andstæðingana í mig rétt eins og í 1. deildinni. Ég var aldrei ekta kantmaður hjá Liverpool. Ég átti erfitt með að ógna andstæðingnum þegar ég lék með landsliðinu því að mér var skipað að halda mig úti á kanti og reyna að koma boltanum fyrir markið. Evrópukeppnin 1988 var ömurleg. Ég var fastur úti á kanti og fékk aldrei boltann. Svívirðingarnar sem ég fékk þegar ég labbaði út á völlinn fyrir lokaleik okkar gegn Sovétrikjunum voru ótrúlegar. Hundruðir aðdáenda enska landsliðsins öskruðu "drullaðu þér í burtu Barnes". Ég tók þessu með jafnaðargeði enda hafði ég kynnst þessu áður að vissu marki. Ég bjóst við að fá svívirðingar yfir mig jafnvel þó að ég léki vel. Hluti áhorfenda í Centenary-stúkunni á Anfield, sérstaklega nokkrir náungar, voru alltaf að öskra á mig sama hvernig ég stóð mig."

Barnes tók virkan þátt í HM '90 en atvik í 16 liða úrslitunum gegn Belgíu var eiginlega dæmigert fyrir landsliðsferil hans. Hann skoraði gott mark sem var fyrsta mark hans í Heimsmeistarakeppni en línuvörðurinn dæmdi hann rangstæðan sem var greinilega rangur dómur. Hann meiddist svo á nára í síðari hálfleik og sat á bekknum er David Platt varð hetja Englendinga er hann skoraði á 120. mínútu.  Barnes byrjaði inná gegn Kamerún í 8 liða úrslitunum en varð að fara af leikvelli vegna nárameiðslanna og hann var ekki fær um að leika í undanúrslitunum gegn Vestur-Þjóðverjunum. Barnes hefði auðveldlega getað orðið hetja Englendinga gegn Belgíu en í stað þess meiddist hann og enn eitt stórmót hans með landsliðinu varð heldur endasleppt.

Þegar Graham Taylor hætti sem þjálfari landsliðsins þá héldu allir að landsliðsferill Barnes væri á enda en í september 1994 valdi nýráðinn landsliðsþjálfari Terry
Venables hann á ný í landsliðið. Fjölmiðlar veltu fyrir sér hvort EM '96 væri raunhæft markmið fyrir Barnes sem yrði þá 33 ára gamall en Barnes tók því með jafnaðargeði. 79. landsleikur Barnes og jafnframt hans lokaleikur var gegn Kólombíu 6. september 1995.

"Ég þoli ekki þá ályktun fólks að ég hafi staðið mig illa fyrir hönd Englands. Þegar illa gekk hjá landsliðinu þá kom það jafnilla við mig eins og Bryan Robson og Peter Reid. Þrátt fyrir að ég og Glenn Hoddle öskruðum aldrei á samherja okkar eða krepptum hnefanna þýddi ekki að okkur stóð á sama. Spánn, Frakkland, og Ítalía byggðu landslið sín á skapandi leikmönnum en England byggði á þeim sem gátu kreppt hnefana en ekki þeim sem höfðu góða boltatækni. Ég þoldi ekki þegar átta ára krakkar hlupu til mín og spurðu mig "Af hverju geturðu ekkert með enska landsliðinu?" Átta ára strákur heyrir gagnrýni föður síns þó að hann skilji ekki þýðingu orðanna. En ég skil þó sjónarmið föðursins. Frammistaða mín með enska landsliðinu var mörgum hulin ráðgáta. Ef ég horfði á feril minn með landsliðinu utan frá þá myndi ég ekki vera ánægður. Ég lék aldrei jafn vel með landsliðinu eins og Liverpool. En ég er fullviss um að ég lék eins vel og ég gat með landsliðinu og er sáttur við landsliðsferil minn."

TIL BAKA