Enn er von eftir stórsigur!
Liverpool á enn von um að komast upp úr riðlinum í Meistadeildinni eftir stórsigur á Porto á Anfield Road. Áhorfendur studdu vel við bakið á liðinu sínu og Rafael Benítez.
Leikmenn Liverpool vissu sem var, þegar þeir gengu til leiks, að ekkert annað en sigur dugði í þessum leik. Það kom því ekki á óvart að leikmenn Rauða hersins byrjuðu af krafti. Lengi vel gekk illa að skapa færi. Liverpool hefði þó átt að fá vítaspyrnu eftir fimm mínútur þegar skot frá Yossi Benayoun, sem kom aftur í liðið eftir meiðsli, fór í hendina á einum leikmanni Porto inni í vítateig. En ísinn var brotinn á 19. mínútu. Steven Gerrard tók þá hornspyrnu frá hægri. Fernando Torres stökk óáreittur upp við markteiginn og skallaði boltann í jörðina og í markið. Leikmenn Porto áttu í erfiðleikum með leikmenn Liverpool og allt stefndi í öruggan sigur. Það kom þó bakslag á 33. mínútu. Przemyslaw Kazmierczak braust þá framhjá Steve Finnan og upp að endamörkum vinstra megin og sendi frábæra sendingu fyrir markið. Við markteiginn stökk Lisandro Lopez og náði á ótrúlega hátt að stýra boltanum í netið með fallegum skalla. Leikmenn Liverpool voru nú slegnir út af laginu og fjórum mínútum seinna fékk Lisandro algert dauðafæri. Vörn Liverpool opnaðist og hann komst einn inn á teig en á óskiljanlegan hátt skaut hann framhjá. Liverpool hefði því getað verið undir þegar flautað var til hálfleiks.
Lengi vel gekk hvorki né bak hjá Liverpool í síðari hálfleik. Leikmenn Porto vörðust vel og leikmönnum Liverpool gekk illa að skapa sér góð færi. Harry Kewell og Peter Crouch komu inn sem varamenn til að auka kraftinn í sókninni og það var Harry sem átti þátt í markinu sem kom Liverpool yfir. Á 78. mínútu tók Harry rispu upp völlinn og sendi svo góða sendingu fram á Fernando. Hann fékk boltann við vítateiginn þar sem hann sneri einn varnarmann af sér á frábæran hátt. Hann lék svo inn í teiginn og skoraði með hárnákvæmu skoti í fjærhornið. Stórglæsilegt gert hjá Fernando og stuðningsmönnum Liverpool var létt! Sex mínútum seinna gerði Liverpool út um leikinn. Steven Gerrard sendi aukaspyrnu inn á vítateiginn. Þar stökk einn varnarmanna Porto upp með Sami og sló boltann með hendi. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu sem Steven skoraði af miklu öryggi úr. Tveimur mínútum fyrir leikslok kom svo fjórða markið. Steven tók hornspyrnu frá hægri. Peter afgreiddi hornspyrnuna í markið með skalla rétt utan markteigs. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu mikilvægum sigri sem gefur Liverpool möguleika á áframhaldi. En það er enn mikið verk óunnið. Mestu skiptir þó að möguleikinn er fyrir hendi!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Arbeloa, Benayoun (Crouch 71. mín.), Gerrard, Mascherano, Babel (Kuyt 85. mín.), Voronin (Kewell 63. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje, Riise, Lucas og Sissoko.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (19. og 78. mín.), Steven Gerrard víti (84. mín.) og Peter Crouch (88. mín.)
Gult spjald: Sami Hyypia.
Porto: Helton, Bosingwa, Stepanov, Bruno Alves, Cech, Mariano Gonzalez (Sektioui 77. mín.), Lucho Gonzalez, Paulo Assuncao (Postiga 81. mín.), Kazmierczak (Raul Meireles 65. mín.), Quaresma og Lopez. Ónotaðir varamenn: Nuno, Pedro Emanuel, Fucile og Bolatti.
Mark Porto: Lisandro Lopez (33. mín.).
Gul spjöld: Paulo Assuncao, Stepanov og Ricardo Quaresma.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.095.
Maður leiksins: Fernando Torres. "Stráknum" voru mislagðar fætur gegn Newcastle á laugardaginn en það fór eins og marga grunaði. Hann var bara óheppinn í þeim leik en núna sýndi hann hversu magnaður leikmaður hann er. Fernando skoraði tvö frábær mörk og lék geysilega vel.
Álit Rafael Benítez: Fernando Torres Torres er leikmaður sem getur skorað mörk. Hann misnotaði þrjú eða fjögur færi gegn Newcastle um daginn en í hann skoraði í dag og stundum gengur þetta svona.
Hér er staðan í riðlinum
Porto 5. 2 2 1 6:7. 8.
Marseille 5. 2 1 2 6 :5. 7.
Liverpool 5. 2 1 2 14:5. 7.
Besiktas 5. 2 0 3 4:13. 6.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu