Liverpool vann Toulouse
Liverpool bar sigurorð 1:0 af franska liðinu í steikjandi hita í suður Frakklandi. Liðið er því með öll spil á hendi fyrir seinni leikinn í Liverpool.
Gríðarlegur hiti var þegar leikurinn fór fram og setti hitinn greinilega mark sitt á hann. Hitinn mun hafa verið rúmlega 30 stig! Það var fátt um tilþrif og fyrsta færið kom ekki fyrr en á 28. mínútu. Ryan Babel lék á tvo varnarmenn Toulouse á vinstri kanti og lagði boltann út á Steven Gerrard sem var í ágætis skotfæri en hann hitti boltann illa og skaut yfir. Ryan Babel hafði verið duglegur við að finna glufur á vörn franska liðsins. Liverpool komst yfir á 43. mínútu. Steve Finnan sendi boltann fram. Peter Crouch skallaði hann niður fyrir Andriy Voronin sem tók boltann á kassann fyrir utan teig og lagði hann fyrir sig. Hann þrumaði boltanum svo án frekari umhugsunar efst upp í markhornið af um 25 metra færi. Frábært mark hjá Úkraínumanninum! Seinni hálfleikur var mjög tíðindalítill. Heimamenn fengu eitt þokkalegt færi á 62. mínútu þegar Svíinn Johan Elmander náði að læða sér fram fyrir Sami Hyypia. Hann stýrði boltanum að marki en Jose Reina varði af öryggi. Litlu síðar fór Steven Gerrard af leikvelli en hann varð fyrir einhverjum meiðslum. Johan ógnaði aftur marki Liverpool á 69. mínútu en skalli hans fór yfir. Leikmenn Liverpool virtust sáttir við eins marks forystu fyrir seinni leikinn á Anfield og þannig lauk leiknum.
Toulouse: Douchez, Ebondo (Sissoko 83. mín.), Mathieu, Cetto, Fofana, Paulo Cesar (Gignac 69. mín.), Sirieix, Emana, Dieuze, Elmander og Bergougnoux (Mansare 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Riou, Jonsson, Batlles og Fabinho.
Gul spjöld: Elmander, Cetto og Sissoko.
Liverpool: Jose Reina, Steve Finnan, Jamie Carragher, Sami Hyypia, Alvaro Arbeloa, Yossi Benayoun (John Arne Riise 59. mín.), Steven Gerrard (Momo Sissoko 65. mín.), Javier Mascherano, Ryan Babel, Peter Crouch og Andriy Voronin (Fernando Torres 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Charles Itandje, Dirk Kuyt, Daniel Agger og Xabi Alonso.
Mark Liverpool: Andriy Voronin (43. mín.).
Áhorfendur á Municipal leikvanginum: 30.380.
Maður leiksins: Javier Mascherano. Argentínumaðurinn hélt áfram þaðan sem frá var horfið í Suður Ameríkukeppninni og var gríðarlega sterkur á miðjunni.
Álit Rafael Benítez: Þetta var mjög erfiður leikur. Það var of heitt til að spila knattspyrnu og völlurinn var ekki sem bestur en ég held að við höfum skilað okkar verki vel. Við þurfum að leggja hart að okkur í seinni leiknum á Anfield því þeir sýndu að þeir geta verið skeinuhættir í skyndisóknum. Það verður erfiður leikur og við þurfum að klára verkið þar.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
Þess má geta að Gerard Houllier, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, gerði sér ferð til Toulouse til að horfa á gamla liðið sitt. Hann sat í stúkunni í góða verðrinu og fylgdist vel með gangi mála. Hann hefur líklega farið ánægður heim!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!