Mark spáir í spilin
Líkt og síðustu fimm leiktíðir munu spádómar Mark Lawrenson, fyrrum leikmanns Liverpool, verða birtir hér á liverpool.is. Já, þessir spádómar hafa nú birst hér í heilar fimm leiktíðir og teljast án efa fastur liður á síðunni. Spádómar Mark Lawrenson hafa alltaf verið vel lesnir en þó aldrei sem á síðustu sparktíð. Því var ákveðið að halda áfram að birta spárnar.
Spádómarnir birtast á vefsíðu BBC og Mark spáir alltaf um alla leiki helgarinnar í Úrvalsdeildinni. Undirritaður þýðir spána um leik Liverpool og stefnt er að því að spádómurinn birtist hér á síðunni um hádegisbilið á föstudögum. Spánni fylgir svo stutt hugleiðing þýðanda og upprifjun á leik samsvarandi leik liðanna á síðustu leiktíð.
Hugleiðing þýðanda: Það hallar að sumri. Síðustu kvöldin hefur rökkur tekið að færast yfir. Ungar eru að verða fleygir. Lömbin stækka og fitna jafnt og þétt. Bændur slá há. Ber eru að verða æt. Enska knattspyrnan fer að hefjast. Framkvæmdastjórar, þjálfarar, leikmenn og stuðningsmenn allra liða á Englandi bíða spenntir eftir að flautað verði til leiks um helgina. Við sem tengjumst Liverpool Football Club erum ekki nein undantekning þar á.
Liðið okkar stóð sig það vel á síðustu leiktíð að því mætti halda fram að það hafi verið það næstbesta í Evrópu! Það þætti víst gott á flestum bæjum að hafa komist í úrslitaleikinn um sjálfan Evrópubikarinn í annað sinn á þremur árum. Það þætti líka gott á flestum bæjum að hafa náð þriðja sætinu í deildinni annað árið í röð. Eftir síðustu leiktíð voru Skjöldurinn og Unglingabikarinn varðveittir í bikarageymslu Liverpool! Fínn árangur en Liverpool er ekki neitt meðalbú. Liverpool er stórbýli og þar á bæ vilja menn betri árangur. Nú við upphaf leiktíðar vil ég vitna í orð Bill Shankly sem ber ábyrgð á því að Liverpool er stórbú. Hann sagði eitt sinn að Enski meistaratitillinn væri okkar brauð og viðbit. Það er alltof langt um liðið frá því þetta brauð og viðbit var haft um hönd á Anfield Road. Rafael Benítez, samverkamenn hans, leikmenn og stuðningsmenn Liverpool þekkja þessa staðreynd alltof vel. Hún er sár en sönn. Allir þessir aðilar vita um hvað málið snýst! Come on you Reds!
Liverpool á Villa Park á síðustu sparktíð: Liverpool sótti eitt stig í einum tíðindalausasta leik leiktíðarinnar. Ekkert mark var skorað og marktækifæri leiksins töldust á fingrum annarrar handar þannig að afgangur var nokkur!
Spá Mark Lawrenson
Aston Villa v Liverpool
Í herbúðum Liverpool vita menn að ef liðið á að vera með í baráttunni um enska meistaratitilinn verður það að byrja mótið vel jafn vel og Chelsea og Manchester United hafa gert síðustu þrjú árin. Það er mikil barátta um stöður í liðinu og það er ekki víst að framkvæmdastjórinn Rafa Benítez sé enn viss um hvernig sterkasta liðið hans er.
Það hafa verið gerðar nokkrar breytingar á liði Villa en þær hafa ekki verið stórvægilegar. Liverpool hefur gengið mjög vel á þessum velli síðustu árin og ég spái því að liðið viðhaldi góðu gengi sínu hér.
Úrskurður: Aston Villa v Liverpool. 1:2.
-
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað -
| Sf. Gutt
Meiðslafréttir -
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku!