Deildarbikardraumurinn er úti
Það hafðist ekkert upp úr krafsinu á Stamford Bridge frekar en oftast á undanförnum árum. Þar slökknaði Deildarbikardraumurinn þessa leiktíðina eftir 2:0 tap.
Chelsea hefur titil að verja í þessari ágætu keppni og þess vegna kom ekki á óvart að menn þar á bæ ákváðu að tefla fram sterku liði. Liverpool var líka með sterkt lið þótt nokkrir fastamenn væri ekki með að þessu sinni. Steven Gerrard var heima með magapest og þeir Fernando Torres og Sami Hyypia voru ekki í liðinu. Xabi Alonso sneri á hinn bóginn aftur eftir meiðsli. Það var ekki hægt að hefja leik á tilsettum tíma því rétt áður en leikurinn átti að hefjast haltraði annar línuvörðurinn af velli! Alltaf sér maður eitthvað nýtt!
Leikmenn Liverpool komu mjög ákveðnir til leiks og gáfu Deildarbikarmeisturunum ekkert eftir. Leikurinn var fjörugir og sótt á báða bóga. Peter Crouch fékk fyrsta færið en skot hans úr góðri stöðu fór framhjá. Litlu síðar átti Solomon Kalou gott færi en Charles Itandje varði vel. Um miðja hálfleikinn komst Frank Lampard einn í gegn eftir mistök í vörn Liverpool en Charles kom út á móti honum og varði. Rétt á eftir átti Liverpool snarpa sókn sem endaði með því að Lucas Leiva komst einn á móti Petr Cech en Tékkinn varði frábærlega. Brasilíumaðurinn ungi hefði sannarlega átt að skora úr þessu færi. Undir lok hálfleiksins komst Mohamed Sissoko í góða stöðu inn á teig en þar datt hann. Boltinn barst til Andriy Voronin en hann skaut framhjá.
Leikurinn var í járnum fram eftir síðari hálfleik og fá færi sköpuðust. Charles varði frábærlega fast langskot frá frá Michael Essien á 53. mínútu. Fjórum mínútum síðar fékk Liverpool upplagt færi til að ná forystu. Ricardo Carvalho skallaði þá boltann aftur á markvörð sinn. Peter Crouch var vel vakandi og náði boltanum. Hann komst einn gegn Petr og reyndi að lyfta boltanum yfir hann. Petr sá við honum og varði. Varnarmenn björguðu svo. Peter hefði átt að skora og það kom í bakseglin á 59. mínútu. Frank Lampard komst inn á teig hægra megin þaðan sem hann skaut að marki. Hann hafði heppnina með sér því boltinn fór í Jamie Carragher, sem renndi sér fyrir skotið, og sveif af honum yfir Charles og í markið. Mínútu síðar versnaði staðan enn frekar þegar Peter Crouch var rekinn af leikvelli eftir að hafa átt vafasama atlögu að John Obi Mikel. Þetta var óskiljanlegt hjá Peter því atvikið átti sér stað úti við hliðarlínu. Nígeríumaðurinn var þó búinn að ergja Peter en það afsakar ekki atlögu hans. Liverpool náði ekki að ógna marki heimamanna alvarlega það sem eftir lifði leiks. Þeir Nabil El Zhar og Andriy Voronin áttu báðir, með stuttu millibili, skot utarlega hægra megin úr teigum. Bæði fóru þau framhjá. Chelsea gulltryggði svo sigur sinn á síðustu mínútu leiksins. Wayne Bridge sendi fyrir markið frá vinstri. Michael Ballack vann skallaeinvígi á teignum og skallaði boltann aftur fyrir sig á Andriy Shevchenko sem skoraði með þrumuskoti. Þar með varð endanlega ljóst, í sextándu rimmu þessara liða á síðustu fjórum leiktíðum, að Liverpool færi ekki lengra í Deildarbikarnum á þessari leiktíð.
Chelsea: Cech, Bridge, Carvalho, Belletti, Ben-Haim, Essien, Mikel (Ballack 68. mín.), Lampard, Kalou, Shevchenko (Sidwell 90. mín.) og Sinclair (J. Cole 57. mín.). Ónotaðir varamenn: Cudicini og Ferreira.
Mörk Chelsea: Frank Lampard (59. mín.) og Andriy Shevchenko (90. mín.).
Liverpool: Itandje, Arbeloa, Carragher, Hobbs, Aurelio, Sissoko, Lucas, Alonso (El Zhar 60. mín.), Voronin, Crouch og Babel (Benayoun 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin, Hyypia og Riise.
Rautt spjald: Peter Crouch.
Gul spjöld: Xabi Alonso, Lucas Leiva og Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.366.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Fyrirliðinn var frábær í vörninni og eins og venjulega barðist hann eins og ljón. Á lokakafla leiksins, þegar Liverpool var manni færri, stoppaði hann margar sóknir.
Álit Rafael Benítez: Við lékum mjög vel þegar við vorum með 11 menn inni á vellinum. Boltinn gekk vel milli manna og vörnin var traust. Chelsea er með gott lið og það hefur ekki orðið nein breyting á því. Stundum getur munur á milli liða legið í svolítilli heppni eða góðum leik hjá markverði. Við komum hingað og töpuðum 2:0 en mér fannst við standa okkur mjög vel.
Hér eru myndir úr leiknum á Stamford Bridge af vefsíðu BBC...
Strax eftir leik var dregið til undanúrslita í Deildarbikarnum. Drátturinn fór þannig.
Arsenal mætir Tottenham Hotspur og Chelsea leikur gegn Everton. Það varð því miður ekkert af undanúrslitagrannaslag á Merseybökkum!
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum