Vel sloppið
Liverpool náði 1:1 jafntefli í Portó í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það verða að teljast ásættanleg úrslit og þá sérstaklega þegar haft er í huga að liðið var manni færri lengi vel. Jermaine Pennant var réttilega rekinn af velli og það hefði getað verið dýrkeypt. Liverpool lék alls ekki vel og var jafntefli vel sloppið.
Heimamenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og strax á annarri mínútu. Steve Finnan var þá of lengi að koma boltanum frá markinu. Hinn stórhættulegi Ricardo Quaresma komst fyrir boltann sem hrökk inn á vítateiginn. Þar fékk Lisandro López boltann í dauðafæri einn á móti Jose Reina. Spánverjinn hélt ró sinni, stóð í báðar fætur og varði skotið. Rétt á eftir átti Ricardo skot rétt yfir. Það sagði sína sögu um kröftugan leik Porto að leikmenn Liverpool komust ekki fram yfir miðju fyrr en á fimmtu mínútu! Það þurfti því ekki að koma á óvart að heimamenn skyldu ná forystu. Eftir átta mínútur komst Tarik Sektioui inn á teig eftir snöggt upphlaup. Hann var að komast fram fyrir Sami Hyppia, en var þó ekki í hættulegu færi utarlega í teignum, þegar Jose Reina kom út úr markinu og sópaði honum niður. Ekki er annað hægt að segja en að Jose hafi þarna gert mistök því ekki var nein sérstök hætta á ferðum. Lucho Gonzalez tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi í mitt markið. Útlitið var sannarlega ekki gott og líklega áttu ekki margir von á því að Liverpool næði að jafna níu mínútum síðar. Steve Finnan tók þá aukaspyrnu frá hægri. Hann sendi boltann á fjærstöng. Þar skallaði Sami Hyypia boltann inn á markteiginn á Dirk Kuyt sem skallaði óvaldaður í mark. Markið var mjög líkt markinu sem Dirk skoraði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor. Markið sló nokkuð á þann ham sem heimamenn voru í og gerðist fátt fram að leikhléi.
Porto sótti af krafti eftir leikhlé en varnarmenn Liverpool stóðu vaktina vel. Það syrti þó í álinn á 58. mínútu. Jermaine Pennant elti þá einn leikmann Porto upp að endamörkum og endaði á því að sparka hann niður. Dómarinn átti ekki annars úrkosta að reka Jermaine af velli. Jermaine sýndi þarna fádæma dómgreindarleysi. Hann fékk gult spjald í fyrri hálfleik og hefði mátt vita á hverju hann átti von á eftir svona hegðun. Rétt á eftir átti Jose Reina vafasamt úthlaup og missti af boltanum. Ricardo Quaresma fékk boltann við vítateiginn. Jose náði að koma fæti fyrir skot hans en þrátt fyrir það stefndi boltinn í markið. Sami kom þó til bjargar og sparkaði boltanum frá á síðustu stundu. Eftir þetta náði Poto lítt að ógna marki Liverpool. Rétt fyrir leikslok náði Liverpool hættulegu upphlaupi. Steve Gerrard lék upp að teignum og sendi boltann til hægri á Dirk sem var í upplögðu færi. Varnarmaður var vel á verði og bjargaði málum. Leikurinn fjaraði út og leikmenn Liverpool sluppu vel að fara með stig frá Portúgal.
Porto: Nuno, Bruno Alves, Paulo Assuncao, Quaresma, Lucho Gonzalez, Lopez, Bosingwa, Fucile, Joao Paulo, Raul Meireles (Farias 64. mín.) og Sektioui (Mariano Gonzalez 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Ventura, Stepanov, Cech, Bolatti og Kazmierczak.
Mark Porto: Lucho Gonzalez, víti, (8. mín.). pen.
Gult spjald: Bosingwa.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Arbeloa, Carragher, Pennant, Mascherano, Gerrard, Babel (Aurelio 85. mín.), Torres (Voronin 76. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Agger, Benayoun, Crouch og Lucas.
Mark Liverpool: Dirk Kuyt (17. mín.).
Rautt spjald: Jermaine Pennant (58. mín.)
Gul spjöld: Jermaine Pennant, Fernando Torres, Dirk Kuyt og Javier Mascherano.
Áhorfendur á Dreka leikvanginum í Porto: 41.208.
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Fyrir utan að skora markið sem gaf jafnteflið þá var Hollendingurinn gersamlega óþreytandi fram á síðustu mínútu. Hann barðist eins og ljón úti um allan völl. Sem sagt ekkert nýtt þar á ferðinni!
Álit Rafael Benítez: Ég er ánægður með úrslitin og ég er stoltur af leikmönnunum. Við lögðum hart að okkur og fengum nokkur færi. Við ætluðum okkur sigur en það er ásættanlegt að ná einu stigi."
Í hinum leik riðilsins vann Marseille 2:0 sigur á Besiktas. Leikurinn fór fram í Frakklandi. Julien Rodriguez og Djibril Cissé skoruðu mörk heimamanna á síðusta stundarfjórungi leiksins. Boudewijn Zenden lék með Marseille.
Hér er staðan í riðlinum
Marseille 1.1 0 0 2:0.3.
Liverpool 1. 1 0 1:1.1.
FC Porto 1. 1 0 1:1.1.
Besiktas 1. 0 1 0:2.0.
Hér eru myndir, af vefsíðu BBC, úr leikjum kvöldsins...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!