Ekki ferð til fjár
Liverpool sótti ekki gull í greipar liðsmanna Blackburn er liðin mættust um helgina. Blackburn hafði unnið fjóra leiki í röð og Liverpool á góðri leið með að verða jafntefliskóngar Úrvalsdeildarinnar. Það mátti búast við þrælerfiðum leik en þegar uppi var staðið voru Liverpoolmenn endemis klaufar að vinna ekki leikinn.
Það vakti mikla furðu að Peter Crouch fékk ekki tækifæri í byrjunarliðinu í stað Torres en í stað þess stillti Benítez Kuyt einum frammi. Enn einu sinni sýnir Benítez að hann virðist hafa meiri áhyggjur af andstæðingnum en góðu hófi gegnir og lagar leikaðferð sína og mannskap algjörlega eftir því. Hann ætti frekar að einbeita sér líkt og starfsbræður hans Wenger og Ferguson að kostum eigins liðs og láta andstæðinginn hafa áhyggjur af Rauða hernum.
Spilamennska Liverpool í þessum leik var ekki áferðarfalleg frekar en fyrri daginn. Tilgangslausar sendingar aftur á vörnina sem virðast helst ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að varnarmennirnir drepist úr leiðindum. Þetta gekk svo langt að Carragher öskraði sig hásan á John Arne Riise fyrir að reyna mjög hættulega sendingu á miðju varnar sinnar. Áhorfendur á Ewood Park voru orðnir svo leiðir á leiknum að sást til eins leika sér með Rubiktöfrakubbinn í stað þess að horfa á leikinn. Segir það meira en mörg orð.
Það er skelfilega áberandi að það skortir verulegt sjálfstraust í liðsmenn Benítez því menn virðast beinlínis hræddir við að taka af skarið og sækja að marki andstæðinganna sem samkvæmt síðustu rannsóknum er hentugasta leiðin til að skora mark.
Blackburn var sterkari aðillinn í fyrri hálfleik. David Bentley var nálægt því að skora þegar skot hans sleikti stöngina og svo átti David Dunn frábært skot í þverslána sem Reina átti lítinn séns í. Blackburn sem sagt óheppið að vera ekki 1-0 yfir í hálfleik.
Peter Crouch kom sterkur inn í lið Liverpool í síðari hálfleik og hlýtur að fá nú almennilegan séns í næstu leikjum nú þegar Torres nýtur ekki við. David Bentley varði á marklínu eftir skalla Crouchinho og hann var mjög ógnandi í leik sínum eins og gegn Arsenal. Blackburn átti ekki ekki eins mikið í síðari hálfleik og í þeim fyrri en hefði átt að fá víti þegar boltinn fór í hönd Carragher í vítateignum.
Dirk Kuyt hlýtur að hafa tekið sjálfan sig á eintal eftir þennan leik því hann hefði átt að gera út um þennan leik. Hann komst í gegnum vörn Blackburn og var óáreittur í teignum því að varnarmaðurinn bakkaði frá honum en í stað þess að fara beint að marki og reyna að skora fór hann að endamörkum og beið alltof lengi með sendinguna þannig að Steven Gerrard sem kom á fleygiferð hljóp nánast beint í fangið á honum. Gerrard var trylltur á svip þegar hann sá Friedel glaðhlakkalegan með boltann í fanginu.
Undir lok leiksins fékk Dirk Kuyt opið færi vinstra megin í teignum en skot hans fór um sjötíu metra yfir og beint í hausinn á gamalli konu sem var á gangi í mesta sakleysi fyrir utan leikvanginn.
Fyrirsjáanlegustu úrslit helgarinnar niðurstaðan 0-0.
Liverpool: Reina, Riise, Finnan, Hyypia, Carragher, Babel (Kewell 63. mín), Mascherano, Sissoko, Benayoun (Crouch 72. mín), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Martin, Arbeloa og Lucas.
Gult spjald: Jamie Carragher 58. mín.
Blackburn: Friedel, Ooijer, Samba, Nelsen, Warnock, Emerton, Bentley, Dunn (Tugay 56. mín), Pedersen, Santa Cruz, McCarthy (Derbyshire 89. mín). Ónotaðir varamenn: Brown, Khizanishvili og Treacy.
Áhorfendur á Ewood Park: 30.033.
Maður leiksins: Javier Mascherano. Argentínumaðurinn spilaði geysilega vel á miðjunni. Hann var alltaf að og barðist eins og ljón. Hann er geysilega snjall í tæklingum og hann vann þær ófáar.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!