| AB

Rafa ver ákvarðanir sínar

Eftir vægast sagt ömurlega frammistöðu gegn Marseille þurfti Rafa að svara fyrir hvers vegna hann valdi vissa leikmenn og af hverju sumir þeirra fengu að spila 90 mínútur.

Næstu andstæðingar eru Tottenham á sunnudaginn, síðan fylgja heimsóknir á Goodison Park og til Istanbul.

Rafael Benitez veit að liðið verður að bæta sig heldur betur: "Við verðum að sýna okkar karakter. Við náðum jafntefli gegn Porto þrátt fyrir að leika illa og unnum Wigan í erfiðum leik."

Rafa hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir að breyta liðinu um of á milli leikja en hann hefur gert 62 breytingar á liðinu í 12 leikjum og notað 34 varamenn. Hann hefur ofurtrú á róteringum sínum: "Það eru ekki breytingarnar á liðinu sem er vandamálið heldur eru lykilmenn ekki að leika vel."

Rafa var gagnrýndur fyrir ýmislegt í Marseille-leiknum eins og að velja Leto og Aurelio á vinstri kantinn: "Ég valdi Leto vegna þess að hann hafði verið góður á æfingum og spilaði vel á vinstri kantinum með Fabio Aurelio í deildarbikarnum. Ég vildi gefa honum tækifæri vegna þess að hann hafði sýnt að hann gæti farið framhjá andstæðingunum á hraðanum.

Athygli vakti að Momo Sissoko var inná allan leikinn þrátt fyrir að hafa verið einstaklega lélegur á miðjunni og svo urðu mistök hans til að Marseille skoraði sigurmarkið: "Ég ákvað að skipta Sissoko ekki útaf. Ég skipti Leto útaf til að prófa eitthvað nýtt og vildi skipta út framherjunum en varð að hætta við það því Aurelio meiddist og varð að fara útaf."

"Það er ekki rétt að einblína á einn leikmann. Allt liðið lék illa. Það er erfitt að útskýra hvernig svona hæfileikaríkt lið gaf boltann svo oft frá sér og skapaði engin marktækifæri."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan