| Sf. Gutt

Öruggur sigur á Ljósvangi

Liverpool vann öruggan 2:0 sigur á Ljósvangi. Sjö þúsundasta deildarmarkið í í sögu Liverpool braut ísinn. Eftir það átti Sunderland erfitt uppdráttar. Sigurinn var þó dýrkeyptur því tveir leikmenn Liverpool fóru meiddir af velli.

Liverpool hefði getað skorað strax eftir 20 sekúndur þegar Andriy Voronin komst inn í sendingu varnarmanns. Craig Gordon var vel vakandi í markinu og bjargaði með góðu úthlaupi. Liverpool varð fyrir áfalli snemma leiks þegar Sami Hyypia fékk högg í andlitið. Hann varð að yfirgefa völlinn eftir stundarfjórðung. Líkur eru á að hann sé nefbrotinn. Daniel Agger leysti Finnann af hólmi. Sunderland fékk gott færi um miðjan hálfleikinn þegar Anthony Stokes komst inn á vítateig en Jose Reina kom vel út á móti honum og varði. Liverpool tók forystu á 37. mínútu. Boltinn kom inn á vítateiginn. Jermaine Pennant skallaði boltann til baka á Andriy sem lagði hann út á Mohamed Sissoko. Hann fékk boltann um tuttugu metra frá marki og sendi hann rakleiðis neðst í bláhornið. Þetta var fyrsta mark Malímannsins fyrir Liverpool og ekki að undra að hann fagnaði vel og innilega. Markið fer líka á spjöld sögunnar því þetta var sjö þúsundasta deildarmarkið sem skorað hefur verið í sögu Liverpool! Á lokamínútu hálfleiksins átti Fernando Torres skalla sem Graig varði.   

Liverpool átti að gera út um leikinn á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins. Graig varði tvívegis vel með úthlaupi frá Fernando Torres. Í seinna skiptið tók Fernando stórkostlegan sprett á milli miðvarða Sunderland og skildi þá eftir! Á 65. mínútu komst Fernando enn í færi en skoski landsliðsmarkvörðurinn sá enn við honum. Stundarfjórðungi fyrir leikslok varð Jamie Carragher að yfirgefa völlinn og leikur grunur á að hann sé síðubrotinn. John Arne Riise kom inn sem varamaður og Alvaro Arbeloa færði sig í stöðu miðvarðar. Rétt á eftir átti Anthony Stokes gott langskot sem fór rétt framhjá.  Tíu mínútum fyrir leikslok kom enn eitt færið til að gera út um leikinn. Fernando fór illa með vörn heimamanna og komst upp að endamörkum. Hann sendi boltann út í teiginn á Andriy Voronin. Skot Úkraínumannsins fór því miður beint á Graig í markinu. Stuðningsmenn Liverpool fóru nú að ókyrrast því þrátt fyrir góð tök á leiknum mátti ekkert út af bera og hvert tækifærið af öðru, til að gera út um leikinn, fór í súginn. Þremur mínútum fyrir leikslok náði Liverpool loksins að innsigla sigurinn. Boltinn gekk upp völlinn manna á milli. Fernando sendi á Andriy sem lék framhjá einum varnarmanni og skoraði með öruggu skoti. Glæsileg sókn og þrjú stig voru komin í höfn. Liverpool lék vel og vann góðan sigur. Það eina sem hægt var að finna að leik liðsins var að það hefði átt að gera út um leikinn miklu fyrr. Það kom þó ekki að sök. Sigurinn var reyndar dýrkeyptur því tveir miðverðir meiddust. Það á eftir að koma í ljós hversu lengi þeir verða frá.

Sunderland: Gordon, Halford, McShane, Nosworthy, Wallace, Miller, Etuhu, Yorke (Leadbitter 61. mín.), Richardson (Stokes 20. mín.), Chopra, Murphy (Connolly 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward og Anderson.

Gult spjald: Dickson Etuhu.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher (Riise 75. mín.), Hyypia (Agger 15. mín.), Arbeloa, Pennant, Alonso, Sissoko, Babel (Kuyt 88. mín.), Torres og Voronin. Ónotaðirvaramenn: Itandje og Mascherano.

Mörk Liverpool: Mohamed Sissoko (37. mín.) og Andriy Voronin (87. mín.)

Gult spjald: Alvaro Arbeloa.

Áhorfendur á Ljósvangi: 45.645.

Maður leiksins: Mohamed Sissoko. Malímaðurinn var mjög duglegur á miðjunni. Fyrir utan mikla yfirferð þá spilaði hann boltanum betur en oft áður. Hann skoraði svo fágætt mark. Það væri svo sem nóg til að verða valinn besti maður Liverpool að skora sjö þúsundasta deildarmarkið í sögu Liverpool!

Álit Rafael Benítez: Við sköpuðum okkur fullt af færum og hefðum getað gert út um leikinn miklu fyrr. Það er ekki holt fyrir hjarta framkvæmdastjóra að sjá okkur misnota svona mörg færi en Andriy skoraði gott mark sem færði okkur sigurinn. Ég er mjög ánægður með að við skyldum landa enn einum útisigrinum. Útivallarformið fór illa með okkur á síðustu leiktíð en við höfum byrjað miklu betur þar núna."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan