Jose Reina varði víti og tryggði jafntefli
Liverpool hafði eitt með í farteskinu eftir langferð til Portsmouth. Jose Reina varði víti og þegar upp var staðið réði sú markvarsla úrslitum. Liverpool var miklu betri aðilinn framan af en heimmenn sóttu svo í sig veðrið eftir leikhlé. Úrslitin voru því sanngjörn þegar upp var staðið. Stigið dugði Liverpool ekki til að halda efsta sætinu því Arsenal vann sinn leik í dag. Liverpool er í öðru sæti eftir leiki dagsins.
Landsleikjahrinan setti sitt mark á liðsvalið hjá Rafael Benítez. Af þeim sem hófu leikinn voru aðeins tveir leikmenn sem léku báða landsleikina með þjóðum sínum. Þetta voru þeir Daniel Agger og Andriy Voronin. Reyndar lék hvorugur allan leiktímann í landsleikjunum. Jamie Carragher sneri aftur eftir síðubrotið gegn Sunderland. Liverpool var miklu betri aðilinn framan af leiknum og leikmenn liðsins voru mjög grimmir. Yossi Benayoun átt gott skot eftir fjórar mínútur en David James varði í horn. Um tíu mínútum seinna komst Peter Crouch inn á teiginn, eftir snjalla sendingu frá Mohamed Sissoko. Það var ekki fyrr en um miðjan hálfleikinn sem heimamenn náðu fyrstu marktilraun sinni. Benjani Mwaruwari átti þá skot sem Jose Reina varði í horn. Eftir hálftíma dæmdi dómarinn skyndilega vítaspyrnu á Liverpool. Enginn botnaði, til að byrja með, neitt í neinu af hverju vítið var dæmt. Svo kom á daginn að Alvaro Arbeloa hafði togað í treyjuna hans Nwankwo Kanu. Annar línuvörðurinn dæmdi í raun vítið. Þó það megi rökstyðja dóminn þá er vægt til orða tekið að hann hafi verið strangur. Nwankwo Kanu tók vítaspyrnuna sjálfur en Jose Reina gerði sér lítið fyrir og varði af öryggi. Hann skutlaði sér til hægri og varði. Vítasprynan var kannski ekkert of vel tekin en markvarslan var engu að síður frábær. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu og töldu réttlætinu fullnægt! Þetta var síðasta markverða atvik hálfleiksins.
Liverpool fór nærri því að skora mark í fyrstu sókn síðari hálfleiks. Steve Finnan sendi fyrir á Peter Crouch sem tók boltann fram fyrir sig með hælnum. Skotið fór rétt yfir. John Utaga fékk svo gott færi eftir sjö mínútur en hann skaut framhjá úr upplögðu færi. Rétt á eftir náði Andriy Voronin að koma sér í gott færi. Hann kom boltanum yfir David James, við vítateiginn, en boltinn fór í þverslá og yfir. Eftir því sem leið á hálfleikinn fóru heimamenn að færa sig upp á skaftið. Rafael Benítez brást við með því að skipta þeim Fernando Torres og Steven Gerrard inn á með stuttu millibili. Þeir tveir unnu vel saman þegar tuttugu mínútur voru eftir. Steven sendi á Fernando sem komst inn í teig. Hann fékk boltann utarlega í teignum í þröngu færi og skaut hátt yfir. Fimm mínútum seinna komst Sulley Muntari í mjög gott færi en hann skaut boltanum rétt framhjá. Hann hefði sannarlega átt að hitta markið. Fjórum mínútum fyrir leikslok sýndi Fernando mögnuð tilþrif. Hann komst framhjá vörn Pompey vinstra megin og sendi boltann þvert fyrir markteiginn. Andriy var þar staddur fyrir opnu marki en hann náði ekki til boltans. Þetta var besta færi Liverpool í leiknum og það munaði aðeins nokkrum sentimetrum að Úkraínumaðurinn næði boltanum! Á lokamínútunni komst Yossi í góða stöðu, á svipuðum slóðum og Fernando, en varnarmaður kom í veg fyrir að hann kæmi boltanum fyrir markið. Ekkert var því skorað og fjórða leikinn í röð náði Liverpool ekki að leggja Portsmouth að velli.
Portsmouth: James, Johnson, Campbell, Distin, Hreidarsson, Utaka, Davis, Diop, Muntari, Mwaruwari (Kranjcar 67. mín.) og Kanu. Ónotaðir varamenn: Ashdown, Nugent, Taylor og Pamarot.
Gul spjöld: Papa Bouba Diop, Glenn Johnson og Sean Davis.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Arbeloa, Pennant (Gerrard 67. mín.), Sissoko, Alonso (Babel 77. mín.), Benayoun, Voronin og Crouch (Torres 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.
Gul spjöld: Xabi Alonso og Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Fratton Park: 20.388.
Maður leiksins: Jose Reina. Jose varði vítaspyrnu og þegar upp var staðið þá réði þessi markvarsla því að Liverpool hafi stig heim með sér. Jose var mjög sterkur í markinu og greip nokkrum sinnum vel inn í leikinn. Það má því segja að Jose hafi verið hetja Liverpool í leiknum.
Álit Rafael Benítez: Ég er vonsvikinn. Þó fannst mér við leika vel. Við náðum að skapa okkur færi og áttum góðar skyndisóknir. Ég er mjög ánægður með leikmennina. Mér fannst við stjórna leiknum í í fyrri hálfleik en leikurinn var mjög opinn síðasta stundarfjórðunginn."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!