Stig náðist á síðustu stundu
Liverpool náði stigi á Anfield Road gegn Tottenham Hotspur. Það mátti þó ekki tæpara standa því jöfnunarmarkið kom á lokamínútu leiksins. Liðin skildu jöfn 2:2 í fjörugum leik. Liverpool lék aðeins betur en í síðustu leikjum en það dugði ekki til sigurs og liðið slapp með skrekkinn. Það má þó ljóst vera að Liverpool er, þrátt fyrir að hafa ekki tapað í deildinni, enn í lægð.
Gestirnir fengu fyrsta færið þegar Gareth Bale skaut rétt framhjá beint úr aukaspyrnu. Það var þó Liverpool sem náði forystu á 12. mínútu. Steven Gerrard tók þá aukaspyrnu. Boltinn fór í gegnum varnarvegginn og beint á Paul Robinson. Hann hélt ekki boltanum og Andriy Voronin skoraði af stuttu færi. Vel gert hjá Úkraínumanninum sem lék frábærlega. Rétt á eftir munaði ekki miklu að Spurs næði að jafna þegar Robbie Keane skallaði rétt framhjá eftir aukaspyrnu. Á 27 mínútu tók Fernando Torres góða rispu og lék framhjá tveimur varnarmönnum en skot hans fór rétt framhjá. Mínútu síðar var Steven Gerrard óheppinn þegar hann skaut í stöng úr aukaspyrnu. Sóknir gengu nú marka á milli. Dimitar Berbatov komst þá inn á teig og renndi boltanum framhjá Jose Reina. Boltinn stefndi í markið en allt fór vel því Jamie Carragher náði boltanum á marklínunni. Á 33. mínútu hefði Liverpool átt að gera út um leikinn. Þeir Fernando og Andriy tættu vörn Tottenham í sig. Andriy fékk boltann í góðu færi inn á teig en í stað þess að skjóta, sem hann hefði átt að gera, sendi hann á Steven. Hann var ekki í góðu jafnvægi og náði ekki góðu skoti. Boltinn fór í liggjandi varnarmann og Tottenham slapp. Þetta kom í bakið á lokamínútu hálfleiksins. Löng sending kom fram. Dimitar skallaði boltann laglega inn á teig. Þar skaut Robbie Keane sér á milli varnarmanna og renndi boltanum framhjá Jose Reina. Allt í einu var staðan orðin jöfn og kominn hálfleikur.
Síðari hálfleikurinn byrjaði jafn illa og sá fyrri endaði fyrir Liverpool og Jose mátti aftur hirða boltann úr netinu þegar tvær mínútur voru búnar. Uppskriftin var sú sama og í fyrra markinu. Dimitar skallaði langa sendingu á Robbie. Írinn lyfti boltanum laglega yfir Jose og nú var viðsnúningurinn orðinn alger. Jermaine Jenas fékk gott færi á að auka forystuna á 55. mínútu en hann skaut framhjá frá vítateignum úr upplögðu færi. Leikmönnum Liverpool gekk illa að ná upp almennilegri pressu á mark Spurs og það var ekki fyrr en á síðasta stundarfjórðungnum sem eitthvað fór að gerast. Á 77. mínútu átti Steve Finnan gott skot utan vítateig. Paul verði en hélt ekki boltanum en varnarmaður náði að koma boltanum frá. Rétt á eftir fékk Javier Mascherano boltann inn á teig en Paul varði snöggt skot hans vel. Þegar fjórar mínútur voru eftir átti Argentínumaðurinn gott langskot sem fór rétt framhjá. Það leit allt út fyrir fyrsta deildartap Liverpool þegar komið var fram í viðbótartíma. Steve Finnan fékk þá boltann hægra megin við vítateiginn. Írinn náði að snúa varnarmann af sér og senda boltann yfir á fjarstöng. Þar stökk Fernando Torres manna hæst og skallaði boltann neðst í markhornið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu en þeir voru þó ekki ánægðir þegar leiknum lauk. Liverpool átti að gera út um leikinn í fyrri hálfleik en mátti þakka fyrir jafntefli þegar upp var staðið. Liðið er einfaldlega í lægð og það verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur undan landsleikjahrotunni sem nú stendur fyrir dyrum.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Arbeloa (Babel 63. mín.), Pennant (Kuyt 69. mín.), Mascherano, Gerrard, Riise, Voronin (Benayoun 77. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Lucas.
Mörk Liverpool: Andriy Voronin (12. mín,) og Fernando Torres (90. mín.).
Tottenham Hotspur: Robinson, Chimbonda, Dawson, Kaboul, Lee, Tainio (Malbranque 75. mín.), Jenas, Zokora, Bale, Keane og Berbatov. Ónotaðir varamenn: Cerny, Defoe, Huddlestone og Gardner.
Mörk Tottenham: Robbie Keane (45. og 47. mín.).
Gult spjald: Michal Dawson.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.986.
Maður leiksins: Andriy Voronin. Úkraínumaðurinn var frábær í leiknum. Hann barðist eins og ljón út um allan völl. Fyrir utan að vera ógnandi í sókninni og skora þá hjálpaði hann líka til í vörninni. Eitt skil ég þó ekki. Af hverju var honum skipt út af þegar Liverpool var undir?
Álit Rafael Benítez: Til að byrja með þá gerðum við tvö slæm mistök sem kostuðu okkur mörk. Það hefði átt að vera auðvelt að verjast þessum mörkum. Við réðum gangi mála í fyrri hálfleik og hefðum átt að vera með 3:0 forystu. Við notuðum ekki færin og svo gerðum við slæm varnarmistök. Ég segi alltaf að þegar forystan er aðeins 1:0 þá verður að nota þau færi sem gefast. Við sýndum skapstyrk og náðum að jafna. Þegar upp er staðið eru það þó vonbrigði að hafa ekki náð stigunum þremur.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!