| Sf. Gutt

Öruggur sigur gegn Portsmouth

Liverpool vann í dag öruggan sigur 4:1 á Portsmouth á Anfield Road. Fyrir leikinn hafði Portsmouth unnið sex útileiki í röð en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu að bæta við þá tölu í Liverpool í dag! Gáttaþefur færði Liverpool fjögur mörk og þrjú stig í skóinn og betri aðdraganda að jólatörninni var ekki hægt að hugsa sér! Jólaskap stuðningsmanna Liverpool jókst enn nú þegar tveir dagar eru til jóla.

Liverpool fékk fyrsta færið snemma leiks en varnarmaður náði að komast fyrir Dirk Kuyt þegar Hollendingurinn var kominn í gott færi inn á teignum. Liverpool skoraði þó fyrsta markið á 13. mínútu. Harry Kewell sendi fyrir markið frá vinstri. Yossi Benayoun tók við boltanum, fyrir miðju marki rétt innan teigs, og þrumaði honum á lofti í markið. Vel afgreitt hjá Ísraelanum. Þremur mínútum síðar vænkaðist hagur Liverpool enn meir. Fernando Torres braust þá inn á vítateiginn. Þar renndi Sol Campbell sér fyrir hann og potaði boltanum. Það tókst þó ekki betur til en svo að boltinn rakst í félaga hans Sylvian Distin og af honum fór hann í markið án þess að David James kæmi nokkrum vörnum við. Það gerðist ekki ýkja mikið það sem eftir var af hálfleiknum. Næst komst Yossi því að skora en skot hans, eftir góða rispu inn á teiginn hægra megin, á 36. mínútu fór í hliðarnetið.

Gestirnir komu mjög sterkir til leiks eftir leikhlé. Alvaro Arbeloa áttu þá þversendingu, rétt utan vítateigs, sem fór beint á Papa Bouba Diop en hann skaut yfir úr góðu færi. Það kom heldur ekki mjög á óvart þegar Portsmouth skoraði á 57. mínútu. Nwankwo Kanu, sem kom inn sem varamaður í hálfleik, sendi boltann inn á vítateig frá vinstri. Sendingin fór beint á Benjani Mwaruwari sem lék auðveldlega á John Arne Riise og skoraði með föstu skoti án þess að Jose Reina gæti hreyft legg né lið. Liverpool svarði þó markinu nokkrum mínútum seinna. Steven Gerrard gaf fyrir markið úr aukaspyrnu. Sami Hyypia skallaði boltann að marki. Boltinn fór í höfuðið á Sol Campbell og þaðan á markið en David James varði. Hann hélt þó ekki boltanum en slapp með skrekkinn. Harry Kewell átti svo skot utan vítateigs sem fór rétt yfir.

Liverpool komst aftur tveimur mörkum yfir á 67. mínútu. Javier Mascherano, sem átti stórleik, sendi þá stungusendingu fram völlinn. Varamaðurinn Ryan Babel elti boltann en Hermann Hreiðarsson varð á undan honum og náði að pota boltanum aftur á David James sem kom út á móti að vítateignum. Ekki fór þó betur en svo að boltinn fór hrökk af honum til Fernando Torres sem renndi honum af öryggi í autt markið fyrir framan The Kop. Heldur ódýrt mark og annað markið í leiknum sem vörn Pompey færði Liverpool í jólagjöf! Liverpool hafði nú öll tök á nýjan leik og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði "Strákurinn" annað mark sitt og gulltryggði sigurinn. Jamie Carragher skeiðaði þá fram völlinn. Áhorfendur hvöttu hann til að skjóta þegar hann nálgaðist vítateiginn. Jamie varð ekki við þeim óskum og sendi boltann á Steven Gerrard sem var til hliðar vinstra megin í teignum. Steven skallaði boltann út í teiginn beint á Fernando sem sendi boltann í markið með viðstöðulausu skoti á lofti. Þetta var fjórtánda markið sem Fernando skorar á leiktíðinni. Öruggur sigur og það var gleðilegt að hann skyldi vinnast þrátt fyrir að Liverpool spilaði ekkert mjög vel. Stuðningsmenn Liverpool gátu farið kátir heim til að halda áfram jólaverkum sínum! Verða kannski rauð jól?

Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher, Riise, Benayoun (Babel 64. mín.), Gerrard, Mascherano, Kewell (Aurelio 76. mín.), Torres (Leiva 86. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje og Voronin.

Mörk Liverpool: Yossi Benayoun (13. mín.), Sysvian Distin sm., (16. mín.) og Fernando Torres (67. og 85. mín.).

Gult spjald: Alvaro Arbeloa.

Portsmouth: James, Johnson (Lauren 46. mín.), Campbell, Distin, Hreidarsson, Utaka (Kanu 46. mín.), Diop, Mendes, Muntari (Taylor 73. mín.), Kranjcar og Mwaruwari. Ónotaðir varamenn: Begovic og Nugent.

Mark Portsmouth: Benjani Mwaruwari (57. mín.).

Gul spjöld: Papa Bouba Diop og Hermann Hreiðarsson

Áhorfendur Á Anfield Road: 43.071.

Maður leiksins: Fernando Torres sást ef til vill ekki mjög mikið í leiknum en hann skoraði tvö mörk og átti stóran þátt í einu til viðbótar. Hvað er hægt að biðja um meira frá sóknarmanni?

Álit Rafael Benítez:  Liðið leit vel út og við sköpuðum nokkuð af marktækifærum. Við urðum reyndar svolítið taugaóstyrkir þegar Portsmouth skoraði markið enda hafa þeir náð mjög góðum árangri á útivöllum. Við þurftum að ná þriðja markinu og Fernando Torres færði okkur það. Það var mikilvægt að vinna þennan leik og það er mikið eftir af kapphlaupinu um meistaratitilinn.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan