"Strákurinn" gekk berserksgang gegn Reading!
Fernando Torres gekk hreinlega berserksgang á Madejski leikvanginum í kvöld. "Strákurinn" skoraði þrennu Reading þegar Liverpool fór áfram í Deildarbikarnum eftir 4:2 sigur. Liverpool hristi af sér slyðruorðið og er nú vonandi komið á rétta leið á nýjan leik eftir þrjú daufleg jafntefli í röð.
Rafael Benítez breytti liðinu sínu að sjálfsögðu. Helst bar til tíðinda að Charles Itandje, fékk að standa í markinu í fyrsta sinn. Það vakti líka nokkra athygli að Fernando Torres var í byrjunarliðinu. Leikurinn var rólegur allt fram að því að tuttugu mínútur voru liðnar. Leroy Lita fékk þá sendingu frá hægri kanti. Hann fór illa að ráði sínu og skallaði beint á Charles Itandje sem stóð steinrunninn á marklínunni. Liverpool refsaði heimamönnum fyrir þetta á 23. mínútu. Varnarmaður heimamanna skallaði boltann þá frá marki. Yossi Benayoun hirti boltann og lék upp að markinu. Rétt utan teigs lék hann laglega á einn varnarmann og í framhaldinu skoraði hann með glæsilegu þrumuskoti upp í hornið. Frábært mark hjá Ísraelanum og sannarlega ekki ónýtt að opna markareikning sinn hjá nýju félagi á þennan hátt. Forysta Liverpool var þó ekki langvinn. Fimm mínútum síðar fékk Reading hornspyrnu frá hægri. Mohames Sissoko skallaði boltann frá en það tókst ekki betur til en svo að boltinn fór beint til Bobby Convey. Hann hikaði hvergi og þrumaði boltanum viðstöðulaust í markið. Glæsilegt mark. Charles kom engum vörnum við í markinu og ekki hjálpaði það honum að þrír leikmenn Reading voru fyrir innan vörnina og einn þeirra stóð svo að segja hjá honum þannig að hann gat varla hreyft sig. Það var sannarlega undarlegt hjá þeim sem dæmdu leikinn að meta það sem svo að þessir þrír leikmenn hefðu ekki áhrif á leikinn því þeir voru svo augljóslega rangstæðir. Charles varði vel undir lok hálfleiksins þegar Reading fékk gott færi eftir snögga sókn.
Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og náði forystu eftir fimm mínútur. Sebastian Leto náði þá boltanum af leikmanni Reading og sendi nákvæma stungusendingu inn fyrir vörnina. Fernando Torres stakk sér inn fyrir vörnina, náði boltanum og skoraði með öruggi skoti út við stöng án þess að Adam Federici kæmi nokkrum vörnum við í markinu. Átta mínútum síðar hefði Liverpool átt að fá vítaspyrnu þegar brotið var á Fernando inni í vítateignum. Ekkert var dæmt og sex mínútum síðar jafnaði Reading. Hornspyrna var send fyrir markið frá hægri. Charles rauk út í teiginn en náði ekki að koma boltanum frá. Boltinn féll fyrir fætur John Halls sem náði að skora í gegnum mikla þvögu leikmanna. Markið verður að skrifast að mestu á Charles í markinu sem átti vafasamt úthlaup. Leikmenn Liverpool lögðu ekki árar í bát og á 72. mínútu náði liðið forystu í þriðja sinn. Liverpool sótti þá upp vinstra megin og John Arne Riise, sem var nýkominn inn sem varamaður, sendi þá góða sendingu fyrir markið á Fernando sem skoraði af öryggi. Þremur mínútum seinna munaði ekki miklu að Leroy Lita jafnaði metin. Hann átti þá glæsilega hjólhestaspyrnu. Boltinn fór beint á Charles Itandje sem sló hann yfir. Fernado hafði gengið berserksgang í hálfleiknum og þriðja mark hans lá í loftinu. Það hefði átt á að koma á 83. mínútu. Steven Gerrard, sem kom inn sem varamaður sex mínútum áður, sendi góða sendingu á Yossi sem skaut að marki í stað þess að gefa á Fernando sem var frír. Adam varði á hinn bóginn skotið. Þrenna "Stráksins" skilaði sér fjórum mínútum fyrir leikslok. Liverpool náði þá hraðri sókn. Steven sendi frábæra sendingu inn fyrir vörnina. Fernando var þar mættur og lék einn upp á markinu. Hann kom Adam gersamlega úr jafnvægi, lék framhjá honum og sendi boltann í autt markið. Leikmenn jafnt sem stuðningsmenn Liverpool trylltust af fögnuði. Fyrsta þrenna "stráksins" var orðin staðreynd og hún kórónaði stórkostlegan leik hans. Jack Hobbs lék sinn fyrsta leik þegar hann kom inn sem varamaður mínútu fyrir leikslok. Þetta var þó leikurinn hans Fernando Torres. Hann kom Liverpool áfram í Deildarbikarnum og sýndi um leið að Liverpool hefur ekki efni á því að láta hann sitja mikið á varamannabekknum!
Reading: Federici, Halls (Kitson 80. mín.), Duberry, Bikey, Shorey, De la Cruz, Harper, Convey (Hunt 80. mín.), Fae, Long (Henry 79. mín.) og Lita. Ónotaðir varamenn: Hahnemann og Cisse.
Mörk Reading: Bobby Convey (28. mín.) og John Halls (64. mín.)
Gul spjöld: Andre Bikey, Michael Duberry og Emerse Fae.
Liverpool: Itandje, Finnan, Carragher, Lucas (Hobbs 89. mín.), Aurelio (Riise 69. mín.), Arbeloa, Benayoun, Sissoko, Leto, Crouch (Gerrard 77. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Martin og Putterill.
Mörk Liverpool: Yossi Benayoun (23. mín.) og Fernando Torres (50., 72. og 86. mín.).
Gult spjald: Lucas Leiva.
Áhorfendur á Madejski leikvanginum: 23.563.
Maður leiksins: Fernando Torres. "Strákurinn" lét að sér kveða svo um munaði. Hann fór hamförum og skoraði þrennu. Leikmenn Reading réðu á köflum ekkert við hann. Fernando er nú búinn að skora sex mörk á leiktíðinni og nú má öllum það ljóst vera að þessi strákur má ekki dvelja mikið á varamannabekknum.
Álit Rafael Benítez: Þetta var frábært kvöld fyrir Fernando. Hann fékk nóg pláss og hreinlega gekk frá varnarmönnum þeirra með hraða sínum og yfirferð. Hann og Peter Crouch léku mjög vel saman. Mér fannst liðið leika frábærlega.
Þess má að lokum geta að Robbie Fowler skoraði tvívegis þegar Cardiff City vann góðan 4:2 útisigur á West Bromwich Albion. Annað markið var úr vítaspyrnu. Robbie er þar með búinn að skora fjögur mörk í sex leikjum með Cardiff. Hljómar kunnuglega! Væri ekki magnað ef Liverpool mætti Cardiff City í næstu umferð?
Hér eru myndir úr leikjum kvöldsins af vefsíðu BBC.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni