John Barnes

Bob Paisley var talinn manna dómbærastur á getu leikmanna og þannig kom Barnes honum fyrir sjónir er hann hafði leikið örfáa mánuði í treyju Liverpool: "Aðdáendur félagsins hafa tekið hann samstundis í guðatölu. Þegar aukaspyrna er dæmd þá fer kliður um völlinn. Nákvæmni hans í aukaspyrnum hefur þegar reynst mikill bónus fyrir okkur. Hann hefur skorað frábær mörk og virðist njóta þeirrar athygli sem honum er veitt. Það hefur aldrei neinn efast um hæfileika John Barnes. Þú þarft ekki að hafa starfað sem þjálfari eða framkvæmdastjóri til að sjá hæfni hans til að valda usla í vörnum andstæðinganna. En ef hann er svo hæfileikaríkur, af hverju voru þá svo margir undrandi á að Liverpool vildi kaupa hann? Gat verið að þeir gátu ekki séð einn besta leikmann Englands ekki eiga heima í virtasta liði Englands? Héldu þeir kannski að skemmtikraftur eins og John væri of litríkur fyrir hina þöglu, skilvirku Liverpoolmaskínu sem unnið hafði hvern titillinn á fætur öðrum? Jæja, ég get sagt öllum efasemdarmönnum að maskínan okkar gengur fyrir hæfileikum og óumdeilanlegu hæfileikar John munu láta maskínuna ganga hraðar. Jafnvel þó að hann myndi aldrei gefa á samherja sína þá er nærvera hans nóg til að hvetja samherja hans til dáða. Andstæðingar hans vita vel hversu mikinn skaða hann getur valdið þeim og þú sérð að þeir horfa á hann taugaveikluðum augum áður en leikurinn hefst. Eitt eða tvö lið hafa sett tvo leikmenn honum til höfuðs en um leið og þú skellir einni hurð framan í gott lið þá opnast tvær aðrar um leið. Ef þeir setja heilan her til höfuðs Barnes þá losnar um Aldridge og Beardsley. En Kenny keypti ekki Barnes til að þess að gefa öðrum leikmönnum möguleika á að blómstra heldur vegna þess að Kenny hafði skýra mynd af því hvernig Barnes gat upp á sínar eigin spýtur komið liði sínu til góða.

John er örvfættur..held ég... Það er ekki alltaf auðvelt að sjá því að hann virðist geta notað báða fæturna jafnvel þegar hann hleypur af stað með boltann. En hann á vel heima á vinstri kantinum. Þú þarft ekki nauðsynlega að vera örvfættur til að leika þar. Ray Houghton er réttfættur en lék vinstra megin með Oxford í fyrstu deildinni og fyrir mörgum árum síðan lék réttfættur vinstri bakvörður með Liverpool sem hét Bob Paisley. John gefur liðinu svipað jafnvægi og Ray Kennedy gaf liði mínu síðla áttunda áratugar. Hann er nógu góður til að leika í mörgum stöðum á vellinum og mun stundum flakka miðsvæðis til þess að komast í gegnum hjarta varnarinnar. En þegar hann bíður færis á vinstri kantinum þá býr hann ekki eingöngu yfir þeirri getu að að leika framhjá bakverðinum heldur gefur hann sóknum okkar breidd og lögun sem önnur lið eiga erfitt með að framkvæma. Þegar boltinn er við lappirnar á honum, þá er hann límdur þar. Stjórn hans á boltanum er honum eðlislæg fremur en allt annað. Það er jafnauðvelt fyrir hann að hlaupa með boltann eins og að hlaupa án hans. Það er því afskaplega erfitt að tækla hann því að það virðist ekki vera eitt einasta sekúndubrot sem hann gefur færi á sér. Til þess að gera hlutina enn erfiðari fyrir andstæðinginn þá er John sterkur líkamlega. Hann getur staðið af sér skelli og pústra án þess að það trufli hlaup hans. Hann getur snúið andstæðingnum fram og aftur hvoru megin við sig. Margir leikmenn eru eins og bílar eða tveggja hæða strætisvagnar þegar þeir hlaupa að andstæðingnum þannig að þú sérð augljóslega í hvoru megin þeir stefna. En John sigrar andstæðinginn á tækni, krafti og hraða."

Þann 13. apríl lék Liverpool sinn besta leik á leiktíðinni og þó var af mörgum af taka. Liverpool sundurspilaði Nottingham Forest á Anfield Road og álítur Barnes þessa frammistöðu þá bestu sem hann tók þátt í á ferli sínum hjá Liverpool. Ellefu dögum áður hafði Forest orðið annað liðið á leiktíðinni til að vinna Liverpool í deildinni með 2:1 sigri í Nottingham. Á milli þessara leikja mættust liðin 9. apríl á Hillsborough í Sheffield í undanúrslitum F.A. bikarins. Liverpool vann þann leik 2:1. Tom Finney fyrrum landsliðsmaður Englendinga sagði eftir 5:0 sigur Liverpool að þetta væri besti leikur félagsliðs sem hann hefði nokkru sinni augum litið og þó hefði hann séð marga þá marga magnaða. John skoraði ekki en var gersamlega óstöðvandi í leiknum. Varnarmenn Forest vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara, hvað þá hvað þeir hétu og mörkin hefðu getað orðið miklu fleiri í leiknum.  Mitt í þessari leikjahrinu hlaut Barnes útnefningu knattspyrnumanna sem besti leikmaður tímabilsins. Bobby Robson þáverandi landsliðsþjálfari Englendinga afhendir honum gripinn hér á myndinni til hliðar. Barnes var stoltari af þessari útnefningu en vali blaðamanna en fannst hins vegar verðlaunagripurinn forljótur! Liverpool varð enskur meistari vorið 1988 með 90 stig, níu stigum meira en Manchester United. Liðið skoraði 87 mörk í deildinni og John skoraði 15 af þeim og lagði urmul upp. Tvennan fór forgörðum eftir sérlega óvænt tap gegn Wimbledon 1:0 í úrslitum F.A. bikarsins. Það má segja að í þeim leik hafi mótherjum Liverpool í fyrsta skipti á leiktíðinni tekist að stoppa John annars var hann í raun óviðráðanlegur leik eftir leik. Fréttaritarar í Englandi krýndu Barnes sem besta leikmann tímabilsins og þó að Liverpool hefði klúðrað tvennunni þá hampaði Barnes tvennum einstaklingsverðlaunum sem sá besti í Englandi.

TIL BAKA