Steven skaut Liverpool áfram
Liverpool mátti hafa fyrir því að slá Cardiff City út úr Deildarbikarnum. Steven Gerrard skaut Liverpool áfram með því að skora sigurmarkið í 2:1 sigri. Robbie Fowler kvaddi Anfield Road í annað sinn á þessu ári og kannski í það síðasta!
Stuðningsmenn Liverpool hylltu Robbie Fowler fyrir leikinn með því að kyrja nafn hans. Það þarf enginn að halda að Robbie Fowler sé gleymdur á Anfield Road. Meistarinn minnti á sig strax á 4. mínútu. Hann tók þá aukaspyrnu fyrir framan Kop stúkuna. Boltinn stefndi í markið en Charles Itandje henti sér á eftir boltanum og náði að verja. Leikmenn Liverpool fóru að sýna klærnar og þremur mínútum seinna átti Ryan Babel gott skot sem fór rétt yfir. Peter Crouch átti svo skot rétt framhjá eftir góða rispu. Fabio Aurelio ógnaði markinu næst en Michael Oakes sló gott bogskot hans framhjá. Þetta gerðist allt á upphafskafla leiksins. Á 38. mínútu varð Charles Itandje aftur að taka á honum stóra sínum þegar hann varði skalla frá Paul Parry.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og náði forystu á 48. mínútu. Steven Gerrard lagði þá boltann á Nabil El Zhar. Strákurinn frá Marokkó fékk boltann um 25 metra frá marki. Hann hikaði hvergi og þrumaði boltanum í stöng og inn! Glæsilegt mark hjá stráknum og hann mun sennilega seint gleyma fyrsta marki sínu fyrir Liverpool. Allt virtist nú stefna í að Liverpool færi örugglega áfram en gestirnir gáfust ekki upp. Öllum að óvörum náðu þeir að jafna á 65. mínútu. Kevin McNaughton tók aukaspyrnu og sendi fyrir markið. Þar stökk Darren Purse, fyrirliði Cardiff, hæst og skallaði boltann í markið. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Darren skorar Deildarbikarmark gegn Liverpool. Hann jafnaði metin fyrir Birmingham með marki úr vítaspyrnu í úrslitaleiknum árið 2001. Gleði Veilsverjanna stóð þó ekki lengi því innan við mínútu síðar var Liverpool aftur komið með forystu. Yossi Benayoun, sem var nýkominn inn sem varamaður, fékk sendingu frá Steven Gerrard og lék upp vinstra megin. Hann sendi svo boltann út í teiginn. Þar kom Steven aðvífandi og smellti boltanum í markið. Fallegt mark hjá fyrirliðanum sem er nú kominn í gang á nýjan leik. Liverpool hefði átt að gera endanlega út um leikinn á 80. mínútu. Peter átti þá góðan skalla sem Michael varði með tilþrifum. Litlu síðar komst Robbie í góða stöðu inn á vítateignum en Fabio komst fyrir skot hans. Yossi átti síðasta færið en hann skaut framhjá eftir góðan undirbúning Harry Kewell sem kom inn sem varamaður í fyrsta leik sínum á leiktíðinni. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu sigri þegar flautað var til leiksloka en þeir gleymdu heldur ekki að hylla Guð sem þarna kvaddi sitt heittelskaða leiksvið í síðasta sinn. Þeir félagar Steven Gerrard og Robbie Fowler enduðu á að skiptast á treyjum áður en þeir héldu til búningsherbergja.
Liverpool: Itandje, Arbeloa, Hobbs, Carragher, Aurelio, El Zhar (Kewell 71. mín.), Lucas (Mascherano 87. mín.), Gerrard, Leto (Benayoun 63. mín.), Crouch og Babel. Ónotaðir varamenn: Martin og Riise.
Mörk Liverpool: Nabil El Zhar (48. mín.) og Steven Gerrard (66. mín.).
Gul spjöld: Lucas Leiva og Ryan Babel.
Cardiff City: Oakes, McNaughton (Gunter 84. mín.), Purse, Johnson, Capaldi, Ledley, Rae, McPhail (Whittingham 89. mín.), Parry, Fowler og Hasselbaink (Thompson 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Magennis og Loovens.
Mark Cardiff: Darren Purse (65. mín.)
Gult spjald: Kevin McNaughton.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.780.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Steven var einfaldlega langbesti maður vallarins. Hann lagði upp fyrra markið og skoraði svo sigurmarkið. Steven er greinilega búinn að ná sér á strik aftur eftir lægð sem hann var í um tíma.
Álit Rafael Benítez: Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleik og við fengum mörg færi til að skora. Þeir gáfust þó aldrei upp og lögðu hart að sér. Við byrjuðum síðari hálfleikinn vel og ég held að góð byrjun okkar hafi ráðið úrslitum. Þeir komust aftur inn í leikinn með marki eftir fast leikatriði og það var því gott að sjá Steven Gerrard skora. Við hefðum þurft að skora þriðja markið en þegar upp var staðið erum við ánægðir með sigurinn."
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!