Mörkunum rigndi í rigningunni!
Jólamánuðurinn byrjaði eins og best var á kosið og mörkunum rigndi á Anfield Road í rigningunni í dag. Liverpool vann öruggan 4:0 sigur á Bolton og styrkti stöðu sína við topp deildarinnar.
Það var strax ljóst að Liverpool ætlaði að halda áfram á sömu braut og í síðustu leikjum. Liðið tók strax öll völd og snemma leiks var bjargað á línu frá Peter Crouch. Yossi Benayoun tók góða rispu inn í teig, komst framhjá markverði Bolton og sendi fyrir markið á Peter sem hefði átt að skora. El Hadji Diouf var heppinn að fá ekki rautt spjald eftir um tíu mínútur þegar hann braut illa á Alvaro Arbeloa. Hann var bókaður en hefði ekki getað kvartað ef hann hefði verið rekinn af leikvelli. Liverpool náði svo forystu á 17. mínútu. Steven Gerrard sendi aukaspyrnu inn á teiginn. Boltinn fór beint á Sami Hyypia sem stýrði boltanum í markið með góðum skalla framhjá Jussi Jaaskelainen landa sínum í marki Bolton. Finninn skoraði þarna annað mark sitt á leiktíðinni. Hann er búinn að vera alveg frábær í síðustu leikjum og hann er sannarlega ekki dauður úr öllum æðum! Liverpool hafði öll völd þegar dró að leikhléi en þá fékk Bolton besta færi leiksins upp úr þurru. Á 38. mínútu kom löng sending fram upp að vítateig Liverpool. Þeir Jose Reina og Jamie Carragher fóru báðir í boltann en ekki vildi betur til en það að þeir rákust saman. Nicolas Anelka fékk boltann í algeru dauðafæri aðeins til hliðar við markið og þurfti ekki annað en að renna boltanum í autt markið. Það tókst ekki því á ótrúlegan hátt tókst Frakkanum að skjóta framhjá! Þessi fyrrum lánsmaður Liverpool trúði ekki sínum eigin augumog þarna slapp Liverpool sannarlega með skrekkinn. Leikmenn Liverpool létu sér þetta að kenningu verða og svo til gerðu út um leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks. Steven Gerrard sendi þá langa stungusendingu fram völlinn. Fernando Torres stakk sér inn á vítateiginn og lyfti boltanum yfir markvörð Bolton frá hægra vítateigshorninu. Boltinn sveif yfir í hornið fjær. Snilldarleg afgreiðsla hjá Fernando og sendingin frá Steven var meistaraleg. Sannarlega góður endir á fyrri hálfleiknum!
Bolton átti aldrei möguleika í síðari hálfleik. Peter Crouch átti góðan skalla hárfínt framhjá snemma í hálfleiknum og rétt á eftir komst Steven einn inn á teig eftir frábæra rispu en Jussi varði vel með öðrum fætinum. Jamie Carragher þurfti að yfirgefa völlinn á 51. mínútu og tók Jack Hobbs stöðu hans. Jack átti góðan leik og skilaði sínu með sóma. Jamie varð að fara út af vegna meiðsla sem hann varð fyrir í árekstrinum við Jose í fyrri hálfleik. Fjórum mínútum seinna fékk Liverpool vítaspyrnu þegar brotið var á Peter Crouch. Steven sendi fyrir markið og þar þjörmuðu tveir varnarmenn að Peter og dæmdi vítaspyrnu. Steven tók vítaspyrnuna og skilaði boltanum í netið af miklu öryggi. Allar vonir Bolton var nú úr sögunni og hér eftir var aðeins spurning um hversu mörg mörk Liverpool myndi skora. Jussi varði vel frá Harry Kewell og sóknir Liverpool voru gjarnan ógnandi. Það var ekki fyrr en eftir klukkutíma leik að Nicolas Anelka kom skoti á mark Liverpool. Jose varði það af öryggi. Fernando átti svo stórkostlega rispu framhjá nokkrum varnarmönnum inn á teiginn en hann lyfti boltanum yfir. Hann hefði í raun átt að skora. Á 67. mínútu kom Ryan Babel inn fyrir Harry. Hollendingurinn var sprækur eins og í síðustu leikjum. Fimm mínútum fyrir leikslok tók Steven enn einu sinni rispu fram völlinn. Hann sendi út til hægri á Dirk Kuyt sem kom inn fyrir Fernando. Dirk náði góðu skoti fyrir utan teiginn. Jussi varði en hélt ekki boltanum. Ryan var mættur við fjærstöngina og renndi boltanum í markið. Staðan orðin 4:0 og sigurinn hefði getað orðið enn stærri því rétt á eftir var bjargað á línu frá Ryan eftir hörkusókn. Stórsigur og stuðningsmenn Liverpool fóru kátir heim í rigningunni. Líklega urðu þeir sem gengu frá leikvanginum gegnblautir en ég hugsa að þeim hafi verið nákvæmlega sama!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher (Hobbs 51. mín.), Riise, Benayoun, Gerrard, Leiva, Kewell (Babel 67. mín.) og Torres (Kuyt 76. mín.), Crouch. Ónotaðir varamenn: Itandje og Mascherano.
Mörk Liverpool: Sami Hyypia (17. mín.), Fernando Torres (45. mín.), Steven Gerrard víti (56. mín.) og Ryan Babel (86. mín.).
Bolton Wanderes: Jaaskelainen, Samuel, Meite, Michalik, Gardner, McCann, Campo, Speed, Davies, Anelka og Diouf (Giannakopoulos 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Al Habsi, Wilhelmsson, Teymourian og Alonso.
Gul spjöld: El Hadji Diouf, Ivan Campo og Lubomir Michalik.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.270.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn skoraði eitt mark, lagði upp tvö og átti stóran þátt í fjórða markinu. Steven er að leika frábærlega um þessar mundir og hann átti stórleik í þessum leik. Hann er nú búinn að skora í fimmleikjum í röð. Ekki sem verst hjá miðjumanni!
Álit Rafael Benítez: Það er mikið sjálfstraust í liðinu. Það sást vel á því hversu mörg marktækifæri liðið skapaði sér. Við erum að reyna að halda áfram að spila af þessum sama krafti. Um leið erum við að vonast til að öðrum liðum verði á missi stig. Við erum í miklu betri stöðu en á sama tíma á síðustu leiktíð. Liðið er að skora fullt af mörkum. Ég held að liðið geti spilað enn betur.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!