Jafnglími gegn Skyttunum
Liverpool og Arsenal skildu jöfn 1:1 í mögnuðum leik á Anfield Road núna síðdegis. Stigið dugði Arsenal til að komast á topp deildarinnar. Bæði lið hefðu getað unnið leikinn. Jafntefli var sanngjarnt og bæði lið eru enn ósigruð í deildinni.
Spánverjarnir tveir, Fernando Torres og Xabi Alonso, komu inn í byrjunarliðið eftir meiðsli og kætti það stuðningsmenn Liverpool. Liverpool hóf leikinn af krafti og á fimmtu mínútu átti Steven Gerrard gott skot frá vítateig sem Manuel Almunia varði með því að slá boltann frá. Varnarmenn Arsenal komu boltanum ekki frá og það endaði með því að Cesc Fabragas braut á Xabi Alonso rétt utan vítateigs vinstra megin. John Arne Riise tók aukaspyrnuna og rúllaði boltanum stutt til Steven Gerrard. Fyrirliðinn hikaði hvergi og þrumaði boltanum í gegnum glufu á varnarvegg Arsenal og í markið! Boltinn söng í markinu án þess að Manuel gæti komið nokkrum vörnum við. Frábært skot hjá Steven sem þarna hélt veglega upp á fjögur hundraðasta leik sinn með Liverpool. Sjö mínútur búnar og óskabyrjun Liverpool staðreynd en Skytturnar lögðu ekki árar í bát og eftir harða sókn fékk Alexander Hleb boltann utan teigs en hann skaut framhjá. Eftir seytján mínútur komst Emmanuel Adebayor inn á vítateiginn en Jose Reina varði með góðu úthlaupi. Á 28. mínútu munaði litlu að Liverpool næði öðru marki. Steven átti þá hörkuskot frá vítateigs sem Almunia varði með því að slá boltann yfir. Frábær markvarsla hjá Spánverjanum. Litlu síðar slapp mark Liverpool þegar Sami Hyypia hreinsaði frá á markteignum eftir harða atlögu gestanna. Jamie Carragher skallaði svo frá til að afstýra hættunni endanlega.
Fernando Torres kom ekki til leiks eftir leikhlé og Peter Crouch leysti hann af. Peter lét strax að sér kveða. Á 52. mínútu átti hann hörkuskot utan vítateigs hægra megin sem Manuel varð að hafa sig allan við að slá í horn. Mark Liverpool slapp vel í næstu sókn Arsenal. Emmanuel Eboue komst þá inn á vítateig hægra megin og þrumaði að marki. Boltinn small í stöng og hrökk út í vítateiginn. Cesc Fabregas fékk boltann fyrir opnu marki en skaut framhjá. Liverpool slapp þarna með skrekkinn. Mikill hraði var í leiknum og bæði lið sóttu til sigurs. Liverpool varð fyrir áfalli um miðja hálfleikinn þegar Xabi Alosno varð að fara af leikvelli vegna meiðsla. Þegar stundarfjórðungur var eftir fékk John Arne boltann utan vítateigs. Hann þrumaði að marki en boltinn fór hárfínt yfir. Gestirnir jöfnuðu fimm mínútum seinna. Alexander fékk boltann vinstra megin við vítateiginn og lyfti honum snilldarlega inn fyrir vörn Liverpool. Cesc skaut sér inn fyrir vörnina og náði boltanum. Hann lék inn á vítateiginn og pikkaði boltanum framhjá Jose án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Vel útfærð sókn og nú var staðan orðin jöfn. En það var ekki allt búið enn. Þremur mínútum fyrir leikslok var Cesc nærri búinn að skora aftur. Þrumuskot hans fór í stöng og boltinn barst út í teig. Þar fékk varamaðurinn Nicklas Bendtner boltann en hann náði ekki almennilegu skoti. Liverpool hefði svo getað náð sigri á síðustu mínútu leiksins. Snörp sókn Liverpool endaði með því að Peter kom boltanum á Steven. Hann braust inn í vítateiginn og þrumaði að marki úr þröngri stöðu. Stuðningsmenn Liverpool sáu fram á sigurmark en William Gallas bjargaði frábærlega með því að henda sér fyrir boltann. Jafntefli varð því niðurstaðan. Bæði lið léku hraðan sóknarleik frá upphafi til enda og ætluðu sér sigur. Jafnteflið var sanngjarnt en leikmenn Arsenal voru miklu ánægðari með þær lyktir mála en heimamenn.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Mascherano, Alonso (Arbeloa 68. mín.), Gerrard, Voronin (Benayoun 65. mín.), Kuyt, Torres (Crouch 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Babel.
Mark Liverpool: Steven Gerrard (7. mín.).
Gul spjöld: Andriy Voronin, Javier Mascherano og Jamie Carragher.
Arsenal: Almunia, Sagna, Toure, Gallas, Clichy (Silva 74. mín.), Eboue (Bendtner 74. mín.), Fabregas, Flamini, Hleb, Rosicky (Walcott 66. mín.), Adebayor. Ónotaðir varamenn: Lehmann og Diarra.
Mark Arsenal: Cesc Fabregas (80. mín.).
Gul spjöld: Tomas Rosicky, Kolo Toure og Cesc Fabregas.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.122.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Jamie var tveggja manna maki og kannski gott betur í vörn Liverpool. Hann bjargaði málum oft á síðustu stundu með því að tefla á tæpasta vað gegn sóknarmönnum Arsenal. Baráttuvilji og eldmóður Jamie er alveg með fádæmum.
Álit Rafael Benítez: Ef litið er á færi okkar í leiknum þá mætti segja að við höfum tapað tveimur stigum. Á móti má segja að miðað við færi Arsenal þá verður ekki annað sagt að þeir hafi verðskuldað að skora. Við vorum lengi með 1:0 forystu og það hefði skipt miklu ef við hefðum náð að skora annað mark. Það tókst því miður ekki. Við lentum í vandræðum þegar þeir Fernando Torres og Xabi Alonso meiddust og urðu að fara af leikvelli. Arsenal er eitt besta lið á Englandi ef ekki Evrópu. Þegar upp var staðið var jafntefli sanngjörn niðurstaða.
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!