| Sf. Gutt

Síðbúið sigurmark færði Rauða hernum óskabyrjun á leiktíðinni

Liverpool vann 2:1 sigur á Villa Park í síðdegissólinni með síðbúnu marki frá Steven Gerrard. Liverpool lék í heild all vel og sigurinn var sanngjarn. Sigurinn var sá fyrsti sem Liverpool vinnur í fyrstu umferð deildarinnar í fimm ár! Sá næsti á undan kom líka á Villa Park!

Bæði lið byrjuðu af miklum krafti enda fyrsti leikdagur leiktíðarinnar. Heimamenn ógnuðu fyrst þegar Craig Gardner átti langskot sem fór beint á Jose Reina. Jamie Carragher, sem átti stórleik í vörninni, komst svo fyrir skottilraun John Carew. Vel gert hjá Jamie því Norðmaðurinn var í mjög góðu færi. Liverpool fór svo að ná betri tökum á leiknum og Fernando Torres ógnaði marki heimamanna í tvígang. Fyrst átti hann skot yfir og svo skaut hann framhjá eftir að hafa leikið á varnarmann. Mínútu seinna kom fyrsta mark leiksins. Steven Gerrard sendi góða sendingu upp að teignum. Dirk Kuyt ruglaði vörn Aston Villa í rýminu með snjöllu yfirhlaupi. Fernando fékk boltann í upplögðu færi á teignum og þrumaði að marki. Stuart Taylor varði vel með því að slá boltann til hliðar. Allt leit út fyrir að Liverpool fengi hornspyrnu. Dirk Kuyt er hins vegar ekki latur! Hann elti boltann og náði honum áður en hann fór í horn. Dirk sendi boltann fyrir markið. Daninn Martin Laursen varð fyrir boltanum og þrumaði honum í eigið mark af markteignum. Fyrsta mark leiktíðarinnar var komið! Liverpool var sterkari aðilinn fram að leikhléi og verðskuldaði forystu þegar flautað var til leikhlés.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af krafti og Ashley Young, sem var orðaður við Liverpool á síðustu leiktíð, var vörn Liverpool erfiður á vinstri kantinum um tíma. Líkt og í fyrri hálfleik þá náði Liverpool betri tökum á leiknum þegar á leið. Eftir rúman klukkutíma náði Liverpool fallegri skyndisókn upp hægri kantinn. Sóknin endaði með því að Steven fékk boltann í miðjum teignum og skaut að marki. Boltinn stefndi í markið en Craig Gardner fórnaði sér og komst fyrir skotið á síðustu stundu. Litlu síðar átti náði Stuart að verja frá Steven eftir aðra vel útfærða skyndisókn. Rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok kom Ryan Babel inn sem varamaður. Hann gerði strax usla í vörn Villa og átti skot rétt framhjá. Hann hefði þó átt að hitta markið því færið var gott. Aftur litlu seinna var Hollendingurinn ógnandi í teignum en Stuart náði að verja fast skot hans. Liverpool var nú miklu sterkara liðið en liðið hafði, eins og svo oft áður undanfarnar leiktíðar, ekki náð að gera út um leikinn. Þetta virtist ætla að koma Liverpool í koll þegar Aston Villa fékk vítaspyrnu þegar fimm mínútur voru eftir. Sending kom inn á teiginn frá hægri. John Carew skallaði boltann aftur fyrir sig. Boltinn fór í völlinn og skoppaði þaðan upp í hendina á Jamie Carragher. Hendi inni í teig, þó óviljandi sé, á að vera víti og leikmenn Liverpool mótmæltu lítt þegar vítaspyrna var dæmd. Jose fékk þó gult spjald þegar hann benti dómaranum á að boltinn var ekki alveg á vítapunktinum þegar honum hafði verið stillt upp! Gareth Barry er örugg vítaskytta með afbrigðum og skoraði með því að senda Jose í öfugt horn. Stuðningsmenn Liverpool trúðu vart sínum eigin augum þegar staðan var allt í einu orðin jöfn. Ekki leit það gæfulega út og lítið eftir af leiknum. Tveimur mínútum seinna fékk Steven Gerrard aukaspyrnu eftir að Gareth Barry hindraði hann. Heimamenn urðu öskureiðir enda var brotið heldur léttvægt. Steven Gerrard tók aukaspyrnuna, sem var af um 25 metra færi og lyfti boltanum yfir varnarvegginn. Stuart Taylor náði aðeins að strjúka boltann með fingurgómunum en allt kom fyrir ekki. Boltinn hafnaði uppi í vinklinum! Leikmenn og stuðningsmenn Liverpool gengu gersamlega af göflunum af fögnuði. Stórglæsilegt mark hjá fyrirliðanum! Leikmenn Aston Villa reyndu að jafna aftur en varð lítt ágengt. John Carew fékk eina færið en Jose sló skalla hans yfir á lokamínútunni. Fyrsti sigur Liverpool í fyrstu umferð deildarinnar í fimm ár var í höfn og þótt hann stæði tæpt þá var hann sanngjarn. Enn einu sinni virtist sigur ætla að ganga úr greipum eftir að leikmenn Liverpool höfðu ekki fært sér góð færi í nyt. Allt fór þó vel í þetta sinnið og það var eins gott!

Aston Villa: Taylor, Gardner, Mellberg, Laursen (Cahill 46. mín.), Bouma (Moore 71. mín.), Petrov, Reo-Coker, Barry, Agbonlahor, Carew og Young. Ónotaðir varamenn: Harewood, Osbourne og Maloney.

Mark Aston Villa: Gareth Barry, víti, (85. mín.).

Gul spjöld: Olav Mellberg, Wilfred Bouma, Gareth Barry og Stilian Petrov.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Arbeloa, Pennant (Babel 74. mín.), Gerrard, Alonso, Riise, Torres (Voronin 79. mín.) og Kuyt (Sissoko 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.

Mörk Liverpool: Martin Laursen, sjálfsmark, (31. mín.) og Steven Gerrard (87. mín.).

Áhorfendur á Villa Park: 42.640.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn skoraði stórglæsilegt sigurmark beint úr aukaspyrnu. Þar fyrir utan átti hann mjög góðan leik. Hann var mjög drífandi á miðjunni og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk. Farmganga Steven lofar góðu fyrir nýhafna leiktíð.

Álit Rafael Benítez: Við verðskulduðum sigurinn og þetta var magnað mark hjá Steven Gerrard. Við sýndum mikinn skapstyrk eftir að Villa fékk vítaspyrnuna. Við héldum áfram að sækja og náðum að skora. Það var mikilvægt fyrir okkur að vinna fyrsta leikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan