John Barnes
Graeme Souness var nú við stjórnvölinn er leiktíðin 1991-1992 hófst. John eins og svo margir leikmenn Liverpool lenti snemma á leiktíðinni í meiðslum sem urðu þess valdandi að hann missti af mestum hluta hennar. John lék þó flesta leikina í F.A. bikarnum þar sem Liverpool fór alla leið í úrslit. Hann skoraði þrennu í 4:0 sigri á útivelli gegn Crewe Alexandra í 3. umferð og í 6. umferð átti hann frábæra sendingu á Michael Thomas sem skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri á Aston Villa á Anfield. Í undanúrslitunum lék Liverpool gegn Portsmouth sem lék í næstefstu deild á Highbury. Darren Anderton kom Portsmouth yfir í framlengingu. Á lokamínútu framlengingarinnar fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs sem John tók eins og lög gerðu ráð fyrir. Nú var að duga eða drepast. Frábært skot hans hafnaði í stöng en Ronnie Whelan fylgdi vel á eftir og potaði í boltann á marklínunni og tryggði 1:1 jafntefli. Eftir leikinn fór Graeme Souness í hjartaaðgerð og Ronnie Moran tók við til vors. Liverpool lagði Portsmouth í vítaspyrnukeppni eftir markalausan leik á Villa Park. Barnes meiddist í síðasta deildarleik Liverpool fyrir úrslitaleikinn en voru ekki talin það alvarleg að hann myndi missa af leiknum. En fáeinum dögum fyrir leikinn var Barnes ásamt samherjum sínum í blaki í hótelsundlauginni og stökk upp til að smassa boltann. Hann tognaði í kálfa og sat í jakkafötum á varamannabekknum er Liverpool hélt upp á aldarafmæli sitt með 2:0 sigri gegn Sunderland á Wembley.
Barnes reyndi að koma sér í form fyrir Evrópukeppni landsliða um sumarið. Landsliðshópurinn var í æfingabúðum í Finnlandi og Graham Taylor valdi hann til að leika gegn finnska landsliðinu. Sjö mínútum eftir að leikurinn hófst þá var ljóst að eitthvað var að: "Ég reyndi að ná boltanum, en allt í einu fannst mér eins og einhver hafði sparkað í mig aftan frá. Þegar ég lá á vellinum öskraði ég á Finnann en hann sagðist ekki hafa snert mig. Ég reis á fætur en í hvert skipti sem ég steig niður fannst mér eins og ég væri að stíga ofan í holu á vellinum. Sjúkraþjálfarinn staðfesti að ég myndi missa af Evrópukeppninni vegna þess að ég hafði rifið hásinina á hægri fæti. Sex mánaða fjarvera utan vallar var framundan. Því miður hafði hásinin ekki eingöngu rifnað heldur hafði hún líka tæst öll í sundur, sem þýddi að það var ómögulegt að sauma hásinina aftur saman án þess að stytta vöðvann. Þetta háði mér ekki þegar ég var kominn á fullt skrið en það var alveg greinilegt að þessi meiðsli gerðu það að verkum að ég hafði glatað sprengikraft mínum. Ég sólaði leikmenn með vinstri fæti en ég notaði ætíð hægri fótinn til að hleypa mér af stað. Ef vinstri hásinin hefði rifað þá hefði ég líklega getað haldið áfram að taka leikmenn á en sú var ekki raunin. Það tók mig langan tíma að taka þessu en þetta þýddi að ég þurfti að breyta leikstíl mínum. Ég gat ekki lengur tekið menn á og þyrfti að færa mig miðsvæðis. Læknarnir sögðu að huganlegt væri að þetta myndi ekki há mér til langframa en ég vissi hversu slæm meiðsli þetta voru. Ferill Mark Lawrenson var á enda er hann hlaut svipuð meiðsli og þetta voru slæm tíðindi fyrir leikmann eins og mig sem reiddi sig á hraða og sprengikraft."
Áður en þessi meiðsli komu til sögunnar var Barnes staddur á annars konar tímamótum á ferli sínum hjá Liverpool. Bann Liverpool í Evrópukeppninni gerði honum ekki kleift að leika með félaginu á meginlandi Evrópu sem hann þráði heitt. Framkvæmdastjórinn sem keypti hann til félagsins var horfinn á braut og hann gerði sér grein fyrir því að ef hann ætlaði að leika á meginlandinu þá væri þetta síðasti séns. Hann var á 29. aldursári og dreymdi enn um að fara til liða eins og Juventus, Barcelona og Real Madrid. En slíkir draumar dóu drottni sínum á vellinum í Helsinki er hann meiddist. Enginn vildi leikmann sem hafði lent í huganlega verstum meiðslum sem hann gat hlotið. En Liverpool vildi hafa hann áfram og Barnes fékk nýtt samningstilboð frá Liverpool í febrúar og hann ákvað að vera um kyrrt.
Næstu tvær leiktíðir var John ekki svipur hjá sjón. Meiðsli í báðum hásinum höfðu rænt hann hraðanum mikla. Hann skoraði aðeins átta deildarmörk á þessum leiktíðum. Graeme hélt tryggð við John en sýnt var að hann átti erfitt uppdráttar eins og lið Liverpool. "Mér og Souness kom ekki vel saman. Ég og hann vorum ekki ásáttir um hvernig liðið átti að spila en ég setti mig aldrei upp á móti honum. Hann gagnrýndi mig fyrir framan aðra leikmenn: "Ég veit að þú getur miklu meira." "Ég virti hann sem framkvæmdastjóra liðsins en hann sá mig aldrei í mínu besta formi vegna þess að ég náði mér ekki á strik vegna meiðslanna." Barnes hóf ekki leik vegna meiðsla fyrr en í nóvember tímabilin 1992-93 og 1993-94. Ég missti af undirbúningstímabilinu og var því ekki í mínu besta formi en Souness þurfti á mér að halda og lét mig leika samt sem áður."
Graeme sagði af sér í lok janúar 1994 og Roy Evans var ráðinn sem framkvæmdastjóri í hans stað. Roy skapaði John nýtt hlutverk. Hann sá sem var að hraði John var ekki lengur fyrir hendi og dagar hans sem kantmanns væru taldir. Nýja hlutverkið fólst í því að gera hann að leikstjórnanda. John gekk í gegnum þetta hlutverk í endurnýjun lífdaga. Reyndar varð hann frá sumum fyrir mikilli gagnrýni því þeir hinir sömu sáu hann alltaf fyrir sér sem kantmanninn eldfljóta og skildu ekki hlutverk hans á miðjunni. Roy á hinn bóginn nefndi hann "þjálfarann sinn inni á vellinum." Leikskilningur hans var frábær og hann missti varla boltann. Hann lagði upp ófá mörk með frábærum sendingum. "Ég er í mun betra líkamlegu formi en ég hef verið undanfarin þrjú ár. Við erum með marga sókndjarfa leikmenn og stjórinn veit að ég bý ef til vill yfir meiri aga en aðrir leikmenn og er varkárari og lætur mig þess vegna gæta virkisins á meðan aðrir sækja. En það stenst engann veginn þá frábæru tilfinningu að sækja stíft á andstæðingana og skora mörk. Ef ég mætti öllu ráða þá vildi ég leika meira sóknarhlutverk. En þú verður að líta á uppbyggingu liðsins, og þá áttar þú þig á því að það er ekki mögulegt. Leikstíll minn er mun einfaldari núna. Ég tek við boltanum frá vörninni og kem honum til þeirra sem sækja. Steve McManaman naut helst góðs af sendingum mínum. Ég var ánægður að sjá hann í því hlutverki sem ég gegndi áður sem hættulegasti leikmaður liðsins."
Evans lagði mikla ábyrgð á herðar Barnes og leiktíðina 1995-96 var hann skipaður fyrirliði Liverpool. "Ég öskraði á leikmennina á vellinum til þess að reyna að fá þá til þess að komast í gang. Roy Evans og Ronnie Moran sögðu að ég legði of mikla orku í að halda öðrum á tánum í staðinn fyrir að einbeita mér að mínu eigin hlutverki innan liðsins. Ég örvænti vegna þess að ég sá alla þessa hæfileikaríku leikmenn hjá liðinu eins og Jamie, Robbie og Macca og mér fannst að við ættum að vera besta liðið á Englandi. Forráðarmenn Liverpool virtust ekki átta sig á því hvers vegna liðinu gekk ekki sem skyldi en ég áttaði mig fullkomlega á því. Ég var óánægður með æfingarnar hjá Liverpool og fannst mér þær endurspegla frammistöðu Liverpool á vellinum. Suma daga æfðum við vel en aðra daga ekki. Roy hélt að það nægði bara að skipta í tvö fimm manna lið og halda uppteknum hætti því að það hafði virkað undir Shankly, Paisley, Fagan og Dalglish. En fótboltinn hafði breyst og Liverpool hafði breyst." Titlarnir hrönnuðust ekki inn eins og forðum og einstakir bikararar villtust inná Anfield. Barnes lék í sínum fyrsta bikarúrslitaleik í sjö ár þegar Liverpool mætti Bolton í lok leiktíðarinnar 1994-1995. Hann lagði upp fyrra mark McManaman í 2:1 sigri Liverpool og varð John þar með Deildarbikarmeistari í fyrsta skipti. Barnes leiddi síðan Liverpool út á Wembley í úrslitaleik FA-bikarsins gegn Man Utd 1995-96 en hann og samherjar hans náðu sér ekki á strik og töpuðu leiknum 1:0.