| Grétar Magnússon

Fleiri stoðsendingar frá Reina

Rafa Benítez telur að Pepe Reina eigi eftir að eiga fleiri stoðsendingar á þessu tímabili en glæsilegt langspark hans rataði á bringuna á Torres sem sá svo um að setja boltann í net Fulham manna á laugardaginn.

Benítez telur að hæfileiki sem þessi skilji á milli góðra og heimsklassa markvarða.

Hann sagði:  ,,Reina er markvörður með gríðarlega mikinn leikskilning.  Hann getur lesið leikinn og sent góðar sendingar eins og sendingin á Torres sannaði.  Hann getur sent boltann beint á sóknarmennina og þeir þurfa bara að taka við boltanum."

,,Nútíma markmaður þarf að geta lesið leikinn eins og þetta.  Það gerir gæfumuninn.  Það er hægt að verja 100 skot, en ef maður gerir ekki eitthvað meira þá er maður aðeins góður markvörður - ekki heimsklassa markvörður."

Það er ekki bara stjórinn sem er ánægður með frammistöðu Reina undanfarið.

Steven Gerrard, sem skoraði seinna markið gegn Fulham af vítapunktinum bætti við:  ,,Hann sparkar ekki bara boltanum fram völlinn til þess eins að losa pressu.  Hann sendir boltann úr öftustu stöðu og hann er frábær markvörður."

Gerrard var kannski ekki mjög hissa á því að sjá Reina eiga stoðsendingu heldur var hann meira hissa á því að sjá Reina hlaupa fram allan völlinn til að fagna með liðsfélögum sínum.

,,Ég held að mörgum hafi verið létt eftir að hafa skorað, við vorum búnir að spila í 80 mínútur án þess að skora.  Okkur öllum var mikið létt.  Reina og Fernando eru vinir utan vallar þannig að það er kannski líka ástæðan fyrir því að hann hljóp svona langt."

,,Ég held að ég hafi aldrei séð hann hlaupa eins hratt og þarna !"

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan