Fyrirliðinn bjargaði jólunum!
Fyrirliðinn bjargaði jólunum þegar hann skoraði skoraði sigurmarkið gegn Derby County á síðustu stundu. Liverpool herjaði fram 2:1 sigur sem gat varla tæpari verið. Nú eru góðir tímar fyrir íslenska hrúta, enda stendur fengitíminn sem hæst, en Hrútarnir frá Derby máttu þola enn eitt tapið. Liverpool lék ekki vel og mátti þakka fyrir að sleppa með sigur gegn botnliðinu.
Hrútarnir urðu fyrir áfalli fyrir leikinn þegar aðalmarkvörður þeirra Stephen Bywater meiddist í upphitunni. Hinn ungi Lewis Price varamarkvöður tók stöðu hans. Liverpool hóf leikinn af krafti og tók strax öll völd á vellinum og það kom ekki á óvart þegar liðið braut ísinn á 12. mínútu. Fernando Torres fékk þá boltann rétt utan vítateigs, frá Ryan Babel, þar sem hann fór framhjá Darren Moore eins og hann væri ekki til. Fernando lék svo á annan varnarmann inni í teignum áður en hann smellti boltanum út í hornið fær með meitluðu vinstrifótarskoti. Enn eitt glæsimarkið hjá þessum magnaða Spánverja. Nú héldu stuðningsmenn Liverpool að allt stefndi í öruggan sigur Liverpool. Rétt á eftir tók Ryan góða rispu inn á teig en skot hans fór framhjá. Ryan skaut svo yfir eftir góða sendingu frá John Arne Riise um miðjan hálfleikinn. Á 34. mínútu tók Steven Gerrard horspyrnu. Boltinn fór yfir á fjærstöng en þar skaut Jamie Carragher yfir úr góðu færi. Liverpool hafði haft öll völd í fyrri hálfleiknum en aðeins eitt mark var uppskeran þegar flautað var til leikhlés.
Það var allt annað að sjá til heimamanna í síðari hálfleik. Hrútarnir voru grimmir og leikmenn Liverpool virkuðu værukærir. Liverpool varð fyrir áfalli snemma í hálfleiknum þegar Sami Hyypia varð að fara af velli vegna meiðsla. Yossi Benayoun kom inn fyrir hann og fór út á kant en John Arne tók stöðu Sami í vörninni. Heimamenn færðu sig jafnt og þétt upp á skaftið án þess þó að fá nein opin færi. Það kom samt ekki á óvart að Derby skyldi jafna á 67. mínútu. Eddie Lewis sendi aukaspyrnu inn á teig. Boltinn fór þar í einn leikmann Liverpool og barst til hægri. Þar fékk Jay McEveley boltann rétt við markteiginn og skoraði með föstu skoti sem Jose Reina átti ekki möguleika á að verja. Þetta var fyrsta markið sem Derby skorar á heimavelli í deildinni frá því í september! Leikmenn tóku lengi vel ekkert við sér þrátt fyrir að heimamenn væru búnir að jafna. Það var ekki fyrr en ellefu mínútum fyrir leikslok að markvörður Derby þurfti að gera eitthvað. Hann varði þá fast langskot frá Fabio Aurelio í horn. Fjórum mínútum seinna varði hann aftur. Fast skot Xabi Alonso stefni í markið en Lewis varði frábærlega með því að slá boltann yfir. Derby svaraði með snöggri sókn. Eddie Lewis sendi góða sendingu fyrir markið en Giles Barnes skallaði yfir úr góðu færi. Steven Gerrard þótti nú nóg komið. Þremur mínútum fyrir leikslok átti hann þrumuskot utan vítateigs sem fór í þverslána og niður. Allt leit nú út fyrir að jafntefli yrði en Steven Gerrard var ekki búinn að segja sitt síðasta orð. Á lokamínútunni náði hann boltanum við eigin vítateig og tók á rás. Hann æddi upp völlinn framhjá hverju sem fyrir varð áður en hann sendi út til vinstri á Yossi. Ísraelinn lék upp að endamörkum og sendi þaðan út í teiginn. Fernando fékk boltann og skaut að marki. Lewis varði en hélt ekki boltanum. Hann var þó við að ná boltanum aftur þegar varnarmaður potaði boltanum frá honum. Boltinn hrökk út og þangað var Steven kominn og hamraði boltann í markið. Tæpur sigur en fögnuður stuðningsmanna Liverpool var mikill. Steven Gerrard sá um jólagjöfina til okkar!
Derby County: Price, Mears, Leacock, Moore (Feilhaber 46. mín.), McEveley, Teale (Earnshaw 56. mín.), Barnes, Pearson (Johnson 26. mín.), Lewis, Howard og Miller. Ónotaðir varamenn: Hinchliffe og Fagan.
Mark Derby County: Jay McEveley (67. mín.).
Gult spjald: Jay McEveley.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia (Benayoun 54. mín.), Carragher, Riise, Babel (Kuyt 72. mín.), Gerrard, Alonso, Aurelio, Torres, Voronin (Leiva 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Mascherano.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (12. mín.) og Steven Gerrard (90. mín.).
Áhorfendur á Pride Park: 33.029.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn hefur oft spilað betur en undir lokin þegar allt stefndi í jafntefli tók hann til sinna ráða og sýndi hversu frábær leikmaður hann er. Fyrst átti hann bylmingsskot í þverslá og svo skoraði hann sigurmarkið. Fyrir að ná sigrinum má velja hann besta mann Liverpool.
Álit Rafael Benítez: Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik því þá höfðum við stjórn á leiknum. Við vorum mikið með boltann en það þarf að gera út um leikinn. Ég veit ekki af hverju við náðum ekki að skora annað mark til að gera út um leikinn. Eftir leikhlé voru þeir miklu kraftmeiri og grimmari og við urðum svolítið taugaóstyrkir þegar þeir skoruðu.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni