| Sf. Gutt

Af kvennaliðinu

Núna er landsleikjahlé í kvennadeildum Evrópu. Það er mikið búið að ganga á hjá kvennaliði Liverpool síðustu vikurnar. Hér er allt það helsta. 

Þann 27. febrúar var tilkynnt að Matt Beard yrði ekki lengur framkvæmdastjóri kvennaliðsins. Gengi liðsins hafði verið undir væntingum en þessi ákvörðun kom samt á óvart. Amber Whiteley tók við stjórn liðsins. 

Liverpool mætti botnliði Crystal Palace í byrjun mars. Leikurinn var á heimavelli Palace og Liverpool náði 0:1 sigri. Þetta var fyrsti leikurinn undir stjórn Amber.

Næsti leikur var sannarlega sögulegur. Liverpool vann þá 0:1 útisigur á Arsenal í átta liða úrslit í FA bikarnum. Liverpool komast áfram í undanúrslit á sjálfsmarki. Sigurinn var nokkuð óvæntur því Arsenal var um 20 stigum fyrir ofan Liverpool í deildinni. 

Leikurinn þar á eftir var líka sögulegur. Liverpool vann þá Manchester United 3:1. Leikurinn fór fram á Anfield Road og var þetta fyrsti sigur kvennaliðsins þar. Alls voru 15.596 áhorfendur á Anfield sem var stórgóð aðsókn. Olivia Smith skoraði tvö mörk. Seinna hennar var úr víti. Faka Nagano skoraði annað mark Liverpool. Manchester United skoraði sitt mark þegar mínúta var eftir. 

Arsenal hefndi rækilega fyrir bikartapið í næstu umferð með því að vinna Liverpool 4:0. Má segja að þau úrslit hafi verið eftir bókinni því Arsenal er í öðru sæti í deildinni.

Liverpool tapaði síðasta leik fyrir hlé þegar liðið tapaði 1:2 á heimavelli fyrir Aston Villa. Slæmt tap því Villa er í næst neðsta sæti í deildinni með 13 stig. Crystal Palace er neðst með níu stig. 

Chelsea er efst með 48 stig. Liverpool hefur 21 stig í sjötta sæti. Fjórar umferðir eru eftir í deildinni. 

Núna á sunnudaginn mætir Liverpool toppliði Chelsea í undanúrslitum í FA bikarnum. Ljóst er að sá leikur verður geysilega erfiður. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Manchester liðin. 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan