| Grétar Magnússon

Markaskorar gærkvöldsins kátir

Góður sigur vannst á Toulouse á Anfield í gærkvöldi.  Markaskorararnir Peter Crouch, Sami Hyypia og Dirk Kuyt voru að sjálfsögðu ánægðir með árangur kvöldsins en þeir skoruðu allir sín fyrstu mörk á tímabilinu.

Peter Crouch sagði:  ,,Þetta var vel unnið verk vegna þess að það var mikilvægt að komast áfram í riðlakeppnina.  Liðið spilaði vel og persónulega er ég ánægður með að vera búinn að skora fyrsta mark mitt á tímabilinu.  Ég var ánægður með að spila í kvöld og hæstánægður með að skora.  Vonandi get ég haldið áfram að skora þegar ég fæ tækifæri."

Aðspurður um möguleika Liverpool á sigri í Úrvalsdeildinni sagði Crouch:  ,,Við lítum vel út.  Það var mikilvægt að byrja tímabilið vel og svo virðist sem að það hafi gengið eftir.  Allir nýju leikmennirnir virðast vera búnir að aðlaga sig að nýju félagi og ef við höldum áfram að bæta okkur eins og við höfum gert undanfarið þá eigum við góðan möguleika."

Sami Hyypia var fyrirliði liðsins í fjarveru Steven Gerrard og Jamie Carragher og hélt hann uppá það með því að skora annað mark kvöldsins.  Hann var hvergi banginn þegar hann skallaði boltann í markið þrátt fyrir að vera nefbrotinn.

,,Ég óttaðist ekkert," sagði Hyypia í gríni eftir leikinn.  ,,Auðvitað hefði boltinn getað farið í nefið og ég hafði fengið smá högg á nefið áður en ég skoraði.  Sem betur fer fór boltinn í ennið á mér."

,,Ástæðan fyrir því að ég var fyrirliði var kannski ekki ánægjuleg, Stevie og Carra eru meiddir.  Ég myndi frekar vilja sleppa því að vera fyrirliði ef það myndi þýða að þeir tveir væru í liðinu í hverjum leik."

Varðandi frammistöðu liðsins í leiknum sagði Hyypia:  ,,Við unnum okkar vinnu og náðum að skora nokkur mörk.  Við ákváðum fyrir leik að sækja hratt og reyna að skora snemma, sem betur fer tókst það.  Ég held að við hefðum jafnvel getað skorað fleiri mörk, sérstaklega í fyrri hálfleik, en við erum ánægðir með að vera komnir í riðlakeppnina.  Við spiluðum á háu tempói, létum boltann ganga vel og sýndum rétt viðhorf."

Síðasti markaskorari kvöldsins, Dirk Kuyt, sagðist ekki vera alveg nógu ánægður með frammistöðu sína þrátt fyrir að hafa skorað tvö mörk.

,,Ég held að ég hafi fengið nóg af tækifærum til að skora fjögur mörk, þannig að ég var ekki ánægður með það." sagði Kuyt.  ,,Þegar öllu er á botninn hvolft er ég ánægður með að hafa skorað tvisvar, en ég verð samt að gera betur."

Kuyt hefur nú skorað 16 mörk í 51 leik með Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan