| Sf. Gutt

Skjórarnir teknir í gegn

Það var ekki að sjá að neitt hefði í skorist hjá Liverpool eftir hörð orðaskipti yfir Atlandsála nú fyrir helgina. Liverpool lék einn besta leik sinn á leiktíðinni og tók Skjórana í gegn 3:0 á St. James Park. Liverpool hafði tögl og hagldir frá upphafi til enda og hefði getað unnið enn stærri sigur.

Leikmenn Liverpool komu geysilega vel stemmdir til leiks og það var greinilegt að liðið ætlaði sér ekkert annað en sigur á St. James Park. Heimamönnum hefur vegnar illa upp á síðkastið og leikmenn Liverpoool færðu sér óöryggi þeirra vel í nyt. Þrátt fyrir yfirburði frá upphafi náði Liverpool ekki að skapa sér opin færi framan af leik. Ísinn var þó brotinn á 28. mínútu. Liverpool fékk þá aukaspyrnu um 30 metra frá marki. Lucas Leiva rúllaði boltanum til hliðar á Steven Gerrard sem þrumaði boltanum snúningalaust í markið með bylmingsskoti. Stórglæsilegt mark hjá fyrirliðanum sem fór á kostum í leiknum. Það voru rúmar fimm mínútur til hálfleiks þegar heimamenn fegnu sitt fyrsta færi en gott skot Alan Smith utan vítateigs fór rétt framhjá. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Liverpool dauðafæri. Fernando Torres komst einn gegn Shay Given. Írski landsliðsmarkvörðurinn kom út út teignum og varði. Boltinn virtist fara í hendina á honum en ekkert var dæmt. Dirk náði að koma boltanum á Fernando sem hafði markið autt fyrir framan sig en skot hans fór í stöng. Spánverjinn hefði átt að skora og Newcastle slapp með skrekkinn.

Liverpool gerði svo gott sem út um leikinn á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Steven tók þá hornspyrnu. Sami Hyypia skaut sér við markteigshornið og fleytti boltanum fyrir markið. Þar rakst boltinn í annað hnéið á Dirk Kuyt og fór þaðan í netið. Dirk vissi nú sennilega ekki mjög mikið hvað væri að gerast en nú hafði hann heppnina með sér fyrir framan markið! Nú tók Liverpool leikinn endanlega í sínar hendur og vörn heimamenna vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Ryan Babel kom inn fyrir Harry Kewell á 58. mínútu. Ástralinn hafði átt góðan leik. Ryan skoraði svo þriðja markið átta mínútum eftir að hann kom inn á. Ryan lék þá upp vinstra megin. Rétt utan vítateigs sendi hann á Steven sem rauk inn í teiginn. Hann lagði svo boltann út í teiginn og þangað var Ryan kominn og hann skoraði með öruggu skoti í fjærhornið. Rétt á eftir komst Fernando Torres í gott færi en hann skaut framhjá. Hann komst svo í gott færi á miðjum teig en Shay varði vel. Heppnin var sannarlega ekki með Fernando í leiknum og á góðum degi hefði hann getað skorað eins og fjögur mörk. Ólán hans kom ekki að sök í þessum leik og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu í leikslok. Þeir áttu sannarlega skemmtilegan dag á St. James Park!

Newcastle United: Given, Geremi, Beye, Rozehnal, Jose Enrique (Carr 78. mín.), Smith, Butt, Emre (Barton 51. mín.), N´Zogbia (Milner 59. mín.), Viduka og Martins. Ónotaðir varamenn: Harper og Edgar.

Gul spjöld: Nicky Butt, Beye og Alan Smith.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Arbeloa, Gerrard (Crouch 80. mín.), Lucas, Sissoko, Kewell (Babel 58. mín.), Torres og Kuyt (Riise 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Mascherano.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard (28. mín.), Kuyt (46. mín.) og Ryan Babel (66. mín.). 

Gul spjöld: Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á St. James Park: 52.307.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn fór algerlega á kostum. Heimamenn réðu ekkert við hann og Steven lét látlaust baul áhorfenda ekki setja sig út af laginu. Hið frábæra mark hans dró líka heldur úr baulinu! Hann átti líka þátt í honum tveimur mörkum Liverpool.

Álit Rafael Benítez: Þetta var næstum fullkomin leikur hjá okkur. Liðið lék virkilega vel. Það var mikið sjálfstraust hjá leikmönnunum. Þeir spiluðu boltanum vel og héldu markinu hreinu. Liðið okkar hélt uppi hraðanum og margir leikmanna okkar léku vel. Svona leik vill maður sjá.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan