Bréf frá Luis Garcia
Luis Garcia var seldur til Atletico Madrid í sumar og náði þessi knái Spánverji ekki að kveðja stuðningsmenn Liverpool almennilega. Hann hefur ritað stuðningsmönnum bréf sem birtist á opinberri heimasíðu Liverpool í gær.
Kæru stuðningsmenn Liverpool
Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki sett mig í samband við ykkur fyrr, en ég þurfti ákveðinn tíma til þess að átta mig á öllum breytingunum áður en ég gat ritað nokkur orð á blað.
Ég er viss um að þið sýnið skilning á þessu.
Ég myndi frekar vilja að þetta sé bréf sem sýnir fram á þakklæti mitt, en sé ekki einungis notað til að kveðja.
Einmitt það sem ég sagði, þakklæti, vegna þess að það er orðið sem er mér efst í huga þegar ég hugsa til ykkar allra.
Það að taka ákvörðun um að skipta um félag er ekki auðveld. Hreint alls ekki auðveld.
Ég hef upplifað þrjú frábær ár hjá félaginu og borginni. Þrjú ár þar sem við höfum saman, stuðningsmennirnir og liðið, náð stórkostlegum árangri og ég er viss um að svipaður árangur muni nást í náinni framtíð.
Þið vitið að ég tek áskorunum fagnandi og sætti mig ekki við það næst besta.
Fyrir nokkrum árum gáfu Liverpool FC mér tækifæri á að ganga til liðs við sig og verða hluti af metnaðargjarnri áætlun sem átti að koma félaginu aftur á hæsta stall.
Ég held að okkur hafi tekist það saman.
Eins og ég sagði, þá tek ég áskorunum og þrátt fyrir það að á sínum tíma hafi ég verið að spila fyrir mitt heimafélag, eitt það stærsta í heimi, vildi ég verða hluti af því verkefni sem var kynnt fyrir mér hjá Liverpool, og ég tók áskoruninni.
Nú, eftir þrjú tímabil í Úrvalsdeildinni og eftir að hafa unnið nokkra stóra titla, kom tækifæri fyrir mig að snúa aftur til Spánar og verða hluti af nýju verkefni hjá liði sem ég þekki nú þegar.
Hugmyndin um að njóta sömu hluta og hjá Liverpool, hjá spænsku félagi, höfðaði til mín og þess vegna tók ég tilboðinu.
Ég vil þakka öllum hjá Liverpool FC fyrir það hversu vel var komið fram við mig og fjölskyldu mína, okkur var látið líða eins og við værum heima hjá okkur frá fyrsta degi til þess síðasta.
Ég vil einnig þakka stjórninni, þjálfurunum og stjórnendum fyrir að gefa mér tækifæri á sínum tíma að verða hluti af svona mikilvægu og mikið elskuðu félagi eins og Liverpool. Félag sem hefur hjálpað mér vaxa sem leikmaður og þar sem ég naut hvað mestri velgengni á mínum ferli.
Án vafa, hefði þessi velgengni ekki orðið ef ekki hefði verið fyrir frábæran hóp leikmanna sem ég hafði þau forréttindi að deila búningsherbergi með undanfarin þrjú tímabil.
Ég ætla ekki að nefna nein nöfn sérstaklega, vegna þess að ég held að einmitt þess vegna hafi liðið náð svo góðum árangri; enginn vildi standa upp úr og það hefur alltaf verið mikil samkennd í liðinu. Það gerði hópinn aftur á móti meira en leikmannahóp, þetta varð vinahópur.
Þakkir til allra fyrir hjálpina og vináttu ykkar.
Ég hef beðið með það þangað til í lok bréfsins að þakka þeim mikilvægustu: Ykkur stuðningsmönnunum.
Ykkar stuðningur gerði það að verkum að ég aðlagaðist fljótt bæði að félaginu og borginni og þið létuð mér líða vel innan um ykkur frá fyrstu mínútu; það er svona hjálp sem maður tekur mest eftir þegar erfiðir tímar ganga um garð og ég hef upplifað nokkra erfiða tíma á minni ævi.
Ég vil sérstaklega þakka ykkur fyrir að búa til lag um mig og þið ættuð að vita að í hvert skipti sem ég heyrði ykkur syngja, var það eins og auka sprauta af styrk og hvatningu og þetta hjálpaði mér stundum að komast yfir sársauka í leik.
Skilyrðislaus stuðningur ykkar er sá hlutur sem tryggir það að liðið kemst í gegnum erfiðustu aðstæður; og ég get fullvissað ykkur um að allt liðið veit af þessu og þakkar fyrir það.
Fótboltafélag er ekki einungis byggt upp af leikmönnum, þjálfurum og stjórnendum. Meira en allt annað eru það stuðningsmennirnir sem búa til félag og það er sennilega það hráefni sem einkennir Liverpool frá öllum öðrum félögum. Stuðningsmennirnir.
Ef það er einn hlutur sem hefur alltaf verið mér ljós í gegnum árin, þá er það að með stuðningsmenn eins og ykkur, mun Liverpool FC aldrei labba eitt (walk alone).
Ég vona innilega að félagið vinni fleiri stóra bikara í framtíðinni; og ég mun fylgjast með úr fjarlægð með því stolti sem fylgir því að hafa verið eitt sinn Rauður og spilað fyrir heimaliðið á Anfield - leikvang sem hver einasti áhugamaður um fótbolta ætti að heimsækja einu sinni á ævi.
Takk fyrir allt, ykkar einlægur vinur,
Luis Garcia.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!