Síðbúinn sigur á Fulham
Það sem vakti einna mest athygli var að Rafa stillti upp óbreyttu byrjunarliði frá síðasta leik enda ekki ástæða til annars þegar viðkomandi lið slær met í Meistaradeild.
Fulham byrjaði leikinn með tveimur skotum að marki en komst voðalega lítið nálægt marki Liverpool eftir það. Liverpool spilaði boltanum mun betur en að undanförnu í Úrvalsdeildinni og reyndi að brjóta á bak aftur þétta vörn Fulham. Sami Hyypia var fyrsti leikmaður Liverpool til að ógna marki andstæðinganna þegar Gerrard renndi boltanum á hann utan vítateigs úr aukaspyrnu. Leikmenn Fulham bjuggust augljóslega ekki við því að Finninn væri orðinn aðalspyrnufræðingur liðsins en hann átti afbragðsskot sem stefndi neðst í bláhornið en samlandi hans Niemi varði vel.
Á 13. mínútu fékk Steven Gerrard frítt skotfæri rétt fyrir utan teig sem á nánast að vera eins og vítaspyrna fyrir leikmann með hans hæfileika en hann skaut boltanum yfir. Fulham gekk ágætlega að verjast sóknarlotum Liverpool í fyrri hálfleik sem var frekar tíðindalítill í heildina en Crouch var örskammt frá því að koma Liverpool yfir einni mínútu fyrir leikhlé þegar skalli hans datt niður á þverslána.
Staðan var einnig 0-0 í leikhléi þegar liðin mættust síðast á Anfield en þá vann Liverpool 4-0. Vonir voru bundnar við að það myndi endurtaka sig.
Liverpool pressaði stíft að marki Fulham í síðari hálfleik. Aurelio kom Niemi í vandræði með skoti beint úr aukaspyrnu sem hann sló út í teiginn þar sem Benayoun kom aðvífandi en varnarmaður Fulham var einnig í boltanum og Ísraelinn náði því ekki að fylgja á eftir sem skyldi og boltinn fór hátt yfir markið. Voronin reyndi sitt besta til að efna loforð sitt sem var að skora fyrir nýfæddan son sinn og skapaði sér gott skotfæri upp á sitt einsdæmi eftir góðan samleik. Skot hans stefndi í þaknetið en Niemi varði vel. Menn voru farnir að óttast að ísinn yrði aldrei brotinn. Babel var settur inná fyrir Riise á 62. mínútu og Torres fyrir Voronin á 70. mínútu. Það var svo hinn magnaði spænski framherji sem gerði útslagið með snilldartilþrifum. Löng markspyrna Reina á 81. mínútu rataði á Torres sem tók boltann niður í teignum, lék á Aaron Hughes og skaut boltanum í nærhornið, gjörsamlega óverjandi fyrir Niemi. Klassamark! Reina hljóp endilangan völlinn til að fagna samlanda sínum.
Á 84. mínútu fékk Liverpool vítaspyrnu þegar brugðið var fæti fyrir Peter Crouch. Brotið átti sér reyndar stað rétt fyrir utan teiginn en auðvitað sló Liverpool ekki hendinni á móti því að fá víti. Steven Gerrard steig fram til að taka vítið sem rifjaði upp þá óþægilegu staðreynd að síðast þegar Liverpool brenndi af víti var það einmitt gegn Fulham 9. desember 2006 en þá reyndar fékk hann boltann aftur og skoraði. Að þessu sinni setti Gerrard boltann af öryggi í netið og gulltryggði sigur Liverpool.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Aurelio, Benayoun, Mascherano (Lucas 81. mín), Gerrard, Riise (Babel 62. mín.) Voronin (Torres 70. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Martin og Finnan.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (81. mín.) og Steven Gerrard víti (85. mín.).
Fulham: Niemi, Baird, Hughes, Stefanovic, Bocanegra, Davies, Davis, Murphy, Dempsey (Kamara 69. mín.), Kuqi og Healy (Bouazza 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Warner, Smertin og Leijer.
Gul spjöld: Clint Dempsey og Danny Murphy.
Skottilraunir:
Liverpool 21-5 Fulham
Á rammann:
Liverpool 13-3 Fulham
Áhorfendur: 43.073.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finnski furstinn var frábær í þessum leik. Hann var geysilega ákveðinn og leikmenn Fulham komust hvorki lönd né strönd þegar þeir hittu Sami fyrir. Fyrir utan að vera eins og klettur í vörninni þá byggði hann upp sóknir og gaf sér meira að segja tíma til að ógna marki Fulham nokkrum sinnum.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!