Toulouse teknir í gegn
Liverpool komst áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með því að taka Toulouse í gegn 4:0 á Anfield Road. Sigur Liverpool hefði getað verið miklu stærri. Liverpool komst áfram samanlagt 5:0 gegn franska liðinu. Fyrir leikinn var minning Rhys Jones heiðruð á eftirminnilegan hátt.
Rafael Benítez gerði miklar breytingar á liðinu frá því í leiknum við Sunderland um helgina. Meðal annars þá var Argentínumaðurinn Sebastian Leto í fyrsta sinn í liði Liverpool. Gestirnir áttu fyrstu marktilraunina strax á annarri mínútu en langskot eins þeirra fór beint í fangið á Jose Reina. Mínútu síðar varði Nicolas Douchez, markvörður Toulouse, aukaspyrnu frá John Arne Riise. Eftir þetta tók Liverpool öll völd á vellinum. Eftir rúman stundarfjórðung varði Nicolas skalla frá Peter Crouch. Peter braut ísinn á 19. mínútu. Dirk Kuyt sendi frábæra sendingu fyrir markið frá hægri. Við fjærstöngina var Peter mættur og stýrði boltanum í markið af stuttu færi. Yossi Benayoun átti stóran hlut í markinu en hann kom boltanum á Dirk af miklu harðfylgi. Franska liðið fékk besta færi sitt á 27. mínútu þegar einn leikmanna þess komst í góða stöðu inni á teignum en Alvaro Arbeloa mætti á svæðið og bjargaði. Eftir rúman hálftíma átti Dirk Kuyt skot rétt framhjá eftir góða sendingu frá Yossi sem var mjög líflegur í leiknum. Litlu síðar skallaði Peter yfir úr dauðafæri eftir góða fyrirgjöf frá Alvaro. Liverpool hafði aðeins eitt mark í forystu í hálfleik og leikmenn franska liðsins gátu prísað sig sæla með það.
Liverpool gerði út um leikinn á 49. mínútu. Yossi Benayoun tók þá hornspyrnu frá hægri. Hinn nefbrotni Sami Hyypia stökk upp, einn og óvaldaður, og skallaði boltann af krafti í netið. Eftir þetta gerðist fátt markvert, utan það að Lucas Leiva kom inn sem varamaður í sínum fyrsta leik með Liverpool, þegar stundarfjórðungur var eftir. Dirk Kuyt komst þá inn í teig og þrumaði að marki. Varnarmaður komst fyrir skot hans og af honum fór boltinn í þverslána. Tíu mínútum fyrir leikslok skaut Peter yfir úr góðu færi eftir að hafa lagt boltann frábærlega fyrir sig. Liverpool skoraði loks þriðja markið á 87. mínútu. Dirk braust inn á teig hægra megin. Hann sendi svo á Ryan Babel. Landi hans skilaði boltanum aftur til hans. Dirk beið ekki boðanna og skoraði með skoti í stöng og inn! Stuðningsmenn Liverpool hófu nú að syngja þjóðsönginn en Dirk þaggaði niðri í þeim á lokamínútu leiksins! Hann fékk þá góða sendingu frá Yossi og lyfti boltanum yfir Nicolas sem kom út á móti honum. Boltinn sigldi í markið og stórsigur Liverpool var þar með innsiglaður. Stuðningsmenn Liverpool fóru glaðir heim og bankareikningur félagsins gildnar! Svo var sigurinn líka viðeigandi afmælisgjöf til Liverpool borgar sem átti áttahundruð ára afmæli í dag!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Agger (Finnan 81. mín.), Riise, Benayoun, Sissoko (Lucas 68. mín.), Mascherano, Leto (Babel 75. mín.), Crouch og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Torres, Alonso og Pennant.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (19. mín.), Sami Hyypia (49. mín.) og Dirk Kuyt (87. og 90. mín.).
Toulouse: Douchez, Cetto, Ilunga, Paulo Cesar, Mathieu (Sissoko 81. mín.), Dieuze, Fofana, Sirieix, Elmander, Emana (Fabinho 76. mín.) og Gignac (Bergougnoux 54. mín.). Ónotaðir varamenn: Riou, Jonsson, Mansare og Batlles.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.118.
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Úthaldið hjá Hollendingnum er með ólíkindum. Hann byrjar að hlaupa þegar leikur hefst og hættir ekki fyrr en hann fer af leikvelli. Hann var að venju þindarlaus. Dirk skoraði tvö fyrstu mörk sín fyrir Liverpool á þessari leiktíð og lagði upp eitt í viðbót.
Álit Rafael Benítez: "Til að byrja með langar mig að votta fjölskyldu Rhys Jones samúð mína og virðingu. Hvað leikinn varðar þá er ég mjög ánægður með liðið mitt. Við sýndum vel styrk okkar. Við skoruðum fjögur mörk og hefðum getað skorað miklu fleiri. Núna eigum við tvo leikmenn í hverja stöðu og allir sjá að liðshópurinn okkar er miklu sterkari en hann var áður."
Fyrir leikinn var minning Rhys Jones heiðruð á eftirminnilegan hátt. Áður en stuðningsmenn Liverpool sungu You Will Never Walk Alone var lagið Johnny Todd spilað. Þetta lag, sem var í miklu uppáhaldi hjá Rhys, er alltaf spilað í þann mund sem leikmenn Everton hlaupa til leiks á Goodison Park. Lagið hefur aldrei áður verið leikið á Anfield Road og verður trúlega aldrei aftur spilað þar! Áhorfendur á Anfield Road sungu svo You Will Never Walk Alone samkvæmt hefð. Segja má að þessi mikli söngur hafi í kvöld líka verið sunginn fyrir fjölskyldu Ryhs heitins. Áhorfendur heiðruðu svo minningu Rhys litla með lófataki. Stephen og Melanie, foreldrar Rhys, og eldri bróðir hans voru gestir á leiknum og stóðu við hliðarlínuna þegar minningarathöfnin fór fram. Það verður ekki annað sagt að þetta hafi verið tilfinningaþrungin stund. Hún sýndi svo ekki verður um villst að íbúar Liverpool, hvort sem þeir halda með Liverpool eða Everton, standa saman þegar á reynir.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!