Fyrsta deildartapið
Liverpool tapaði sínum fyrsta deildarleik á leiktíðinni og Reading vann um leið sinn fyrsta sigur á Liverpool í sögunni. Tapið var nógu slæmt og ekki síst fyrir þær sakir að slæm mistök dómarans komu Reading á sporið. Liverpool lék á hinn bóginn ekki vel og líklega voru einhverjir leikmenn liðsins komnir með hugann suður að Miðjarðarhafi.
Liverpool fékk fyrsta færið í leiknum á 8. mínútu þegar Fernando Torres fékk boltann inni á teig eftir langt innkast frá John Arne Riise en skot hans fór beint á Marcus Hahnemann í markinu. Reading fékk á hinn bóginn vítaspyrnu á silfurfati níu mínútum seinna. Jamie Carragher felldi þá Brynjar Björn Gunnarsson rétt utan vítateigs. Dómaranum varð illa á og dæmdi vítaspyrnu og það eftir að hafa ráðfært sig við línuvörðinn sem hafði góða sýn á atvikið. Mótmæli leikmanna Liverpool komu fyrir ekkert og Stephen Hunt skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Það var reyndar merkilegt að dómarinn skyldi ekki bóka Jamie fyrst hann dæmdi vítaspyrnu! Litlu síðar átti Bobby Convey hörkuskot utanvítateigs sem fór rétt yfir. Liverpool náði svo betri tökum á leiknum og jafnaði metin á 28. mínútu. Jose tók langt útspark. Fernando náði boltanum og renndi honum þvert fyrir markið rétt utan teigs. Steven Gerrard fékk sendinguna, stakk sér inn á vítateiginn og skoraði af öryggi. Glæsilegt mark hjá fyrirliðanum. Liverpool hafði nú undirtökin það sem eftir lifði hálfleiksins en heimamenn börðust vel og gáfu ekkert eftir. Á síðustu fimm mínútum hálfleiksins ógnaði Andriy Voronin tvívegis. Fyrra skot hans fór í hliðarnetið en Marcus varði það seinna vel. Bæði skotin voru utarlega úr teignum úr frekar þröngum færum.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn vel og strax í upphafi skallaði Fernando rétt framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Peter Crouch. Á 52. mínútu tók John Arne aukaspyrnu frá hægri. Rangstöðugildra heimamanna brást og Jack Hobbs fékk boltann einn inni á teignum en hann náði ekki að koma honum á markið. Rétt á eftir hefði Liverpool átt að fá vítaspyrnu eftir að brotið var á Fernando. reyndar var það ekki í eina skiptið sem Spánverjinn gerði tilkall til vítaspyrnu og það með nokkrum rétti! Á 56. mínútu þrumaði John Arne að marki úr aukaspyrnu en Marcus varði naumlega í horn. Fjórum mínútum seinna náðu heimamenn forystu gegn gangi leiksins. Nicky Shorey sendi þá góða aukaspyrnu inn á teig frá hægri. Írinn Kevin Doyle rétt náði að reka höfuðið í boltann og stýra honum í markið. Markið var köld vatnsgusa framan í leikmenn Liverpool en það mátti engu muna að Steven næði að jafna sex mínútum seinna. Glæsilegt skot hans utan teigs small í þverslánni rétt við vinkilinn. Heimamenn sneru vörn í sókn mínútu síðar. James Harper slapp einn í gegn rétt inn á vallarhelmingi Liverpool. Hann tók spretinn inn á vítateiginn þar sem hann lék laglega á Jose og renndi boltanum í autt markið. Vel afgreitt hjá James. Heimamenn gátu sannarlega hrósað happi að vera komnir með svona góða stöðu miðað við færin í leiknum en þeir unnu fyrir sínu með mikilli baráttu. Harry Kwell skipti við Fernando og hann var grátlega nærri því að minnka muninn tuttugu mínútum fyrir leikslok en skot hans fór rétt framhjá. Steven var tekinn af leikvelli rétt á eftir og líklega var það til marks um hvaða verkefni væru framundan hjá Liverpool. Ekkert gekk hjá Liverpool og það kom best í ljós á 90. mínútu þegar gott skot frá Peter, utan vítateigs, fór í stöngina og þaðan beint í fangið á markverði Reading. Fyrsta deildartap Liverpool var óvænt en heimamenn fögnuðu sínum fyrsta sigri á Liverpool í sögu félagsins. Liverpool hafði unnið alla fjóra leiki liðanna hingað til.
Reading: Hahnemann, Murty (Cisse 90. mín.), Sonko (Bikey 81. mín.), Ingimarsson, Shorey, Hunt, Harper, Gunnarsson, Convey (Lita 88. mín.), Doyle og Kitson. Ónotaðir varamenn: Federici og Long.
Mörk Reading: Stephen Hunt víti (17. mín.), Kevin Doyle (60. mín.) og James Harper (67. mín.).
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher (Hyypia 82. mín.), Hobbs, Riise, Gerrard (Babel 71. mín.), Mascherano, Sissoko, Voronin, Torres (Kewell 61. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Itandje og Kuyt.
Mark Liverpool: Steven Gerrard (28. mín.).
Gult spjald: Steven Gerrard.
Áhorfendur á Madjeski leikvanginum: 24,022.
Maður leiksins: Mohamed Sissoko. Hann barðist af miklum krafti á miðjunni og lék einn ef ekki besta leik sinn á leiktíðinni.
Álit Rafael Benítez: Það sem réði úrslitum var að við náðum ekki að nýta þau færi sem við fengum. Ég er ekki ánægður með mörkin sem við fengum á okkur og ég er heldur ekki sáttur við nokkrar ákvarðanir sem dómarinn tók í leiknum.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!